Skýrsla um Schengen-samstarfið

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:07:24 (5786)

2000-04-03 15:07:24# 125. lþ. 87.1 fundur 413#B skýrsla um Schengen-samstarfið# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:07]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þetta finnst mér harla undarleg svör: ,,breytir ekki neinu``. Hér er talað um aukinn tilkostnað og aukið óhagræði án þess að það færi okkur þá kosti sem boðaðir voru. Hér segir, með leyfi forseta, í skýrslunni:

,,Sé vikið að kostnaði við rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar má öruggt telja eins og áður hefur komið fram að hann aukist. Fyrir því eru mörg rök. Má nefna að kostnaðurinn vegna tvískiptrar flugstöðvar hlýtur að vera meiri. Aukinn kostnaður á farþega skapast vegna þess að verslunarrými, veitingaþjónusta, Saga biðstofa, upplýsingagjöf til farþega og önnur farþegaþjónusta þarf að verða tvískipt og tilkostnaður því meiri. Kostnaður á hvern farþega vegna löggæslu og landamæragæslu hlýtur að aukast.`` --- Síðan segir:

,,Að mati nefndarinnar er hætta á að alls konar innheimta þjónustugjalda og skatta verði hækkuð á næstu árum. Það er jafnframt álit nefndarinnar að verði þjónustugjöld og skattar hækkuð skerði það samkeppnisstöðu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og þar með íslenskrar ferðaþjónustu.``

Okkur kemur þetta ekkert við, segir hæstv. utanrrh. Við erum einfaldlega ósammála þessu. Er ekki hægt að ætlast til þess að menn reyni að svara þessu með einhverjum rökum en ekki útúrsnúningi af þessu tagi?