Skuldastaða heimilanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 15:11:54 (7005)

2000-05-08 15:11:54# 125. lþ. 107.94 fundur 489#B skuldastaða heimilanna# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[15:11]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Skuldastaða heimilanna speglar bara þróun efnahagsmála í landinu á síðustu árum. Eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur hér bent á blasir við okkur virkileg óheillaþróun. Ég mun, herra forseti, draga athyglina að þessu samhengi. Ég vil draga athygli að því að viðskiptahallinn í ár stefnir í 50--60 milljarða. En hvaða tala verður nefnd eftir mánuð eða svo? Við afgreiðslu fjárlaga var gert ráð fyrir, að mig minnir, 38 milljarða kr. halla. Þetta er því tala sem hækkar mánaðarlega um svo og svo mikið og sýnir bara hvers konar tök eru á efnahagsstjórn landsins.

Þetta er þriðja árið í röð sem þessi halli er yfir 6% af landsframleiðslu og Þjóðhagsstofnun spáir að óbreyttri stöðu að hann verði 8% næstu árin allt til ársins 2004. Lengra sáu þeir ekki. Þessi efnahagsstjórn getur ekki annað en leitt til þess að skuldasöfnun heimilanna vaxi. Skuldasöfnun atvinnuveganna, sjávarútvegsins, iðnaðarins vex án þess ráðist sé í beinar fjárfestingar.

Hæstv. félmrh. minntist á búseturöskunina. Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar og ríkisstjórnarsamþykktir um að þar ætti að snúa hlutunum við hefur heldur ekkert gerst. Að óbreyttu stefnum við inn í verulega alvarlega stöðu í þjóðarbúskapnum og það er fyllilega ástæða til þess, herra forseti, að ríkisstjórnin athugi hvort það eigi ekki að skipta um efnahagsráðgjafa og um kúrs í efnahagsmálum ef ekki á enn verr að fara því við eigum annað skilið í góðærinu en að standa frammi fyrir stórauknum skuldum bæði hjá heimilum og atvinnuvegum landsins.