Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 14:59:56 (5062)

2000-03-08 14:59:56# 125. lþ. 75.6 fundur 353. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[14:59]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þó að ég geti ekki talað hér fyrir hönd hv. þm. Jóns Bjarnasonar og svarað fyrir hann, þá geri ég því skóna að hann hefði viljað að nefndinni hefði verið ætlað að skila af sér fyrr, a.m.k. áfangaskýrslu til þess að við gætum fjallað um hana, en ég gat ekki heyrt í máli hv. þm. að hann væri neitt að ásaka nefndina um seinagang sem slíkan í nefndinni.

[15:00]

En ég ætla að halda mig við minn hluta að þessu máli. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Svo er að heyra að nefndin sé að afla þeirra gagna sem þarf til að fara í þessa vinnu. Það er mikil vinna --- ég geri mér grein fyrir því --- að reyna að finna og ná sátt um skiptingu tekjustofna á milli ríkis og sveitarfélaga. Verkefnið er brýnt og það má kannski segja að í heildina hafi verið farið of seint í þessa endurskoðun. Fólksflótti eða fólksfækkun á landsbyggðinni er alvarlegt mál og dýr fyrir þjóðfélagið og þetta er einn liður af mörgum til að bæta stöðu sveitarfélaganna þannig að þau geti þjónað íbúunum svo þeir megi sáttir við una heima fyrir, að þeir fái þjónustu eins og þá sem fólk fær á höfuðborgarsvæðinu. Það kom hér fram hjá hæstv. ráðherra að litlu sveitarfélögin eru kannski ekki verst sett. En þjónustan hjá þeim er líka sama og engin og fólksflóttinn eða fólksflutningar frá þessum svæðum er líka mikið áhyggjuefni. Allt þetta helst í hendur. Það þarf að styrkja stöðu sveitarfélaganna.