Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 18:17:57 (5273)

2000-03-14 18:17:57# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[18:17]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar þetta kerfi var sett á, eignarkvótinn, var lokað fyrir atvinnuréttindi annarra sem hefðu komið að greininni. Þeim sem fyrir voru í greininni var fenginn sá réttur að selja hinum aðganginn, að selja nýliðum í greininni aðganginn. Þetta eru sérréttindi sem mönnum voru þarna fengin og ekki aldeilis verið að gera illa við þá heldur var verið að fá þeim þessi sérréttindi í hendur.

Síðan koma menn núna og tala um það eins og einhvern heilagan rétt að fá að hafa tækifæri til að selja öðrum aðgang að atvinnugreininni. Í þessari atvinnugrein, einni atvinnugreina á Íslandi, á það að gilda að þeir sem fyrir eru hafi rétt til að selja öllum öðrum sem koma að greininni aðganginn að henni. Þetta er kerfið sem hv. þm. er að verja hér af öllum kröftum. Af hverju skyldi hann vera að því? Ég held því fram að það sé vegna þess að í hans byggðarlagi hafa menn haft meira út úr þessu kerfi en flestir aðrir.