Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 14:39:17 (4992)

2000-03-07 14:39:17# 125. lþ. 73.4 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[14:39]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Frv. til laga um starfsréttindi tannsmiða er ekki yfirgripsmikið. Aðeins þrjár greinar að viðbættri gildistökugrein. Mig langar þó í örstuttu máli að fjalla almennt um stefnu hins opinbera hvað varðar starfsréttindi til einstakra starfshópa.

Ekki er langt síðan hv. iðnn. afgreiddi frá sér og Alþingi samþykkti sem lög starfsréttindi og lögverndun á starfsheitinu landslagsarkitekt, innanhússarkitekt og húsgagnaarkitekt. Í nál. frá hv. iðnn. í því máli var þeim tilmælum eindregið beint til hæstv. ríkisstjórnar að móta stefnu hvað varðar viðurkenningu á starfsréttindum og lögverndun á starfsréttindum tiltekinna hópa. Það virðist nefnilega, virðulegi forseti, vera nokkrum tilviljunum háð hvaða hópar það eru sem ná fram því markmiði að fá lögverndun á starfsheiti. Ég held að ástæða sé til þess að beina því til hæstv. ríkisstjórnar og ítreka að setja einhverja markvissa stefnu hvað varðar lögverndun á starfsréttindum.

Hér er til umfjöllunar frv. til laga um starfsréttindi tannsmiða og það er alveg ljóst að deilan í þessu máli snýst um hagsmuni og hún snýst í rauninni um tvö grundvallaratriði. Ber að flokka tannsmiði sem iðnaðarstétt ellegar ber að líta á tannsmiði sem heilbrigðisstétt? Með þessu frv. er augljóslega tekið af skarið og tekin sú ákvörðun og sú stefna að hér sé um iðnaðarmál að ræða og málið kynnt og lagt fram með þeim formerkjum. Ég hygg, herra forseti, að það sé svo að starf tannsmiða snúist að mestu um mjög nákvæma og vandaða smíði á tönnum og tanngörðum, en minnstur hlutinn af starfinu fari fram í munnholi sjúklingsins. Það er fyrst og fremst um það að ræða að taka mót, sem er lýst ágætlega í greinargerð með frv., þar sem sprautað er þar til gerðri kvoðu með einhverju áhaldi sem skeið nefnist og síðan er tekið mót þegar kvoðan er hörðnuð og eftir því móti smíða tannsmiðir. Megnið af vinnunni fer því fram utan munnhols. En deilan snýst um, eins og hér var bent á af síðasta hv. ræðumanni, vandann við að meta heilbrigði gómsins sem tannsmiðurinn er að vinna með.

Þó er rétt að taka fram, herra forseti, að með því að taka ákvörðun um að hér sé um iðnaðarstétt að ræða er jafnframt verið að skírskota til stjórnarskrárbundinna atvinnuréttinda og þarf að fara mjög varlega í allt sem heitir skerðing á atvinnuréttindum að því gefnu að litið sé á tannsmiði sem iðnaðarstétt. Það er með þeim rökum sem vandasamt er að takmarka réttindin en gegn þeim rökum koma svo þau heilbrigðissjónarmið sem hafa verið til umræðu.

Vert er að benda á, herra forseti, að samkvæmt frv. er hæstv. iðnrh. ætlað að setja með reglugerð ákvæði um að tannsmiðir sæki námskeið og fái sérstaka menntun í að meta einmitt heilbrigði í munnholi um það leyti sem verið er að taka umrædd mót og það er sú leið sem Danir hafa farið.

Þá er líka rétt að benda á það í þessu sambandi, herra forseti, að fjölmargir tannsmiðir vinna í nánu samstarfi við tannlækna og jafnframt að benda á það, herra forseti, að kvikni minnsti grunur hjá viðkomandi tannsmið er honum að sjálfsögðu ætlað að vísa meintum sjúklingi til tannlæknis.

Ég minni líka á að í í 2. gr. frv. er mjög rækilega vikið að ábyrgð og brot gegn lögum þessum varða væntanlega sektum og þar með er verið að höfða til ábyrgðar þeirra. Ég geri ráð fyrir því að allir metnaðargjarnir einstaklingar á þessu sviði sem öðrum vilji axla þá ábyrgð og kvikni minnsti vafi hjá þeim leiti þeir til sérfræðinga í munnholi, þ.e. tannlækna.

[14:45]

Einnig er rétt að benda á það, herra forseti, að samkvæmt frv. er ekki verið að skerða neitt starfssvið eða réttindi tannlækna. Ég vil enn fremur draga það upp að einhvern tímann þarf líka að vitna til sjálfsákvörðunar einstaklingsins, einstaklingur sem þarf á því að halda að fá gervitönn eða gervitennur, að hann geti sjálfur tekið þá ákvörðun að fara til sjálfstætt starfandi tannsmiðs. Meti hann það svo að hann telji sig öruggari að leita fyrst til tannlæknis þá hljótum við að þurfa á stundum að höfða til sjálfsákvörðunarréttar einstaklingsins.

Það kemur fram í frv. að með þessu er verið að ýta undir samkeppni, væntanlega á milli einstakra tannsmiða og ekki síður á milli tannlækna og tannsmiða í einhverjum tilvikum. Ég hygg að flestir séu sammála um að í því sé fólgin ákveðin neytendavernd sem er neytendum til hagsbóta. Aðalatriðið er að fram fari vönduð og heilbrigð vinna innan munnhols sem utan og um það tel ég að frv. snúist. Hv. iðnn. mun að sjálfsögðu taka málið til skoðunar og við munum alveg örugglega leita eftir áliti heilbr.- og trn. og þeirra hagsmunaaðila sem að málinu koma. Þó að það sé ekki fyrirferðarmikið er oft að hin minnstu mál geta undið hraustlega upp á sig. En hv. iðnn. á greinilega mikið verk fyrir höndum.