Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 13:49:45 (5623)

2000-03-22 13:49:45# 125. lþ. 84.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, KolH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 125. lþ.

[13:49]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég átel stjórnvöld fyrir það hvernig staðið er hér að málum. Engin athugun hefur verið gerð á því hvort aðrar leiðir hefðu verið færar, samanber þær leiðir sem Bretar og Írar koma til með að fara. Ekkert marktækt kostnaðarmat liggur fyrir. Hins vegar er ljóst að um himinháar upphæðir er að ræða fyrir Íslendinga og alls ekki öll kurl komin þar til grafar. Í framsöguræðu hv. formanns utanrmn., Tómasar Inga Olrich, í gær skorti tilfinnanlega fyrir því haldbær rök að hér sé um skynsamlega ákvörðun að ræða. Hins vegar hefur verið bent á stórar hættur samfara fullgildingu samningsins og nægir þar að nefna mögulegt aukið flæði fíkniefna um lögsögu okkar og mikla áhættu sem tekin er í málefnum ferðaþjónustunnar.

Herra forseti. Í ljósi þess að hér er um eitt stærsta utanríkismál að ræða sem komið hefur til kasta Alþingis frá því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var samþykktur, hefði mér fundist eðlilegt að spurningin um þjóðaratkvæðagreiðslu hefði komið fram á Alþingi, það hefur hún ekki gert. Ég tel fullgildingu samningsins veikja sjálfstæði íslensku þjóðarinnar og segi nei.