Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 14:31:13 (5217)

2000-03-14 14:31:13# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[14:31]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það var ágætt að við leiðréttum þennan misskilning. Hv. þm. var ekki verið að gagnrýna mig fyrir að bregðast við. Ég held hins vegar að miðað við röksemdafærslu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur þá eigi gagnrýni hennar á viðbrögðin ekki við. Þessi lög eru tímabundin þannig að dómsorðin í dómi Hæstaréttar frá því í desember 1998 eiga þar af leiðandi ekki við. Það er sérstaklega talað um það í þeim dómi að hægt sé að grípa til tímabundinna ráðstafana. Jafnframt er úthlutun samkvæmt þessum lögum ekki algjörlega byggð á veiðireynslu heldur m.a. á stærð skipa. Eins er hluti af heildarkvótanum, þ.e. 10%, til úthlutunar til þeirra sem ekki hafa stundað þessar veiðar áður.

Í mörgum atriðum eru lög um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum ólík lögunum um stjórn fiskveiða sem hafa verið umfjöllunarefni dómstólanna. Þau atriði sem gagnrýnd hafa verið í þessu sambandi og hv. Alþingi hefur brugðist við eiga að mínu mati ekki við um þessi lög.