Skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 12:30:26 (6992)

2000-05-08 12:30:26# 125. lþ. 107.1 fundur 614. mál: #A skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi# skýrsl, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[12:30]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þá skýrslu sem liggur fyrir og er til umræðu. Ég vil hins vegar segja að ég hef orðið fyrir ákveðnum vonbrigðum með umræðuna þar sem mér finnst að hún eigi ekki og geti ekki gengið út á að tala um hvort EES-samningurinn sé góður eða ekki góður. Flestum þykir hann vera góður og telja að það hafi verið rétt af Íslandi að gerast aðili að honum. (Gripið fram í: Og sitja ekki hjá.) Sumir sátu hjá með ákveðnum skilaboðum um að þeir væru hlynntir samningnum (MF: Aðrir greiddu atkvæði á móti honum.) Mér finnst heldur ekki að þessi umræða eigi að ganga út á það að Evrópusambandið hafi marga galla því að það vitum við svo sannarlega öll að aðild að Evrópusambandinu hefur marga galla í för með sér.

Mér finnst að umræðan eigi að snúast um það frammi fyrir hverju við getum staðið og reyna að velta því fyrir okkur hvernig við eigum að bregðast við ef ákveðnar staðreyndir liggja fyrir. Þá er ég sérstaklega að tala um breytingar sem geta orðið á EES-samningnum. En mér fannst hv. þm. Sverrir Hermannsson að mörgu leyti flytja hvað bestu ræðuna í þessari umræðu vegna þess að hann er að velta þessu fyrir sér.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talar um að það þurfi að tala skýrt, hafa stefnufestu en ekki hringlandahátt og svo sagði hann reyndar, sem er mjög athyglisvert, að Íslandi hafi aldrei vegnað betur en einmitt nú sem eru mikil meðmæli með núv. ríkisstjórn og stjórnarflokkum. Að mínu mati er það ekki stefnufesta að taka þessa stefnu. Af tvennu illu vil ég hvorugt.

Ég var spurð að því nýlega í Færeyjum hvenær Ísland gengi í Evrópusambandið. Ég svaraði því að sjálfsögðu þannig að á þessari stundu væri ekki hægt að svara því og ég teldi að það væri a.m.k. ekki á næstunni. En við vitum það ekki í dag, við getum ekki kveðið upp úr um það í dag hver framtíð okkar er í þessum efnum.

Sagt er að aðild að Evrópusambandinu skerði sjálfstæði okkar og vissulega gerir hún það. En er hugsanlegt að það að reyna að halda áfram með EES-samninginn --- þá skulum við hugsa okkur að það hafi verið tvær smáþjóðir, Ísland og Liechtenstein --- skerði sjálfstæði okkar enn þá meira? Ég held að það sé hlutur sem við verðum að velta fyrir okkur vegna þess að það kemur fram í skýrslunni að ekki verði litið á eftirlitsstofnanirnar sem trúverðugar ef aðeins tvö smáríki eiga aðild að þeim. Hvernig eigum við þá að standa að eftirlitinu? Hugsanlegt er að hægt sé að finna farveg t.d. á þann veg að framkvæmdastjórnin taki að sér eftirlitið, en það er þá vald sem við eigum ekki aðild að eða stofnun sem við eigum ekki aðild að og svo sannarlega er hægt að segja að með því séum við að færa vald okkar öðrum þjóðum. Sama má segja um dómstólinn. Dómstóll sem er með aðild Liechtensteins og Íslands yrði ekki trúverðugur dómstóll og sennilega kæmi aldrei til greina að hann gæti orðið þannig samansettur. Þetta eru ýmsar áleitnar spurningar sem mér finnst að þessi umræða eigi að ganga út á fyrst og fremst. Hvernig bregðumst við við breyttum aðstæðum? Eins og hv. þm. vita er það þannig að í sambandi við kostnað við EFTA greiða Svisslendingar helminginn af kostnaðinum og miðað við það að EFTA liðist í sundur því að ég tel að það geri það ef hvorki Sviss né Noregur verður þar lengur með, þá er svo sannarlega hægt að tala um gjörbreyttar aðstæður.

Eins veltir maður fyrir sér lagasetningunni, undirbúningi tilskipana. Eins og ástandið er í dag má þó segja að Ísland komi að þeim málum, að vísu í misjafnlega miklum mæli, en við eigum möguleika á að fylgjast með undirbúningi mála. Þá velti ég því fyrir mér hvort við ráðum við þann þátt mála ein og sér eða í sambandi við Liechtenstein ef þær aðstæður skapast að þessi tvö ríki standa ein utan við.

Hæstv. forseti. Ég vil segja það að lokum að ég tel að við getum ekki kveðið upp úr í dag í þessum efnum. Við verðum að halda öllum leiðum opnum.