Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 16:24:00 (6584)

2000-04-13 16:24:00# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, KolH
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[16:24]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér erum við með til umfjöllunar nokkuð sem mér finnst oft vera einn sorglegasti málaflokkurinn sem kemur til kasta þingsins. Í þeirri skýrslu sem liggur fyrir þinginu er fjallað um atriði sem gera mann svo ótrúlega máttlausan gagnvart þeirri vá sem steðjar að þjóðum heims. Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst þessi yfirlitsskýrsla sem hér liggur fyrir á þskj. 956 afskaplega merkilegt plagg, merkileg lesning. Þetta er fróðleg lesning um mjög margt og ég hef í yfirferð minni um hana kannski ekki farið svo djúpt ofan í þau mál sem hæstv. utanrrh. og utanríkisþjónustan hafa verið hvað uppteknust af, en það eru Evrópumálin, kannski öryggis- og varnarmálin. Hafréttarmál hafa vissulega líka fengið mikið pláss.

Þeir kaflar sem hafa vakið mesta athygli hjá mér og snerta mig kannski dýpst eru málefni þróunarríkjanna, málefni Miðausturlanda, Asíu og Afríku. Kaflarnir um þau eru virkilega fróðleg lesning en um leið átakanleg. Kaflinn um hnattræn málefni er afskaplega fróðlegur líka og þar er komið inn á mörg mikilvæg mál sem að ósekju hefðu kannski mátt eða ættu eðli máls samkvæmt að fá meiri tíma, ekki bara hæstv. utanrrh. og þeirra er starfa að utanríkismálum heldur líka þingsins alls.

Hér er líka mjög athyglisverður kafli um auðlinda- og umhverfismál. Þann kafla las ég af mikilli athygli. Þar er mikinn fróðleik að finna. Að lokum nefni ég kaflann um menningar- og upplýsingamál.

Úr því að ég er með síðu opna úr þeim kafla, herra forseti, fyrir framan mig þá ber að fagna þeirri miklu áherslu sem utanrrn. hefur lagt á öll upplýsingamál að undanförnu, en í skýrslunni kemur fram að utanrrn. vinni að þróun samræmdrar heimasíðu fyrir allar sendiskrifstofur Íslands erlendis. Lýsingin á þessu verkefni er alveg til fyrirmyndar, sömuleiðis það sem kemur fram hér um viðskiptaþjónustu utanrrn. sem opnaði í upphafi árs eigin heimasíðu. Það er afskaplega gagnlegt og kemur kannski í veg fyrir að Íslendingar með töskur í útlöndum séu með þær í þeim tilgangi að kaupa, eins og hv. þm. Gísli S. Einarsson orðaði það hér áðan. Það kemur að því að Íslendingar fari út með töskur af því að þeir eru að selja.

Svo vil ég nefna hér sérstaklega í kaflanum um upplýsingamálin, herra forseti, það starf sem utanrrn. tekur nú þátt í á vegum verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið vegna uppsetningar á nýjum upplýsingavef um Ísland á ensku. Það er að sjálfsögðu ákaflega þýðingarmikið að verkefni af þessu tagi séu framkvæmd af stórhug og þeirri eljusemi sem greinilega er hér til staðar og ber að fagna því.

Þá verða fyrir mér menningarmálin sem mig langar til að eyða á örfáum orðum. Það er rétt sem kemur fram í skýrslu hæstv. utanrrh. að mikil gróska er um þessar mundir í menningarmálunum og því hvernig menningarmálin geta verið okkur nánast eins og auglýsing á alþjóðavettvangi og hvernig þau bera hróður þjóðarinnar vítt um álfur. Það er til fyrirmyndar að lesa um það hér að hæstv. utanrrh. og starfsmenn utanrrn. skuli nú vilja auka vægi menningarmálanna ef mögulegt er, en frá því er sagt í skýrslunni, herra forseti, að í fjárhagsáætlunum fyrir sendiskrifstofur Íslands hafi ekki verið gert ráð fyrir neinum kostnaði vegna menningarstarfsemi. Það kemur jafnframt fram að sú staðreynd dragi eðli málsins samkvæmt verulega úr möguleikum sendiskrifstofanna á því að halda uppi blómlegri starfsemi á sviði menningarmála.

Herra forseti. Það er auðvitað alvarleg staðreynd að í þessum málaflokki, sem við viðurkennum að sé svo þýðingarmikill fyrir okkur í starfi utanrrn. og utanríkisþjónustunnar, skuli einatt gleymast að marka honum ákveðna fjármuni. Ég vil geta þess í framhjáhlaupi að starf menningarfulltrúa í utanríkisþjónustunni hefur oft skilað miklu. Vil ég sérstaklega nefna starf menningarfulltrúa sem starfaði við sendiráðið í London til skamms tíma. Maður þekkir það þegar maður kemur á vegum Íslendinga til útlanda að flytja menningu um erlenda grundu að það er afskaplega þýðingarmikið að hafa einhvern í sendiráðunum sem getur sinnt þeim málaflokki. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að þó sendiherrarnir séu alls góðs maklegir og vinni afskaplega fórnfúst og mikið starf, þá er vel hugsanlegt að starf menningarfulltrúa gæti enn aukið hróður menningarstarfs Íslendinga á erlendri grund. Kannski þarf ekki menningarfulltrúa við hvert sendiráð heldur aðeins skipulagða starfsemi hér heima sem sendir fulltrúa sína á vissa staði með ákveðnu millibili þannig að þessi starfsemi fái fast skipulag og form og geti geti nýst utanríkisþjónustunni sem best.

[16:30]

Eitt af þeim atriðum, herra forseti, sem vekur sérstaka athygli mína þegar farið er yfir skýrsluna er Kyoto-ferlið sem ég ætla að fara um nokkrum orðum. Það veldur svolítilli depurð innra með mér að í Kyoto-ferlinu skuli Íslendingar stöðugt setja allt sitt traust á og alla sína orku í að afla undanþágna, kanna möguleikana á undanþágu. Íslenska tillagan sem fjallað er um í skýrslunni, er okkur ekki til sóma, herra forseti. Það er okkur ekki til sóma að óska eftir því að Íslendingar fái undanþáguheimild upp á hátt í 75%, þ.e. undanþágu vegna losunar allrar stóriðju sem bæst hefur við á Íslandi frá árinu 1990. Ef aukning losunar gróðarhúsalofttegunda frá þeirri stóriðju sem er í farvatninu --- þá erum við auðvitað að tala um allt þetta bókhaldstímabil og öll þau plön sem eru á borðinu núna --- verður að veruleika þá er undanþágan upp á tæp 75%. Mér finnst, herra forseti, allt of mikil orka fara í það hjá íslenskum stjórnvöldum að fá þessa undanþágu fram. Það sýnir framganga íslensku sendinefndarinnar á 5. aðildarríkjaþinginu sem haldið var í nóvember sl. í Bonn, ef ég man rétt. Mér sýnist að sömuleiðis eigi að eyða orku í þetta undanþáguákvæði, þessa íslensku tillögu á næsta aðildarríkjaþingi sem verður haldið í Haag í haust, í nóvember ef ég man rétt.

Auðvitað væri miklu farsælla -- og ég mundi vilja óska eftir að íslensk stjórnvöld gerðu það -- að finna leið til að skoða Kyoto-bókunina sem tækifæri. Ég minnist þess að Danir sögðu, þegar Kyoto-bókunin var sem mest til umræðu hjá þeim: Við skulum líta á Kyoto-bókunina sem eitthvað sem við óhjákvæmilega þurfum að samþykkja. Það kemur að því að við Íslendingar þurfum að fullgilda þessa bókun og þá skulum við skoða hvaða tækifæri til atvinnusköpunar þessi bókun býður upp á. Í því sambandi hafa Danir styrkt sérstaklega atvinnusköpunarverkefni sem miða að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Íslendingar gætu auðvitað tekið forustu í verkefnum af þessu tagi fremur en vera svona iðnir að knýja fram þessar títtnefndu undanþágur.

Ég óska þess, herra forseti, að sjá öflugra starf íslenskra stjórnvalda við að skoða Kyoto-bókunina sem tækifæri til atvinnusköpunar, tækifæri til þess að standa við afskaplega mikilsverðan og góðan málstað. Herra forseti. Það er nú einu sinni jarðkúlan og lífsmöguleikar okkar á jörðinni sem um er að tefla.

Svo ég hverfi frá Kyoto-bókuninni að sinni, þá langar mig til að ræða örlítið nánar um manneldis- og heilbrigðismál. Það kemur fram í skýrslu þeirri sem hér er til umfjöllunar að þar er heldur betur pottur brotinn í heiminum öllum. Heilbrigði matvæla er einn þáttur í manneldismálum. Ég held, herra forseti, að tími sé til þess kominn að Íslendingar opni betur augu sín fyrir umræðu um manneldismál, taki virkari þátt í umræðunni um möguleika á að koma í veg fyrir þá erfiðleika í landbúnaðarframleiðslunni sem steðjað hafa að heimsbyggðinni og mögulega má rekja til þeirrar ofuráherslu sem lögð hefur verið á verksmiðjubúskap hvers konar. Fram hafa komið rökstuddar vísbendingar um að ýmiss konar fár og óáran sem herjar á landbúnaðarframleiðslu, kampýlóbakter og Creutzfeldt-Jakobs sjúkdómur og hvað það er fleira sem herjað hefur á mannkynið í gegnum matvælaframleiðslu megi e.t.v. rekja til óheppilegrar áherslu á verksmiðjuframleiðslu. Íslendingar geta með sinni hreinu landbúnaðarframleiðslu eflt umræðuna um heilbrigði og það hvernig búskapur er heillavænlegur til að heilbrigði og allur hreinleiki landbúnaðarafurða okkar geti notið sín og hægt sé að rækta slíkt í stað hins sem býður heim skelfilegum afleiðingum.

Í því sambandi langar mig, herra forseti, að nefna sérstaklega umræðuna um erfðabreyttu matvælin. Það er umræða sem er mjög hávær á erlendri grund um þessar mundir. Ég verð að segja að Íslendingar hafa þar svo sannarlega tækifæri til að taka frumkvæði og efla þá umræðu. Ég treysti því að íslensk stjórnvöld komi til með að standa þar í fæturna og málflutningur okkar verði sá að sporna gegn útbreiðslu erfðabreyttra matvæla á þeim nótum sem mér virðist Evrópusambandið gera. Eins og okkur er kunnugt er verið að fjalla um mögulegar skelfilegar afleiðingar af erfðabreyttri framleiðslu og þar stendur baráttan hvað mest á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Mjög öflugur áróður er rekinn í Bandaríkjunum fyrir því að erfðabreytt matvæli fáist í auknum mæli flutt inn til Evrópu. Ég held því að þarna séu sóknarfæri fyrir Íslendinga á erlendri grund, að standa vel í fæturna og sjá til þess að heilbrigði verði eflt og öll hollusta í matvælaframleiðslu aukin.

Herra forseti. Af því að við erum að fjalla um heilbrigðismál þá er skelfilegt til þess að vita hvernig alnæmi hefur breiðst út í heiminum. Það er ein plágan sem að okkur sækir. Ég held að kaflinn í skýrslunni um Afríku sem segir frá skelfilegum áhrifum þessa vágests á þjóðir Afríku sé kannski sorglegasta lesningin sem hér er að finna. Allt það sem Íslendingar geta gert til að efla hjálparstarf og forvarnastarf í löndum Afríku hvað þetta varðar er af hinu góða. Það er eftirsóknarvert að hjálparstarf okkar í þróunarríkjunum verði aukið og eflt. Við höfum ekki staðið okkur illa en við gætum staðið okkur miklu betur. Það er auðvitað sjálfsagt mál að þjóð, sem kannski er ein af fimm ríkustu þjóðum heimsins, taki frumkvæði og geri sig virkilega gildandi í því hjálparstarfi sem svo nauðsynlegt er í þessum ríkjum.

Ég læt þetta vera lokaorð mín um þessa yfirlitsskýrslu sem er mikil að vöxtum og afskaplega fróðleg lesning. Ég vil bara segja hæstv. utanrrh. að auðvitað styður Vinstri hreyfingin -- grænt framboð starf utanrrn. til allra góðra verka. Ákveðin atriði má hins vegar gagnrýna. Ég hef fjallað sérstaklega um Kyoto-bókunina, ætlaði kannski að fjalla örlítið um viðskiptabannið á Írak en tel nóg sagt hjá fyrri ræðumönnum um það að sinni.