Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 13:48:34 (4976)

2000-03-07 13:48:34# 125. lþ. 73.96 fundur 361#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil mótmæla þessum fullyrðingum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Það er vissulega skilgreint hlutverk Alþingis að setja lög en líka að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og sjá til þess að þeim lögum og reglum sem Alþingi setur sé fylgt. (KHG: En dómsvaldið?) Það eru aðrir sem hafa reynt að hafa áhrif á dómsvaldið. (Gripið fram í.) Já, og þá skyldu menn líta á ráðherrabekkina, sem reyna að hafa áhrif og reyna að kúga dómstólana til hlýðni og það er mjög alvarlegur hlutur og alvarleg umræða þyrfti að fara fram um það á Alþingi.

Staðreyndin er sú að sá sem fer með eignarhlut, meirihlutaeign í hlutafélagi, í fyrirtækjum sem ríkisstjórnin hefur gert að hlutafélögum á borð við ríkisbankana eða Landssímann, getur haft áhrif á hvað er upplýst af hendi þessara fyrirtækja og um það snýst umræðan. Við vitum hins vegar vel að ríkisstjórnin leitast við að loka á slíkar upplýsingar, loka þær niðri í skúffum og bak við tjöldin. Það er hlutverk Alþingis að koma í veg fyrir að þjóðfélaginu verði lokað með þessum hætti.