Ný gögn í Geirfinnsmálinu

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:10:57 (5789)

2000-04-03 15:10:57# 125. lþ. 87.1 fundur 414#B ný gögn í Geirfinnsmálinu# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:10]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. sem eiginlega er tvíþætt: Hvernig stendur á því að þau gögn sem nú hafa komið fram í Geirfinnsmálinu svokallaða hafa ekki áður verið lögð fram þrátt fyrir að ítrekað hafi verið eftir því leitað á liðnum árum við málsmeðferð? Gefa þessi gögn hæstv. dómsmrh. tilefni til þess að beita sér fyrir endurupptöku málsins, að beita sér fyrir því ásamt saksóknaraembættinu að mál Magnúsar Leópoldssonar og Sævars Ciesielskis verði tekið fyrir að nýju í ljósi fram kominna gagna?

Herra forseti. Það er afar mikilvægt að öll gögn finnist og að skýringar á hvarfi þeirra fáist. Það voru margir einstaklingar fangelsaðir í Geirfinnsmálinu og fram hefur komið að játningar sumra þeirra voru fengnar með harðræði. Það sem eftir stendur er að margir einstaklingar hafa búið við skert mannorð og við það verður ekki unað. Allt þetta mál rýrir traust á réttarfarinu og eina leiðin til að græða það sár sem málsmeðferð öll hefur valdið er að taka málið upp að nýju.

Samkvæmt breyttum lögum hérlendis er nú unnt að meta sönnunargögn að nýju og þess vegna hefur verið kallað eftir þessum gögnum sem skyndilega hafa komið fram. Ég vona að hæstv. dómsmrh. eigi svör við þessum spurningum.