Breytt staða í álvers- og virkjanamálum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:46:27 (5815)

2000-04-03 15:46:27# 125. lþ. 87.95 fundur 422#B breytt staða í álvers- og virkjanamálum# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:46]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ljóst er að þær fréttir sem bárust í síðustu viku um að fjárfestar fyrirhugaðs álvers á Reyðarfirði hefðu leitað eftir breytingum á öllum áætlunum varðandi byggingu álvers á Reyðarfirði og þar með breytingu á virkjunarframkvæmdum hafa kollvarpað áformum ríkisstjórnarinnar um stóriðju á Austurlandi. Sú kúvending sem orðið hefur í málinu sýnir að áformin um Fljótsdalsvirkjun og 120 þúsund tonna álver voru byggð á afar veikum grunni. Í raun var aldrei rekstrargrundvöllur fyrir slíku álveri og þegar í nóvember lá þessi staðreynd fyrir hjá fjárfestum.

Í þeim miklu átökum um málið á Alþingi fyrr í vetur bentu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs á að það álver og sá virkjunarkostur sem tekist var á um væri óarðbær fjárfesting en á það var ekki hlustað.

Herra forseti. Fjárfestar álvers á Reyðarfirði eiga því ekki að missa traust fyrir það að vilja hætta við óarðbært fyrirtæki heldur þveröfugt og siðferðileg ábyrgð framkvæmdanna verður alltaf hjá stjórnvöldum. Fullyrðingar ráðherra fyrr í vetur um að bygging 120 þúsund tonna álvers væri ekki ávísun á stækkun með tilheyrandi virkjunarframkvæmdum átti sér enga stoð í raunveruleikanum og því afhjúpa nýjar áætlanir um álver á Reyðarfirði og breytt virkjanaröð vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega ráðherra Framsfl. í Eyjabakkamálinu. Því var alveg ástæðulaust að þröngva þáltill. um virkjun Eyjabakka í gegnum Alþingi fyrir síðustu jól með þeim hætti sem gert var og undir þeim formerkjum að þarna væri stærsta byggðamál sögunnar á ferð. Þingi og þjóð var talin trú um að nauðsynlegt væri að fallast á slæleg vinnubrögð í málinu þar sem ekki gæfist tími til að vinna þau eftir kröfum tímans. Nú þegar aðeins þrír mánuðir eru liðnir frá afgreiðslu málsins er það aftur komið á byrjunarreit.

Þó gleðjast megi yfir því að fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun sé út af borðinu í bili, þá er sú staða sem óbilgjörn vinnubrögð ríkisstjórnarinnar hafa komið okkur Íslendingum í og þá sérstaklega Austfirðingum algerlega óviðunandi. Eftir 20 ára bið og loforð um væntanlegar virkjanir og stóriðju eru vonbrigði þeirra sem hafa beðið eftir stóriðjuframkvæmdum mikil. Skellurinn er stór og trú manna á áframhaldið er veikt. Slík staða getur alltaf komið upp við undirbúning svo stórra verkefna, jafnvel þó að vandað sé til verka og því er afar brýnt að hafa á hverjum tíma uppi varaáætlun eða önnur verk í gangi samhliða.

Stóriðja mun aldrei verða stærsta byggðamál sögunnar. Þær hugmyndir eru barn síns tíma. Ef menn vilja fara í stóriðju, þá verður hún að vera til að styrkja búsetu á landsbyggðinni. En það er brýnt að hafa í huga að hin nýju áform um tvöfalt stærra álver og stórvirkjun við Kárahnjúka eru jafnótraust og þau fyrri. Það er afar óheppilegt að íbúar Austurlands þurfi að búa við áframhaldandi óvissu vegna vinnubragða stjórnvalda og togstreitu þeirra við fjárfestingaraðila.

Í þessu máli leggur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs áherslu á eftirfarandi:

Að lögð verði áhersla á að ljúka vinnu við rammaáætlun um virkjanir vatnsafls og jarðvarma á Íslandi þar sem lagt verði mat á alla virkjanakosti og öll stóriðju- og virkjana\-áform skoðuð í því ljósi.

Að stjórnvöld taki þegar í stað upp viðræður við Austfirðinga um átak í atvinnumálum fjórðungsins í ljósi þessarar stöðu og lagt verði umtalsvert fé í nýsköpunarvinnu og vinnu verði hraðað við verulegar samgöngubætur á Austurlandi, þar með talin jarðgöng til að styrkja atvinnulíf og búsetu.

Að hafist verði handa um verndaraðgerðir á Eyjabakkasvæðinu og undirbúning að stofnun Snæfellsþjóðgarðs eins og fram kemur í þáltill. sem nú liggur fyrir þinginu.

Herra forseti. Því spyr ég hæstv. starfandi iðnrh., Halldór Ásgrímsson: Mun ríkisstjórnin undanskilja Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal við gerð þeirrar rammáætlunar um virkjanir vatnsafls og jarðvarma á Íslandi eins og nú er í vinnslu? Hvernig mun hæstv. ríkisstjórn bregðast við þessari stöðu gagnvart Austfirðingum og hvaða áform hefur hún varðandi atvinnu- og byggðamál á Austurlandi til að forða enn frekari byggðaröskun á svæðinu?