Skuldastaða heimilanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 15:23:15 (7010)

2000-05-08 15:23:15# 125. lþ. 107.94 fundur 489#B skuldastaða heimilanna# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[15:23]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það þarf ekki vitnanna við. Þessi skýrsla segir það allt. Hér er ekki um það að ræða að stjórnarandstaðan hrópi á hefðbundinn hátt: ,,Úlfur, úlfur. Það eru vandamál hjá fjölskyldum í þessu landi.`` Nei, það er undirstofnun félmrn. sem gerir það með greinargóðum hætti í þessari skýrslu. Það er ekki svo, herra forseti, því miður, að hér sé um tæknileg úrlausnarefni að ræða gagnvart fámennum minnihlutahópum. Nei, ef málið væri svo einfalt væri búið að leysa það. Hér er um pólitíska stefnumörkun að ræða og afleiðingar hennar, þ.e. þá misskiptingu sem birtist okkur m.a. í þessari skýrslu og einnig í þeim veruleika að skuldir allra fjölskyldna í landinu samanlagt hafa aukist umfram eignamyndun. Nettóskuldaaukning er með öðrum orðum upp á 91 milljarð á síðustu árum. Það er sú tala sem við okkur blasir.

Herra forseti. Af hverju nota ég orðin pólitísk stefnumörkun? Jú, einfaldlega vegna þess að það er á ábyrgð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, hæstv. félmrh. Páls Péturssonar og annarra ráðherra stjórnarliðsins, þegar þeir halda því fram við fólk í þessu landi í miðju góðærinu að í lagi sé að auka neysluna, sæluríkið muni vara að eilífu.

Eftir höfðinu dansa limirnir. Hvernig á annað að vera hjá almenningi í þessu landi sem fylgist með þeirri eyðslustefnu sem er í gangi hjá þessari ríkisstjórn hvarvetna sem litið er og birtist m.a. í hvatningu til fólks um að kaupa lúxusjeppa með því að lækka verð þeirra, birtist í því að milljarðarnir velta milli fyrirtækja. Peningar eru alls staðar og hvergi. Hvernig á annað að vera en að almenningur í þessu landi segi: ,,Af hverju ekki ég? Má ég ekki vera með í miðju þessa góðæris?``

Afleiðingin blasir við. Það þarf að að taka á málum með pólitískum aðgerðum, ekki með því að leggja af vaxtabótakerfið eins og einstakir aðilar hafa talað um, líftaug fátæka fólksins og skuldugra fjölskyldna í þessu landi, heldur með því að taka pólitískt á málum og af ábyrgð.