Skýrsla um Schengen-samstarfið

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:04:40 (5784)

2000-04-03 15:04:40# 125. lþ. 87.1 fundur 413#B skýrsla um Schengen-samstarfið# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:04]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í apríl fyrir réttu ári var skipuð nefnd til að gera greinargerð um áhrif Schengen-samstarfsins á ferðaþjónustuna og var hlutverk nefndarinnar að vera ráðuneytinu til ráðgjafar um undirbúning og framkvæmd Schengen-samningsins. Skyldi hún jafnframt skoða sérstaklega hvernig hægt væri að nýta þetta aukna frelsi til eflingar íslenskri ferðaþjónustu.

Nú er þessi skýrsla komin fram og þar er talað um aukið óhagræði og aukinn tilkostnað vegna Schengen-samstarfsins og það sem meira er, í skýrslunni koma fram fullyrðingar sem stangast á við það sem hér var sagt við afgreiðslu Schengen-þáltill. Þar var fullyrt að Schengen-samkomulagið yrði ferðaþjónustunni mjög til framdráttar og mundi efla samkeppnishæfi Leifsstöðvar verulega. Hér segir hins vegar, með leyfi forseta:

,,Það er álit nefndarinnar að Schengen-samstarfið muni ekki auka viðskiptamöguleika flugstöðvarinnar að ráði. Erfiðlega hefur gengið að fá ný flugfélög til þess að lenda hér. Það mun varla breytast eingöngu vegna Schengen.

Það er álit nefndarinnar að vafasamt sé að það megi markaðssetja Flugstöð Leifs Eiríkssonar á þeim forsendum að hér verði um sérstaklega þénuga landamæravörslu að ræða umfram önnur lönd.``

22. mars var samþykkt þáltill. um Schengen-sam\-komu\-lag\-ið eftir umræðu sem byggði á gögnum sem þá lágu fyrir. Það var hins vegar ekki fyrr en daginn eftir að sú skýrsla sem hér var vitnað til kom fram. Ég vil því beina eftirfarandi spurningu til hæstv. utanrrh.: Var hæstv. ráðherra kunnugt um innihald þessarar skýrslu þegar hann tók þátt í umræðum um Schengen-þáltill. á þingi og ef svo er, finnst honum þetta eðlileg vinnubrögð?