Evrópuráðsþingið 1999

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 19:04:17 (6608)

2000-04-13 19:04:17# 125. lþ. 101.7 fundur 415. mál: #A Evrópuráðsþingið 1999# skýrsl, LMR (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[19:04]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsins fyrir árið 1999.

Árið 1999 fagnaði Evrópuráðið fimmtíu ára afmæli sínu. Halldór Ásgrímsson utanrrh. gegndi formennsku í ráðherranefnd ráðsins frá 7. maí--4. nóvember. Í tilefni afmælisársins var efnt til sérstaks Alþingis ungmenna dagana 29.--31. mars sem var einstaklega líflegt og þótti takast mjög vel. Þá fundaði stjórnmálanefnd Evrópuráðsþingsins á Íslandi í september og var fundurinn haldinn í tengslum við formennsku Íslands í ráðherranefndinni. Því má segja að árið 1999 hafi verið bæði sögulegt fyrir Evrópuráðið sjálft og fyrir þátttöku Íslands í starfi þess.

Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um mannréttindi og lýðræði og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum í öllum aðildarríkjum. Til þess beitir ráðið sér fyrir samningu og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Ályktanir Evrópuráðsins og fjölþjóðasáttmálar sem þar eru samþykktir hafa víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins sem snerta ýmis svið þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á fót lýðræði og réttarríki í löndum sínum. Þar ber að sjálfsögðu hæst mannréttindasáttmála Evrópu, en slíkar mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og samtök. Sem dæmi um það má nefna að í Amsterdamsáttmála Evrópusambandsins er að finna málsgrein þar sem undirritun mannréttindasáttmála Evrópu er gerð að ófrávíkjanlegu skilyrði fyrir inngöngu í sambandið. Um þessar mundir gegnir Evrópuráðið m.a. því veigamikla hlutverki að styðja lýðræðis- og efnahagsuppbyggingu í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með efnahagsaðstoð, lagaaðstoð, tækniaðstoð og kosningaeftirliti. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört. Árið 1989 voru þau 22 en eru nú 41 talsins, auk þess sem fjöldi ríkja hefur sótt um aðild. Pólitískt vægi ráðsins hefur því aukist verulega undanfarin ár, en íbúar aðildarríkjanna eru um 750 milljónir.

Þann 17. maí 1999 tóku gildi nýjar reglur um alþjóðanefndir Alþingis. Með breytingunni er m.a. lögð meiri áhersla á að aðalmenn sinni starfi Íslandsdeildanna en varamenn í forföllum þeirra. Ný Íslandsdeild var kjörin 16. júní að afstöðnum alþingiskosningum 8. maí.

Frá og með 16. júní voru aðalmenn deildarinnar Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ólafur Örn Haraldsson varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Tómas Ingi Olrich, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Framsóknarflokks og Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar.

Ritari Íslandsdeildarinnar er Gústaf Adolf Skúlason alþjóðaritari.

Evrópuráðsþingið gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi Evrópuráðsins og er í raun hugmyndabanki stofnunarinnar. Á þinginu sitja 527 fulltrúar sem skiptast til helminga í aðal- og varamenn og fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Þingið starfar í fjórtán málefnanefndum. Þá sitja formenn landsdeilda í stjórnarnefnd og í sameiginlegri nefnd með ráðherranefndinni, auk þess sem tuttugu þingmenn sitja í forsætisnefnd þingsins. Loks starfa á þinginu fimm flokkahópar, óháð þjóðerni. Þingið fundar fjórum sinnum á ári, í lok janúar, apríl, júní og september.

Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:

eiga frumkvæði að aðgerðum og gera beinar tillögur til ráðherranefndarinnar,

hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir og

vera samráðsvettvangur þingmanna aðildarríkjanna og efla þannig tengsl þjóðþinga.

Á þingfundum eru skýrslur málefnanefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Ályktunum, tilmælum eða áliti er því næst vísað til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þær og framkvæmir í samræmi við þær ef þurfa þykir, annaðhvort með beinum aðgerðum eða lagasetningu í þjóðþingum. Evrópuráðsþingið á því oft frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Þá er Evrópuráðsþingið umræðuvettvangur fyrir stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfismál, menningar- og menntamál. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að Evrópuráðsþingið er eina alevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem þingmenn Vestur- og Austur-Evrópu starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Þingfundir þar sem menn starfa saman, bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru mjög mikilvægir, ekki síst fyrir nýfrjálsu ríki Mið- og Austur-Evrópu.

Reynslan hefur sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim geta haft áhrif langt umfram stærð og ætlað pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi, og ekki síður möguleika, Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins hefur fært sig vel inn í þá möguleika sem þetta felur í sér, en deildin er mjög virk innan nefndanna.

Undirrituð hefur gengt varaformennsku í heilbrigðis- og félagsmálanefnd, auk varaforsetastarfa og lagt áherslu á stjórnmálanefnd. Ólafur Örn Haraldsson hefur setið í umhverfisnefnd og í eftirlitsnefnd þingsins. Margrét Frímannsdóttir hefur lagt megináherslu á jafnréttisnefnd og laga- og mannréttindanefnd.

Eins og hæstv. utanrrh. sagði í framsöguræðu sinni í morgun er starf þingsins sífellt mikilvægara og má sérstaklega vekja athygli á kosningaeftirliti og öðru eftirliti með framkvæmd mannréttinda og lýðræðis. Íslandsdeildin hefur nokkrum sinnum tekið þátt í slíkum eftirlitsferðum eins og kunnugt er.

Á janúarfundinum 1999 var Russel-Johnston lávarður kjörinn forseti Evrópuráðsþingsins, en varaforsetarnir voru kjörnir í fyrsta sinn í leynilegri atkvæðagreiðslu á þeim fundi. Undirrituð var kjörin 2. varaforseti þingsins næst á eftir breska þingmanninum Terry Davis.

Á fundinum var samþykkt að mæla með því við ráðherranefndina að Georgíu yrði veitt aðild að Evrópuráðinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Á þessum janúarfundi voru einnig ræddar fjölmargar skýrslur og ályktað um mál, en helstu mál eru skýrsla svokallaðrar vitringanefndar ráðherraráðsins um þróun sameinaðrar Evrópu, framtíðarskipan milliríkjasamstarfs í Evrópu, pólitískan ramma fyrir samstarf Evrópuríkja á nýrri öld, umsókn Georgíu um aðild að Evrópuráðinu, eins og áður segir, skuldbindingar Úkraínu sem aðildarríkis Evrópuráðsins, ástand mála í sambandslýðveldinu Júgóslavíu og í Kosovo-héraði og stöðu efnahagsmála í Rússlandi og Úkraínu.

Á þessu þingi tók hv. þm. Hjálmar Jónsson þátt í umræðu um skýrslu um pólitískan ramma fyrir samstarf Evrópuríkja á nýrri öld. Undirrituð spurði Knut Vollebæk, þáv. formann ráðherraráðs ÖSE, hvort hann teldi líklegt til árangurs, jafnvel réttlætanlegt, að senda 1.200 óvopnaða eftirlitsmenn til Kosovo til að hafa eftirlit með vægast sagt óstöðugu vopnahléi, og hvort ekki væri í raun verið að setja þá í óþarfa hættu og jafnvel vekja falska öryggiskennd á meðal íbúa héraðsins. Vollebæk svaraði og viðurkenndi að öryggi sveitanna sjálfra væri áhyggjuefni og sagðist ítrekað hafa gert báðum aðilum deilunnar það ljóst að þeir yrðu sjálfir að sýna samnings- og sáttarvilja.

Á fundi þingsins í september 1998 hafði undirrituð borið fram spurningu til þáv. formanns ráðherranefndar Evrópuráðsins um stöðu mannréttindamála sem verið höfðu á borði ráðherranefndarinnar árum saman og hvers vegna fullnusta þeirra tæki jafnlangan tíma og raun bæri vitni. Fyrir fund þingsins í janúar hafði borist skriflegt svar frá ráðherranefndinni þar sem kom m.a. fram að langan biðtíma eftir fullnustu mála megi skýra með vísan í réttarúrbætur í viðkomandi ríkjum eða með því að beðið sé eftir niðurstöðu úr öðrum sambærilegum málum sem hafa beri til hliðsjónar. Undirrituð lagði aftur fram spurningu á þessu þingi og spurði sérstaklega um framkvæmd tveggja mála, tyrknesks og fransks, og sömuleiðis voru þessar spurningar ítrekaðar á næstu fundum ársins.

Á aprílfundum voru málefni Kosovo efst á dagskrá auk málefna Bosníu-Hersegóvínu. Georgía hlaut formlega aðild að Evrópuráðinu og varð 41. aðildarríki þess. Loks hófust formleg hátíðahöld í tilefni þess að Evrópuráðið fagnaði fimmtíu ára afmæli sínu 7. maí 1999 og voru þau hátíðarhöld haldin í Strassborg, London og Búdapest. Á aprílfundinum voru sömuleiðis ræddar skýrslur og ályktað og vil ég þá einkum tiltaka átök í Kosovo og stöðu mála í sambandslýðveldinu Júgóslavíu, ástand flóttamanna frá Kosovo, þörfina á aukinni efnahagssamvinnu ríkja Suðaustur-Evrópu, skuldbindingar Króatíu sem eins aðildarríkis Evrópuráðsins o.fl.

Í lok apríl var haldið Evrópuráðsþing ungmenna í Strassborg og sóttu þingið þau Sigrún Sigurðardóttir og og Sigurður Jóhannsson fyrir Íslands hönd en þau voru tilnefnd af stjórn Æskulýðssambands Íslands. Á ungmennaþinginu voru ræddar skýrslur og ályktað um menningarmál, þátttöku borgara í lýðræðisskipulaginu svo og um Kosovo.

[19:15]

Á júnífundi þings Evrópuráðsins bar hæst sérstakar umræður um stöðu mála í Kosovo og Júgóslavíu og síðan um díoxínmengunarhneykslið í Belgíu og var ályktað um þessi mál. Á þessu þingi var einnig kjörinn nýr framkvæmdastjóri Evrópuráðsins og tók hann við af Svíanum Daniel Tarschys. Walter Schwimmer, hinn nýi framkvæmdastjóri, er austurrískur og bar hann naumlega sigurorð af mótframbjóðanda sínum, breska þingmanninum Terry Davis.

Meðal skýrslna sem ræddar voru og ályktað var um voru um samskipti Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna, ólöglegar athafnir sértrúarhópa, Þróunarbanka Evrópu, jöfnun á stöðu kynjanna í stjórnmálum, viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um félagsleg grundvallarréttindi, og eins og áður var sagt, díoxín og öryggi matvæla. Auk þess var rætt um Kosovo og stöðu mála í sambandslýðveldinu Júgóslavíu.

Hæstv. utanrrh. og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, Halldór Ásgrímsson, ávarpaði þingið fyrir hönd ráðherranefndarinnar og svaraði jafnframt spurningum þingmanna. Í ávarpi sínu gerði ráðherra m.a. grein fyrir hlutverki Evrópuráðsins í uppbyggingarstarfi að loknum átökunum í Kosovo og heimsókn sinni til Bosníu-Hersegóvínu skömmu fyrir fundinn. Þá fjallaði hann um samskipti Evrópuráðsins við ÖSE og ESB, fjármál stofnunarinnar og innra skipulag hennar.

Undirrituð spurði hann um verkaskiptingu ÖSE og Evrópuráðsins við uppbyggingu lýðræðislegra stofnana í Kosovo og hvort hann teldi ekki eðlilegra að Evrópuráðið, sem hefði mesta reynslu á þessu sviði, gegndi þar stærra hlutverki en raunin væri. Ráðherrann svaraði því til að vissulega væri ávallt reynt að nýta þá stofnun sem besta þekkingu hefði á viðkomandi málaflokkum og sagði miður ef það væri ekki gert.

Fjórði og síðasti þingfundurinn á árinu 1999 var haldinn í lok septembermánaðar og voru málefni Kosovo voru efst á baugi sem endranær og jafnframt var mikið rætt um stöðu á Austur-Tímor, auk árlegrar umræðu um OECD og stöðu efnahagsmála í heiminum. Enn fremur voru rædd mál eins og skýrslur um líftækni og hugverkarétt, hvernig lýðræðisríki í Evrópu bregðast við hryðjuverkum, skuldbindingar Slóvakíu á vettvangi Evrópuráðsins, Kosovo og stöðuna í Suðaustur-Evrópu og sjálfbæra þróun við Miðjarðarhaf og Svartahaf.

Á þinginu spurði undirrituð formann ráðherranefndarinnar, Halldór Ásgrímsson, hvort hann teldi hlutverkið sem Evrópuráðinu væri fengið í yfirlýsingu Sarajevo-fundarins um stöðugleikasáttmála í Evrópu fullnægjandi. Fram kom í svari formannsins að mikilvægt væri að halda á lofti merki Evrópuráðsins við framkvæmd stöðugleikasáttmálans. Aðkoma ráðsins að þeim málaflokkum sem það hefði sérþekkingu á væri tryggð. En ráðherrann sagði hins vegar mikilvægt að aðildarríkin gerðu ráðinu kleift að sinna þessu starfi með nægum fjárframlögum.

Íslenska sendinefndin tók að venju virkan þátt í nefndarstörfum og stýrði undirrituð þingfundum og fundi heilbrigðisnefndar þingsins í fjarveru formanns og tók þátt í umræðum um framtíðarstöðu eldri borgara fyrir hönd nefndarinnar. Þá var undirrituð kjörin til setu í stjórn alþjóðlegrar stofnunar um framkvæmd lýðræðis eða International Institute for Democracy og eiga aðild þar að m.a. Evrópuráðið og Evrópusambandið.

Fyrir utan fastaþingin koma stærstu nefndir þingsins saman á svonefndu aukaþingi tvisvar á ári eða Mini Sessions. Það eru nefndir eins og stjórnmálanefnd, framkvæmdanefnd og félags- og heilbrigðismálanefnd þingsins. Á þessum fundum, á fundi stjórnarnefndarinnar í nóvember, lagði undirrituð fram skýrslu um óhefðbundnar lækningar og var sú skýrsla samþykkt.

Hinar 14 fastanefndir þingsins koma annars saman á öllum þingum ráðsins í Strassborg en auk þess heldur hver nefnd þingsins fimm til sex fundi utan Strassborgar svo að um æðivíðfeðmt og mikið starf er að ræða fyrir þá þrjá aðalmenn sem þessu sinna.

Herra forseti. Þó að það sé utan ramma eða tímaramma árskýrslunnar tel ég rétt að geta umræðunnar á þingi ráðsins sem lauk í síðustu viku. Stjórnmálanefnd og framkvæmdanefnd höfðu frá því í haust fjallað um ástandið í Tsjetsjeníu og ályktað í þeim efnum til ráðherraráðsins. Á þingfundi í janúar ályktaði svo þingið um þessa stöðu og fór m.a. fram á að ráðherraráðið hlutaðist til um að stríðsátökum yrði hætt og flóttamönnum gefin grið. Þingið ályktaði um málið í tíu liðum og mælti með því að ef mælanlegar úrbætur hefðu ekki verið gerðar fyrir aprílþingið skyldi Evrópuráðsþingið endurskoða veru Rússlands innan ráðsins. Samhliða þessu skyldi þingið senda eftirlitsnefnd til Kákasus til að kynna sér stöðuna í Tsjetsjeníu og nágrannalöndum.

Niðurstaða nefndarinnar sem fór til Kákasus, eins og flestum er kunnugt, er að mannréttindabrot og stríðsrekstur sem viðgengst nú á svæðinu og viðgekkst í vetur samræmdist engum markmiðum Evrópuráðsins eða þeim sáttmálum sem Rússland undirritaði við inngöngu í Evrópuráðið fyrir fjórum árum eða árið 1996. Niðurstaða skýrslunnar varð því sú að krefjast fortakslausra úrbóta af hálfu Rússa en mælast til þess við ráðherranefndina að undirbúningur að brottvikningu Rússa úr ráðinu hæfist þegar.

Ný sendinefnd Rússa á Evrópuráðsþinginu lagði fram kjörbréf sín á þessu þingi. Voru þau samþykkt en þó með þeim skilyrðum að þar til verulegar úrbætur yrðu gerðar á stöðu Rússa gagnvart Evrópuráðinu hefðu Rússar ekki atkvæðisrétt á þinginu en málfrelsi og tilögurétt bæði í þingi og þingnefndum ráðsins.

Þessi vinnubrögð Evrópuráðsins eru óvenjuleg því ekki hefur oft þurft að grípa til slíkra aðgerða. Í raun hefur aðeins verið gripið eða nær því gripið til slíkra aðgerða 1968 er Evrópuráðið hafði samþykkt að segja Grikkland úr ráðinu en Grikkir höfðu frumkvæðið að því og sögðu sig sjálfir úr ráðinu nokkrum dögum áður.

Einnig var óvanaleg sú samþykkt þingsins á þessu þingi nú fyrir viku síðan að leggja til gagnvart Úkraínu að ef ekki yrði farið að stjórnskipunarlögum við atkvæðagreiðslu um stjórnarskrána sem á að verða 26. apríl nk. þá mundi Úkraína missa aðild sína að Evrópuráðinu að tilmælum þingsins.

Herra forseti. Evrópuráðsþingið hefur stækkað um helming á liðnum tíu árum. Eins og ég sagði áðan hefur það orðið æ virkara og pólitískara í þróun undanfarinna ára og mun sú þróun eflaust halda áfram á næstu árum. Það verður að telja eðlilegt þar sem þetta er ein stærsta eða stærsta evrópska fjölþjóðastofnunin með 41 aðildarríki sem eru mörg hver nýfrjáls og í örri lýðræðisþróun.

Ég vil að lokum þakka hv. alþingismönnum, samverkamönnum mínum á Evrópuráðsþinginu, Margréti Frímannsdóttur og Ólafi Erni Haraldssyni, fyrir samstarfið og Gústaf Adolfi Skúlasyni fyrir góða aðstoð hans.