Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 17:52:15 (5266)

2000-03-14 17:52:15# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[17:52]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þessar umræður í dag um sjávarútvegsmál hafa verið mjög fróðlegar á marga lund. Auðvitað hefur það komið upp eins og maður vissi fyrir fram að fyrri sjónarmið eru endurtekin af þingmönnum og mjög margir þingmenn tala í þeim dúr að sjálfsagt sé og réttlætanlegt og jafnvel jafnræði eða jafnaðarstefna að taka fiskveiðiréttindi af þeim sem þau hafa nú og flytja þau til annarra. Á því byggir hugmyndin um byggðakvóta.

Í því sambandi er sérstaklega athyglisvert að eini staðurinn af þeim sem fengu úthlutað byggðakvóta, og það hefur verið talið eftir, er Grímsey. Nú er Grímsey að sjálfsögðu það byggða ból hér á landi sem afskekktast er. Það er líka öldungis ljóst að Grímseyingar geta ekki bjargað sér nema með fiskveiðum. Það er líka ljóst að á síðustu missirum, þó nú hafi aðeins brugðið til betri áttar, fækkaði þar verulega fólki en ég hygg að enginn vafi sé á því að hægt sé að færa fyrir a.m.k. einhver rök að byggðakvótinn hafi heldur hjálpað upp á þær sakir að þangað flyttist ungt fólk. Eftir sem áður hefur verið haft orð á því að kannski þyrftu Grímseyingar ekki á þessum byggðakvóta að halda.

Ég held að þessi umræða um Grímsey kristalli þau mismunandi sjónarmið sem eru á bak við pólitískar úthlutanir á verðmætum. Stjórnmálamönnum hættir til að horfa frekar til þeirra staða þar sem þeir eru kunnugir og eru auðvitað fúsari til að létta frekar á verðmætunum, minnka svolítið í pyngjunni hjá þeim stöðum sem eru utan þeirra áhrifasvæða sem eru utan kjördæma þeirra. Þess vegna hefur það verið svo um alla pólitíska úthlutun á verðmætum að ef hún hefur ekki þegar í stað þá a.m.k. til lengri tíma litið valdið spillingu, óróa, sundrungu. Kemur raunar fram í þessum umræðum að einstakir þingmenn hafi verið að gefa slíkt í skyn.

Mér finnst nauðsynlegt vegna þess sem hér hefur verið talað um að rifja það upp enn einu sinni að kvótakerfið var ekki sett á hér á landi til að gefa mönnum einhver ákveðin réttindi. Það var ekki hugsunin á bak við kvótakerfið. Við stóðum frammi fyrir því að þorskstofninn var að hrynja. Fyrir þann tíma hafði verið kvóti á innfjarðarrækju í Ísafjarðardjúpi. Það hafði verið kvóti á uppsjávarfiski. Það voru engir, svo að mér sé kunnugt, fúsir til þess að hætta þeim skipulögðu veiðum sem fram að þeim tíma höfðu verið stundaðar vegna þess að menn gerðu sér grein fyrir því að það skapaði visst öryggi hjá þeim sem sóttu í þessa stofna og vegna þess að fiskifræðingar höfðu með margra ára athugunum unnið að því að reyna að gera sér grein fyrir því hvernig rétt væri að haga sókninni þannig að sem mestur afrakstur yrði af veiðunum og var þá bæði horft til þeirra sem reru og eins þeirra sem unnu í landi.

Á hinum síðari árum hefur farið svo að þeim hefur verið að fækka sem unnið hafa hin hefðbundnu störf við fiskvinnslu í landi. Þetta er t.d. mjög greinilegt í nútímalegum rækjuverksmiðjum svo dæmi sé tekið. Ég nefni það sérstaklega vegna þess að fyrir skömmu skoðaði ég eina slíka en þetta á sér líka stað í sambandi við vinnslu á bolfiski. Það er líka eftirtektarvert hversu nákvæmari vinnslustýringin er en áður. Ef menn ætla að vera samkeppnisfærir, a.m.k. á sumum sviðum, er því óhjákvæmilegt að þar sé töluverð velta og að menn geti lagt verulegt fé í þróunarstarf. Þetta hefur m.a. valdið því að fyrirtæki hafa verið að stækka.

Nú segja menn að hægt sé að bjarga byggðum með því að úthluta, sumir tala um 1.500 tonn. Einn hv. þm. talaði um 15--20 þús. tonn án þess þó að því væri slegið föstu, það væri nægilega mikið eða kannski allt of mikið. Ef taka á 15--20 þús. tonn af þorski til hliðar er óhjákvæmilegt að þessi þorskur sé tekin af einhverjum sjómönnum. Ef hugmyndin er sú eins og kom fram hjá hv. 4. þm. Vestf., Guðjóni A. Kristjánssyni, að skipta kvótanum upp á nýjan leik þannig að t.d. togararnir leggi öðrum skipastærðum til verulegan afla erum við líka að kippa fótunum undan rekstri ýmissa togara sem þó ganga nú og hafa of lítinn fisk. Öll slík uppskipti hljóta undir öllum kringumstæðum að vera umdeild, vekja reiði og kippa undir vissum kringumstæðum fótum undan atvinnu fólks.

Ég hef tekið eftir því að sérstaklega þingmenn Samfylkingarinnar og raunar líka Frjálslynda flokksins hafa tekið sér í munn orðin ,,réttlæti`` og ,,jafnræði`` þegar þeir eru að gera því skóna að það sé eitthvað rangt við það að þeir sem fram að þessu hafa róið eða gert út fái að halda þeim aflaheimildum sem þeir hafa þó núna. Réttlætið og sáttin í þjóðfélaginu á að byggjast á því að taka aflann af þeim sem hafa hann nú.

[18:00]

Síðast þegar ég var úti í Grímsey hitti ég einn af útgerðarmönnunum þar, þangað fluttan. Hann sagði við mig og hallaði sér fram á stýrishjólið: ,,Ég er nú einn af kvótakóngunum hér í Grímsey. Hvar er mitt konungsríki? Mitt konungsríki er það sem ég á eftir af aflaheimildum, að ég skyldi ekki hafa gefist upp við að búa hér í Grímsey, að ég og fjölskylda mín höfum lagt okkur fram um að reyna að kaupa aflaheimildir í staðinn fyrir þær sem frá okkur voru teknar af því að okkur þykir vænt um að vera hér og viljum vera hér.`` Hvaða milljónatugi hefur hann fengið í sinn vasa eða sonur hans sem nú er að reyna að hefja útgerð? Hvar er ríkidæmi þeirra? Hvar er gjafakvótinn hans?

Bar að skilja það svo hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, þegar hann sagði áðan að menn ættu ekki að fá að skrifa sinn eigin óska-lagatexta, að það væri einhver sérstakur óska-lagatexti hjá þessum sjómönnum og útgerðarmönnum úti á landi sem hafa barist fyrir því að geta haldið byggðarlögunum lifandi og vakandi? Er hugsun hans sú að hann vilji búa til einhverjar nýjar reglur? Er hann að leggja fram á Alþingi frv. um að taka heimildirnar af þessum mönnum og skipta þeim upp á nýtt? Ber að skilja það svo, þegar samfylkingarmenn tala um það hér að þeir vilji bjóða upp allar fiskveiðiheimildir, að þeir ætli að taka þennan fisk af þessum mönnum sem hafa haldið út síðan kvótakerfið var sett á?

Ég þarf ekki að tala um það við mann eins og hv. 4. þm. Vestf., Guðjón A. Kristjánsson, að ýmsir útgerðarmenn urðu fyrir þungum búsifjum eftir að kvótakerfið var sett á á sínum tíma vegna þess mikla aflasamdráttar sem þá var í þorskveiðum. Menn máttu hafa sig alla við til að halda eignum sínum, að lifa þorrann og góuna. (GAK: Og lifðu það ekki.) Ég var að segja að sumir hefðu ekki lifað það. Sumir lifðu það, eins og saga íslensku þjóðarinnar er. En þá finnst mér skrýtið að menn geti talað um það hver á fætur öðrum í sölum Alþingis að sjálfsagt sé að taka af þeim sem þó hjörðu. Menn eru að tala um það líka að léttara sé að taka kvóta af togurunum og setja til bátanna. Nú er hv. 4. þm. Vestf., Guðjón A. Kristjánsson, kunnugur togaraflotanum. Hvað gerir hann ráð fyrir að leggja þurfi mörgum togurum ef hugmyndir hans og tillögur næðu fram að ganga?

Hv. þm. veit að fyrir kemur að skipshafnir séu settar á land og skipum lagt þegar ekki er nægur afli. Hann veit einnig að meðal ungs fólks, líka úti á landi, er viðhorfið að breytast og fjarri því að jafnmargir vilji fara í Stýrimannaskólann, m.a. vegna þess að menn sjá ekki í því framtíðina eins og nú er talað og nú er unnið. Maður sem ég talaði við nú í vikunni hafði orðið fyrir því að missa skip. Hann sagði hins vegar: Auðvitað verðum við að byggja á þeim grunni í stjórn fiskveiða sem við búum við nú því að sjávarútvegurinn þolir ekki meiri óvissu en við búum nú við. Grundvallaratriðið í sambandi við öll þessi mál er að óvissunni linni. Ef menn vilja taka afla af ákveðnum skipum og færa til annarra, þá er best þeir segi hreint út af hvaða skipum eigi að taka. Hvaða byggðarlög eru það sem mega missa frá sér kvóta?

Þegar talað er um að rétt sé að þriðji hver þorskur, þriðja hver síld, þriðja hver loðna og þriðja hver grálúða eigi að vera byggðakvóti, þá spyr ég á móti: Á að taka eitthvað af þessu úr Eyjafirði og fara með það annað? Er það hugmyndin? Á Eyjafjörður að missa eitthvað af þeim fiskveiðiréttindum sem hann hefur nú? Er það hugmyndin? Ef Eyjafjörður á að missa eitthvað af sínu, þá væri ágætt að fá að vita það. Ég spyr. (Gripið fram í.) Ég skal spyrja samfylkingarmenn sem hér eru inni. Þeir eru að tala um að taka fiskveiðiheimildirnar af skipunum. (SvanJ: Við erum ekki með byggðakvótahugmyndir.) Á hve mörgum árum telur hv. þm. Dalvíkinga rétt að taka veiðiheimildirnar af skipunum og bjóða upp? Hv. þm. sem grípur fram í, það er best að hann svari því. Hv. þm. vill bjóða upp fiskveiðiheimildirnar. Hvað ætlar hann að taka fiskveiðiheimildirnar af skipunum á löngum tíma? Þingmaðurinn greip fram í. Hann greip fram í af því að honum var mikið niðri fyrir. Af hverju var honum mikið niðri fyrir? Af því að hann hélt sig geta komið höggi á einhvern annan. En hún vill ekki skýra sínar eigin hugmyndir. Ég sé hér hv. þm. Akraness. Hvað vill hv. þm. Akraness taka fiskveiðiheimildirnar á mörgum árum af skipunum á Akranesi? (JÁ: Ég mun svara því á eftir.) Já, en ekki úr sætinu? Það væri fróðlegt að fá að vita það.

Það er með öðrum orðum öldungis ljóst að tillögugerð án þess að segja nákvæmlega til um hvað eigi að gera er auðveld. Hitt er ljóst að þá fer eins um þessa sjóferð og forðum þegar ágætur dánumaður var á leið til Írlands og og allir lögðu á ráðin eftir að óveðrið skall á. Hann hafði orð á því að þeim mun verr nýttust heimskra manna ráð er þau kæmu fleiri saman. (Gripið fram í: Enda hefur stjórnin mikinn meiri hluta.)

Nú er það svo með þetta kvótakerfi að það má vera að eini stjórnmálaflokkurinn sem ekki hefur unað því vel meðan hann hefur átt aðild að ríkisstjórn er Kvennalistinn. Formaður Frjálslynda flokksins var einn af þeim ásamt Matthíasi Bjarnasyni, í mínum flokki á þeim tíma, sem börðu kvótakerfið í gegnum þingflokk Sjálfstfl. (GÁS: Þurfti að berja það í gegn?) Við vitum hvaða þátt Framsfl. átti í kvótakerfinu. Okkur er kunnugt um það að formaður vinstri grænna sat í ríkisstjórn undir kvótakerfinu.

Ég tala nú ekki um Alþfl. Engan flokk veit ég hafa notið sín betur undir kvótakerfinu en Alþfl. Að búa við það öll þessi ár en bera þó aldrei ábyrgð á neinu. Það er pólitík. Ekki einn einasti formaður Alþfl. svo að ég muni hefur lýst því yfir að búandi sé við það fiskveiðikerfi sem við Íslendingar höfum þó haft. Þó þeir hafi setið í ríkisstjórn og vilji sitja í ríkisstjórn þá hafa þeir ekki viljað bera ábyrgð á því. Það er sannleikurinn í málinu.

Herra forseti. Að sjálfsögðu er það svo þegar skammtað er og menn geta ekki eins og áður sótt í sjóinn eftir getu sinni að aldrei verður þannig skipt að allir uni því. Ég tel á hinn bóginn að sjálfsagt og raunar óhjákvæmilegt sé að menn ætlist til þess af þingmönnum, ef þeir vilja færa til aflaheimildir milli héraða og milli skipa, að þeir skýri frá því milli hvaða héraða og skipa þeir vilji færa þær. Eins hygg ég að nauðsynlegt sé að Samfylkingin geri betri grein fyrir sínum málum.