Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 18:42:27 (5281)

2000-03-14 18:42:27# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[18:42]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Í umræðunni hefur verið fjallað um margt fleira en það frv. sem er til umræðu og mælt var fyrir í upphafi hennar. Ég vil leyfa mér að blanda mér í þessa almennu umræðu fremur en umræðu um frv. sjálft og víkja að sumu af því sem hefur komið fram.

Hér hefur nokkuð verið rætt um 1.500 tonna byggðakvóta þann sem ákveðið var á síðasta ári að fela Byggðastofnun úthlutun á og hefur sitt sýnst hverjum eins og heyra hefur mátt.

Ég held að rétt sé að rifja upp hver voru sjónarmið á bak við þennan byggðakvóta af hálfu meiri hluta sjútvn. Ég hygg að ég geti greint nokkuð sæmilega frá því þar sem ég var þá formaður nefndarinnar og mælti fyrir áliti hennar þar sem greint var frá þessari tillögu.

Það kom mjög skýrt fram í sjónarmiðum okkar sem töluðum fyrir málinu ákveðið sjónarmið. Ég held að það sé best gerð grein fyrir því með því að rifja upp lítinn kafla úr framsöguræðunni sem var flutt í janúarmánuði á sl. ári, með leyfi forseta:

,,Núgildandi lög eru að stofni til nokkuð gömul og á þeim hafa árlega verið gerðar verulegar breytingar. Er nauðsynlegt að skrifa nýjan lagatexta og gæta samræmis í einstökum ákvæðum laganna, auk þess sem engin launung er á því að óánægju hefur gætt með ýmsar hliðarverkanir kerfisins. Þær tengjast einkum framsali veiðiheimilda. Þar hefur mest borið á umræðu um hagnað einstakra útvegsmanna við sölu á veiðiheimildum og afleita stöðu einstakra byggðarlaga við þær aðstæður að veiðiheimildir eru seldar burt. Er á það bent að fiskvinnslufólk og sjómenn geti staðið uppi atvinnulaus nánast fyrirvaralaust og að verðmæti eigna þess falli verulega. Þessi sjónarmið er óhjákvæmilegt að taka til athugunar við endurskoðun laganna.

Meiri hluti nefndarinnar leggur hins vegar til að þegar verði teknar frá aflaheimildir sem ráðstafað verði til byggðarlaga í samráði við sveitarstjórnir sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Ætlast er til að aflaheimildirnar verði notaðar til þess að stuðla að varanlegri lausn á vanda í atvinnumálum umræddra byggðarlaga. Gert er ráð fyrir að Byggðastofnun verði falið þetta verkefni og hefur stofnunin rúmar heimildir til að móta reglur um framkvæmdina. Með þessari ákvörðun undirstrika stjórnarflokkarnir þann ásetning sinn að gera íbúum í sjávarplássum landsbyggðarinnar kleift að nýta áfram þá auðlind sem er grundvöllur byggðarinnar þótt tímabundið geti blikur verið á lofti í einstökum byggðarlögum.``

[18:45]

Ég held að þarna komi mjög skýrt fram hvað fyrir okkur vakti á þeim tíma sem stóðum að því að flytja tillögu um 1.500 tonna byggðakvóta.

Ég fagna því sem hér hefur komið fram í umræðunni frá hv. 1. þm. Norðurl. e., þ.e. að hann álítur að byggðakvótinn hafi skilað góðum árangri og bætt stöðu Grímseyjar. Það kom fram í máli þingmannsins. Það er alveg í takt við þær meiningar sem við höfðum til málsins að með því að geta bætt við veiðiheimildum inn í einstök byggðarlög, gert ákveðna samninga sem lutu að því að styrkja grundvöll fyrirtækja í þeim byggðarlögum, væru menn að styrkja atvinnulífið í heild í viðkomandi byggðarlögum. Það kom fram mjög skýrt í máli hv. 1. þm. Norðurl. e. að hann álítur að þetta markmið hafi tekist eða muni takast við úthlutun á byggðakvóta til Grímseyjar.

Ég gæti líka nefnt sem dæmi aðra úthlutun, til Vesturbyggðar sem hér var nefnt í umræðunni. Þar var niðurstaðan að úthluta í eitt byggðarlag, Bíldudal, þannig að sá sem þann kvóta fær notaði þá heimild til að afla sér meiri heimilda frá útgerðarmönnum og hafa samtals þrefalt það magn sem úthlutað var til þess að vinna í sinni fiskvinnslustöð. Það er niðurstaða manna eftir athugun í Byggðastofnun og reyndar fleiri aðila að það sem dugar best til að styrkja atvinnulega stöðu í fámennum sjávarplássum er að styrkja fiskvinnsluþáttinn. Það er besti mælikvarðinn á stöðu í sjávarplássum, atvinnulega stöðu, þ.e. að skoða hvernig fiskvinnslan stendur. Ef hún sendur vel og er þróttmikil þá eru miklar líkur til þess að atvinnulíf standi nokkuð vel í því byggðarlagi. Ef fiskvinnslan er hins vegar veik eða jafnvel lítil sem engin, þá er nokkuð líklegt að atvinnulíf standi veikt. Það er því af ásettu ráði lagt upp með þann tilgang að nota byggðakvótann til að styrkja vinnsluþáttinn í sjávarútveginum.

Ég hygg að niðurstaðan á Bíldudal verði sú að þarna hafi menn náð því sem þeir ætluðu sér. Ég hygg að ekki verði um það deilt. Ég held að það sé ekki sanngjarnt að væna fyrri stjórn Byggðastofnunar um að hafa farið út fyrir valdsvið sitt við frágang málsins. Hún fékk rúmar reglur, skýran megintilgang lagaákvæðisins og hefur farið eftir því í öllum meginatriðum. Hins vegar geta menn sagt að þeir séu ekki sáttir við allar útfærslur. Það er eins og gengur. Það er ekki við því að búast að allir verði sammála því. Það er t.d. óheppilegt að vera búinn að ráðstafa öllum byggðakvótanum fimm ár fram í tímann og hafa ekkert svigrúm til að bregðast við nýjum atvinnuvanda sem upp kemur eftir ráðstöfun hans, eins og gerist með Hrísey þar sem Byggðastofnun hefur núna engar heimildir til að bregðast við og láta til atvinnuuppbyggingar á þeim stað nema unnt verði að taka af einhverjum öðrum eða fá Alþingi til að samþykkja auknar heimildir.

Hríseyingum finnst mörgum seint ganga í endurreisn atvinnulífsins þar og ég er alveg viss um að ef menn hefðu eins og 100 tonn þá væri hægt að setja þar á fót með ekki löngum fyrirvara fiskvinnslufyrirtæki sem veitti þó nokkuð mörgum mönnum atvinnu. En við höfum ekki það svigrúm nema menn taki það af einhverjum öðrum.

Ég hef að vísu sagt að ég hafi efasemdir um úthlutunina til Grímseyjar. Mér er ekki alveg ljós sá vandi sem það byggðarlag hefur lent í, en eins og fram kemur í lagaákvæðinu er forsenda þess að úthlutað sé byggðakvóta að verið sé að bregðast við vanda sem upp hefur komið á þeim stað í atvinnulífinu. Ég hefði talið heppilegt ef unnt hefði verið að færa heimildirnar frá Grímsey til Hríseyjar. Ég hefði talið að við gerðum meira gagn þar. Þó að mér sé ekki ljóst að um þann atvinnulega vanda sé um að ræða í Grímsey sem er forsenda lagaákvæðisins, þá mun það örugglega styrkja stöðu atvinnulífsins í Grímsey að fá þennan byggðakvóta. Mér er það alveg ljóst.

Ég held að það eigi að halda áfram að þróa þetta mál með byggðakvóta. Ég held að það eigi að styrkja þetta lagaákvæði og sá stuðningur sem það hefur fengið í þessari umræðu styrkir mig í þeirri trú að það sé unnt að ná samstöðu um að auka við þetta viðurlagaákvæði í lögunum um stjórn fiskveiða. Þó ekki sé kominn langur tími á reynsluna held ég að ég geti leyft mér að fullyrða að það er eiginlega að mestu leyti óumdeild úthlutun og ég held því fram að það sé að mestu leyti óumdeilt að hún muni leiða til góðs hvað varðar stöðu atvinnulífs í þeim byggðarlögum sem byggðakvóta hafa fengið. Ég vænti þess því að menn skoði málið í því ljósi að það er hægt að bregðast við vandamálum í atvinnulífinu með þessum hætti og við höfum fengið upp ný vandamál eftir að úthlutun fór fram á sínum tíma og höfum ekki svigrúm til að bregðast við því. Það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort ekki sé rétt að styrkja ákvæði um byggðakvóta til þess að fá tæki til að bregðast við á þeim stöðum, eins og á Hrísey, Ólafsfirði og fleiri stöðum þar sem síðar á eftir að koma upp vandi ef að líkum lætur.

Menn verða að hafa það í huga með kvótakerfið að verið er að skipta litlu magni á milli útgerða í mörgum sjávarplássum á Íslandi. Við veiddum á síðasta áratug miklu minna en áratugina þar á undan og ef menn ná ekki upp veiðinni, ef menn geta ekki náð tökum á því að geta veitt að jafnaði mun meira en við gerum í dag, þá er alveg ljóst að við lendum í miklum byggðavanda. Við erum að sigla inn í þá stöðu að einhverjir verða út undan og við ætlum miðað við óbreytt lög að láta framsalið ráða því hvaða staðir falla fyrir borð. Þetta er alveg ljóst. Ég vænti þess að öllum sé ljóst að í óbreyttu kerfi eins og því sem við búum við í dag og með svipað heildarmagn af þorski og með framsal veiðiheimilda, erum við að nota framsalið sem tæki til að þurrka út sjávarpláss af því að þau eru of mörg. Athuganir sýna okkur að veikustu plássin eru sjávarpláss með íbúa færri en 1.000 manns, á bilinu 200--1.000 manns. Það eru veikustu sjávarplássin. Þau munu brotna undan þessu kerfi fyrst og fremst.

Ég spyr: Vilja menn framtíðarsýn þar sem þetta fer svona og þar sem útgerðarmynstrið þróast, eins og menn eru farnir að tala um opinskátt, yfir í fimm til sex stór útgerðarfyrirtæki? Vilja menn sjá þá framtíðarsýn rætast? Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef miklar efasemdir um að við séum á réttri leið. Ég hef miklar efasemdir um það. Ég held að það verði ekki íslensku þjóðfélagi til góðs. Við þurfum því að finna leið þar sem við komumst fram hjá göllunum og getum notað þá kosti sem felast í kerfinu. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að óbreytt kerfi geti ekki gengið. Ég er þeirrar skoðunar. Þess vegna hef ég talað fyrir því að það eigi að endurskoða lögin og tók það upp á sínum tíma þegar Alþingi kom saman til að bregðast við dómnum í desember 1998. Það varð niðurstaðan að í lögin fór ákvæði um að þau skyldu endurskoðuð eins og ég rakti áðan í framsöguræðu minni ástæðurnar fyrir.

Hér hefur verið spurt: Byggðakvóti, frá hverjum má taka? Á að taka hann úr Eyjafirði? Ég segi: Óbreytt kerfi færir til kvóta og ef menn vilja óbreytt kerfi þá vilja menn það. Þá geta menn ekki verið á móti þeim áhrifum byggðakvótans að færa til kvóta. Ég vænti þess að menn muni eftir því að kvóti fór frá Ísafirði til Akureyrar þó að sagt hefði verið á sínum tíma að það ætti ekki að gerast. Handhafi kvótans sagði að hann ætti ekki að fara frá Ísafirði. En hann gerði það nú samt.

Ég vænti þess að menn muni eftir því að það fór kvóti, ekki bara kvóti, heldur fór allur kvóti úr Bolungarvík til Grindavíkur. Ef mönnum finnst allt í lagi að kvótinn færist svoleiðis á milli byggðarlaga, hljóta menn að þola að einhver kvóti sé færður til baka, eða hvað?

Hér var minnst á kvóta í innfjarðarrækju í Ísafjarðardjúpi og mér fannst mjög skemmtilegt að það skyldi vera minnst á það því að það stendur mér dálítið nærri. Ég var starfsmaður rækjusjómanna við Ísafjarðardjúp um nokkurra ára skeið og kann það alveg út og inn hvernig þeim veiðum var stjórnað. Af því geta menn að mínu viti dregið dálítinn lærdóm. Það var félagslegt kerfi. Menn komu sér saman um hvað leyfin ættu að vera mörg. Þau áttu að vera um það bil 30. Svo gerðu þeir tillögu um það til ráðuneytisins sem síðan samþykkti það ef menn stóðu saman að því. Þegar búið var að ákveða heildarkvóta á hverju hausti þá skiptu menn því á milli báta og höfðu það í þremur flokkum eftir bátastærðum þannig að stærstu bátarnir fengu mestan kvóta, miðbátarnir fengu minna og minnstu bátarnir fengu minnsta kvótann. Þetta gekk prýðilega í mörg ár og ég hygg að það mundi ganga enn ef menn hefðu ætlað sér að gera það. En það hvarf að sumu leyti viljinn til þess að viðhalda þessu kerfi í sjútvrn. og því er ekki að neita að útgerðarmenn fóru að sjá að þeir gætu breytt þessum veiðiheimildum í peninga með því að kvótasetja þetta. Það er auðvitað gallinn að þegar menn fara að sjá möguleikana á því að eignast mikla peninga, þá fer það að stjórna dálítið miklu um viðhorfin útgerðarmannanna, ekki aðeins það eitt sem fram að því hefur verið, að veiða og afla tekna með því að nýta réttindin. Málið fór því út í það á skömmum tíma að einkareka þessi réttindi. Þau voru einkavædd. Nú geta menn keypt og selt þessi réttindi og fengið mikla peninga fyrir þau. En það hefur ekki haft neina þýðingu fyrir rækjuveiðar í Djúpinu að fara úr kerfinu sem var yfir í kvótakerfið. Það gekk prýðilega að stjórna veiðunum, halda sig innan þeirra marka sem mátti veiða á hverjum tíma þannig að það var engin þörf á því til að vernda rækjustofninn að skipta um kerfi. Og það sem meira var, kerfið var tvöfalt þannig að þeir sem ráku rækjuvinnslu í landi áttu líka rétt að fá afla. Útgerðarmaðurinn hefði ekki fullkomið frelsi til að ráðstafa aflanum. Hann varð að landa honum til vinnslu á þessu svæði þó að hann gæti síðan valið sér vinnslustöð til að skipta við.

[19:00]

Þarna var um að ræða kerfi sem er að mörgu leyti einstakt í sögunni vil ég meina. Ég held að þetta sé kerfi sem menn eigi að muna eftir og þekkja því það má margt af því læra. Ég held því fram að þetta hafi að mörgu leyti verið prýðilegt kerfi.

Þá held ég að ég láti þessu innleggi mínu lokið enda tíminn senn á þrotum. Hægt væri að fjalla í miklu lengra máli um gildandi kerfi, um framtíðarsýnina og svo frv. sem hér er til umræðu þó að ég hafi leyft mér að víkja ekki mikið að því. En ég vænti þess að þetta innlegg hafi skýrt það lagaákvæði sem við búum við um 1.500 tonna byggðakvóta. Ég er á þeirri skoðun að við eigum að styrkja það og sækja meiri heimildir til þess svo við getum brugðist við og byggt upp atvinnulíf að nýju í þeim byggðarlögum sem lent hafa í vanda.