Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 17:19:51 (7228)

2000-05-09 17:19:51# 125. lþ. 110.24 fundur 547. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (hlutabréf, lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv. 86/2000, Frsm. minni hluta MF
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[17:19]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að stundum er það verulegur kostur að nefndarálitum er ávallt dreift skriflegum áður en þau eru flutt því að töluvert erfitt er að fylgjast með framsögu hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, formanns efh.- og viðskn., þar sem honum liggur svo lágt rómur. En ég mæli, virðulegi forseti, fyrir nál. frá minni hluta efh.- og viðskn. og þar segir, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Um er að ræða m.a. breytingu á frestun á skattlagningu vegna iðgjalda til lífeyrissjóða, meðferð tekna af kaupum á hlutabréfum samkvæmt kauprétti, skattfrelsi vegna kaupa á erlendum hlutabréfum, mat á erlendum hlutabréfum til eignarskattsstofns og túlkun og framkvæmd á tvísköttunarsamningum.

Nefndin hefur fjallað ítarlega um frumvarpið og fengið umsagnir um það. Meðal annars barst ítarleg umsögn frá ríkisskattsjóra þar sem hann bendir á að ákvæði skattalaga um frádrátt iðgjalda til lífeyrissjóða hafi lengi verið ófullnægjandi, réttarástand óljóst og ósamræmi í framkvæmd og að skortur á skýrum reglum hafi leitt til misnotkunar og ágreinings. Ríkisskattstjóri gerir verulegar athugasemdir við ýmsar aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og dregur verulega í efa að rétt sé að ráðast í þær eins og fram kemur í ítarlegri umsögn hans sem fylgir með nefndaráliti þessu.

Það vekur athygli að lítið sem ekkert tillit er tekið til athugasemda sem bárust frá ríkisskattstjóra í breytingartillögum meiri hlutans.

Minni hlutinn er hlynntur þeim breytingum sem lagðar eru til varðandi aukið skattfrelsi lífeyrisiðgjalda. Um er að ræða að launafólk og sjálfstætt starfandi einstaklingar fá auknar heimildir til að draga frá skattskyldum tekjum sínum greiðslur í lífeyrissparnað. Minni hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram hafa komið að þessi breyting hvetji til aukins sparnaðar landsmanna. Minni hlutinn hlýtur þó að vekja athygli á því að ríkissjóður gæti tímabundið orðið fyrir umtalsverðum tekjumissi af þessum sökum.

Minni hlutinn lýsir eindreginni andstöðu við þá þætti frumvarpsins sem miða að auknum frádrætti vegna fjárfestinga í hlutabréfum og breytingu á skattalegri meðferð kaupréttar eða valréttarsamninga. Þær breytingar fela meðal annars í sér að að uppfylltum ákveðnum skilyrðum verði tekjur starfsmanna af kaupum á hlutabréfum samkvæmt kauprétti ekki skattlagðar sem launatekjur með 38,37% skatthlutfalli heldur sem fjármagnstekjur með 10% skatthlutfalli.

Þessi breyting mun koma hluta starfsmanna hlutafélaga til góða en ekki öðru launafólki eða elli- og örorkulífeyrisþegum. Í greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir að hér sé aðeins um að ræða vel menntað og sérhæft starfsfólk. Því má draga í efa að þessi undanþága standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eins og fram kemur í umsögn ASÍ.

Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að reglur um frádrátt vegna fjárfestinga í hlutabréfum verði rýmkaðar. Heimildin verði ekki lengur bundin því að fjárfest sé í innlendum hlutabréfum heldur nái hún einnig til fjárfestinga í erlendum hlutabréfum. Fyrir þessari breytingu eru færð þau rök að í gildandi lögum felist mismunun sem brjóti í bága við skuldbindingar okkar vegna EES-samningsins. Minni hlutinn tekur undir það sjónarmið sem fram kemur í umsögn ASÍ og BSRB að ef um sé að ræða brot á ákvæðum EES-samningsins sé eðlilegra að afnema afsláttinn vegna hlutabréfakaupa í stað þess að leggja til þá útvíkkun sem frumvarpið felur í sér. Jafnframt er ástæða til að vara við því að um misnotkun geti orðið að ræða þegar skattaleg meðferð er mismunandi vegna launagreiðslna og aukinna ívilnana vegna kaupa á hlutabréfum.

Minni hlutinn fagnar því að meiri hluti nefndarinnar hefur tekið upp breytingartillögu sem kemur til móts við frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar á þskj. 862 um að meðlagsgreiðslur umfram lágmarksmeðlög verði ekki skattlagðar. Fram til þessa hafa meðlög umfram lágmarksmeðlög verið skattskyld sem verður að teljast mjög ósanngjarnt. Í fyrsta lagi er það vegna þess að í hugum flestra er meðlag foreldris með barni ekki tekjur móttakanda heldur fremur ráðstöfun tekna meðlagsgreiðanda í þágu barnsins. Í öðru lagi má segja að um sé að ræða tvísköttun, þ.e. fyrst er greiddur skattur af tekjum meðlagsgreiðanda og síðan af meðlaginu þegar það er komið í hendur þess sem hefur forræði yfir barninu. Minni hlutinn vekur þó athygli á því að í þessu sambandi þyrfti einnig að gera breytingu á lögum sem tryggja að Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimti meðlagsgreiðslur umfram lágmarksmeðlag líkt og nú er gert varðandi lögboðið lágmarksmeðlag.

Minni hlutinn flytur einnig breytingartillögu við frumvarpið sem felur í sér að mikil hækkun á fasteignamati skerði ekki barna- og vaxtabætur. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur vakið athygli á því að fasteignamat eigna á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað 1. desember 1999 um 18%, en hækkun á eignaviðmiðun skattalaga hækkar aðeins um 2,5% milli ára. Miðað við að eignarskattstofn, þ.e. eignir að frádregnum skuldum, hækki um 10% milli áramótanna 1998 og 1999, gerir Þjóðhagsstofnun ráð fyrir að barnabætur skerðist um 15 millj. kr. og vaxtabætur um 70 millj. kr. Í breytingartillögu minni hlutans er gert ráð fyrir að eignarskattstofn að frádregnum skuldum hækki um 15% milli ára sem ætla má að sé raunhæfara miðað við 18% hækkun á fasteignamati eigna.

Með vísan til framanritaðs er ljóst að minni hlutinn styður eingöngu eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins, þ.e. að skattfrelsi lífeyrisiðgjalda verði aukið, en mun greiða atkvæði gegn þeim ákvæðum sem lúta að kaupum á hlutabréfum samkvæmt kauprétti og auknu skattfrelsi vegna kaups á erlendum hlutabréfum.``

Meðfylgjandi eru umsagnir ASÍ, BSRB og ríkisskattstjóra. Undir nál. rita sú sem hér stendur og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson.

Virðulegi forseti. Sú breyting sem lögð er til í frv. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt hefur hlotið mjög mikla umfjöllun í efh.- og viðskn. og verður að segja eins og er að afar skiptar skoðanir eru, bæði hvað varðar þær breytingar sem gerðar eru varðandi aukna möguleika á skattfrelsi vegna greiðslna lífeyrisiðgjalda og einnig hvað varðar breytingarnar sem lúta að hlutabréfakaupum eða launum greiddum í formi þess og svo rýmkun heimilda til að draga frá skattstofni kaup á hlutabréfum erlendis. Minni hlutinn mun aðeins styðja þær brtt. og þær greinar sem lúta að hvað varðar lífeyrissjóðina, þ.e. 1. gr. frv., 4. gr. og 6. gr. frv. og þær brtt. sem lagðar eru til á þessum greinum nákvæmlega. Jafnframt munum við styðja tillöguna um meðlagsgreiðslurnar og vekjum athygli á eins og bent er á í nál. okkar að við teljum að jafnframt því að gera þær breytingar varðandi umframmeðlagsgreiðslur, þ.e. umframlágmarksmeðlag, verði ekki skattlagðar, ein meðlagsgreiðsla, þá teljum við mjög nauðsynlegt að gera aðrar lagabreytingar sem tryggja að Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimti meðlagsgreiðslur umfram lágmarksmeðlag líkt og gert er gagnvart lögboðnu lágmarksmeðlagi. Þannig er það ekki í dag, heldur er það svo að sé dæmt tvöfalt meðlag með barni þá verður forráðamaður barns, í flestum tilvikum móðir, að sækja þetta umframmeðlag og innheimta það sjálf án nokkurrar aðstoðar Innheimtustofnunar sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila. Það þýðir oft og tíðum og hefur sýnt sig í mörgum tilvikum að þá þarf viðkomandi einstaklingur að fara með slíka innheimtu í lögfræðing sem er mjög dýr þjónusta og hefur í raun og veru orðið til þess að þær mæður eða þeir einstæðu feður sem hafa fengið það sem um er að ræða, að dæmt hefur verið tvöfalt meðlag með hverju barni, þá hafa þeir tapað þessu umframmeðlagi vegna þess að þeir hafa ekki haft efni á að sækja það. Við teljum að gera þurfi ákveðnar breytingar varðandi lög um Innheimtustofnun sveitarfélaga til þess að kippa þessu í liðinn þó þarna sé vissulega um ákveðna réttarbót að ræða og við viljum ítreka þær ábendingar okkar.

Í umsögn Alþýðusambands Íslands kemur glögglega í ljós að Alþýðusambandið styður þær breytingar sem gerðar eru hvað varðar lífeyrissjóðina en leggst gegn öðrum breytingum á sama hátt og minni hluti efh.- og viðskn. og má segja að sjónarmið okkar, ASÍ og BSRB fari saman hvað varðar afgreiðslu eða álit á frv.

Ég vil, virðulegi forseti, fara yfir umsögn sem barst frá Alþýðusambandi Íslands, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Miðstjórn ASÍ hefur fengið til umsagnar frumvarp um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Á fundi miðstjórnar í dag, 26. apríl, var eftirfarandi umsögn samþykkt:

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þremur þáttum laga um tekjuskatt og eignarskatt; frádrætti vegna fjárfestinga í hlutabréfum, skattlagningu kaupréttar og skattalegri meðferð lífeyrisgreiðslna. Einnig eru lagðar til nokkrar breytingar á framkvæmd laganna.

1. Frádráttur vegna fjárfestinga í hlutabréfum.

Í frumvarpinu er lagt til að reglur um frádrátt vegna fjárfestinga í hlutabréfum verði rýmkaðar þannig að heimildin verði ekki bundin því að fjárfest sé innlendum hlutabréfum heldur nái hún einnig til fjárfestinga í erlendum hlutabréfum. Rök frumvarpshöfunda fyrir þessari breytingu eru að núverandi framkvæmd feli í sér mismunun á milli innlendra og erlendra fjárfestingarkosta og sé því óheimil samkvæmt skuldbindingum Íslands vegna EES-samningsins.

[17:30]

Markmiðið með því að leyfa einstaklingum að draga frá tekjum sínum fjárfestingar í innlendum hlutabréfum hefur fyrst og fremst verið að styðja við íslenskt atvinnulíf. Árið 1994 var t.d. hætt við að þrepa frádráttinn niður í áföngum og var það hluti af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við endurmat kjarasamninga ASÍ í maí 1994. Ástæðan var sú að atvinnuleysi var þá mikið hér á landi og nauðsynlegt var talið að örva fjárfestingar í íslensku atvinnulífi.

Alþýðusamband Íslands er þess vegna mótfallið því að sú mismunun sem vissulega er fyrir hendi nú verði leyst þannig að einnig verði leyfður frádráttur frá tekjum einstaklinga vegna fjárfestinga í erlendum hlutabréfum. Alþýðusambandið telur að þá mismunun eigi að leysa með því að afnema frádrátt vegna hlutabréfakaupa alfarið þar sem efnahags\-ástand sé nú allt annað en það var þegar horfið var frá því að afnema hlutabréfaafsláttinn 1994.

Í frumvarpinu er lögð til breyting á skattalegri meðferð kaupréttar- eða valréttarsamninga. Lagt er til að séu ákveðin skilyrði uppfyllt, verði tekjur starfsmanna af kaupum á hlutabréfum samkvæmt kauprétti ekki skattlagðar sem launatekjur með 38,37% skatthlutfalli heldur sem fjármagnstekjur með 10% skatthlutfalli.

Tekjuauki starfsmanna vegna kaupréttarsamninga verður annars vegar til vegna þess að mismunur er á því verði sem er á hlutabréfum við gerð kaupréttarsamningsins og því verði sem er á hlutabréfunum þegar þau eru afhent starfsmanni (afhendingardegi). Hins vegar getur tekjuauki starfsmanns komið til vegna mismunar á verði hlutabréfanna þegar starfsmaður selur þau og því verði sem var á bréfunum þegar hann fékk þau afhent. Nokkur rök eru fyrir því að skattleggja mismun á markaðsverði hlutabréfa við afhendingu og söluverð hlutabréfanna sem fjármagnstekjur eins og hjá öðrum sem kaupa og selja hlutabréf.

Hins vegar eru tekjur starfsmanns af verðmismuni á gengi bréfanna við gerð kaupréttarsamnings og við afhendingu þeirra klárlega tekjuskattsskyldar enda segir orðrétt í greinargerð með frumvarpinu:

,,Undanfarin missiri hefur færst mjög í aukana að fyrirtæki semji við starfsmenn um að hluti launa verði greiddur með kauprétti starfsmanna á hlutabréfum í félagi sem þeir starfa hjá. Í gildandi lögum er ekki sérstaklega kveðið á um skattlagningu slíkra tekna, heldur litið svo á að þær falli undir almenna reglu 7. gr. laganna um starfstengdar greiðslur. Hér er því um að ræða endurgjald til starfsmanns fyrir vinnuframlag hans sem ber að skattleggja hjá honum á sama hátt og aðrar launatekjur.``

En þrátt fyrir að enginn vafi virðist leika á því að hér sé um launatekjur að ræða er í frumvarpinu lagt til að þær verði skattlagðar með aðeins 10% skatthlutfalli (sem fjármagnstekjur) en ekki 38,37% eins og aðrar tekjur launafólks.

Alþýðusamband Íslands leggst alfarið gegn því að sú undantekning frá meginreglu tekju- og eignarskattslaganna sem lögð er til í frumvarpinu verði samþykkt.

Þessi breyting hefði einnig í för með sér töluvert tekjutap fyrir hið opinbera, þó ekki hafi verið reynt að leggja mat á það í umsögn fjármálaráðuneytisins, enda erfitt að meta það fyrr en reynsla er komin á framkvæmdina. Hins vegar er ljóst að þar sem hér er um verulegt skattalegt hagræði fyrir fyrirtæki og starfsmenn að ræða þá hlýtur að mega gera ráð fyrir aukningu á gerð slíkra samninga. Ljóst er að hér getur verið um töluverða niðurgreiðslu á launkostnaði fyrirtækja að ræða og verulegan skattafslátt fyrir starfsmenn sem í hlut eiga. Ef marka má greinargerð með frumvarpinu, þá er hér fyrst og fremst um að ræða ,,vel menntað og sérhæft starfsfólk``.

Þessi breyting mun einungis koma starfsmönnum hlutafélaga til góða en ekki öðru launafólki eða elli- og örorkulífeyrisþegum. Það má því einnig draga í efa að þessi undanþága standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Tekjutap hins opinbera af breytingum sem þessum hefur í för með sér að þeir sem ekki njóta borga meira í skatta en ella.

Að lokum er vert að benda á að mismunur á tekjuskattshlutfalli og skatthlutfalli fjármagnstekjuskatts er mun meiri hér á landi en í öðrum löndum eins og kemur skýrt fram í greinargerð með frumvarpinu. Því er skattlagning kaupréttar með fjármagnstekjuskattshlutfalli mun verðmætari hér á landi en í öðrum löndum.``

Um skattalega meðferð lífeyrisiðgjalda kemur fram í umsögn ASÍ, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpinu er lagt til að bæði framlög einstaklings og atvinnurekanda til öflunar lífeyrisréttar teljist til skattskyldra tekna þess sem lífeyrisréttinn fær. Einstaklingurinn fái síðan rétt til frádráttar, bæði á sínu framlagi og framlagi atvinnurekanda. Þess vegna er einnig lagt til í frumvarpinu að skattfrelsi lífeyrisiðgjalda verði aukið. Þannig verði hægt að draga allt að 20% af iðgjaldastofni, þó aldrei hærri upphæð en 1,5 milljónir kr. frá tekjuskattsstofni.

Alþýðusamband Íslands er hlynnt þessari breytingu en telur jafnframt nauðsynlegt að ljóst sé hvernig bæta eigi hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum, það tekjutap sem það verður fyrir vegna þessarar breytingar. Hér getur verið um að ræða nokkurra milljarða króna tekjutap.``

Þess ber að geta, virðulegi forseti, að frá því að þessi umsögn hvað varðar breytingarnar sem lagðar voru til í frv. um greiðslur í lífeyrissjóði var send inn hefur nefndin gert þar verulegar breytingar á en umsögn ASÍ er nokkuð samhljóða því sem kemur fram hjá ríkisskattsjóra þó heldur færri orð séu notuð af hálfu ASÍ en ríkisskattstjóra um sama mál.

Lagt var mat á tekjutapið, sem minnst er á í umsögn Alþýðusambandsins, af efnahagsskrifstofu fjmrn. Erfitt er að meta þetta en okkur var sagt að með því að gefa sér ákveðnar forsendur, þ.e. að reikna með að helmingur þeirra sem nú þegar nýta sér skattfrelsi viðbótarlífeyrissparnaðar auki sparnað sinn í 4% og að 5% til viðbótar komi inn í kerfið, megi reikna með að tekjuáhrifin, þ.e. tap ríkissjóðs vegna aukins frjáls lífeyrissparnaðar, verði 500--600 millj. kr. en þess ber að geta, virðulegi forseti, að reikna má með að þessar tekjur skili sér síðar meir. Hins vegar er ekki lagt mat á tekjutap ríkissjóðs vegna þessara hlutabréfakaupa eða launagreiðslna í formi hlutabréfa og það kemur ekki fram í þeirri upptalningu sem við höfum undir höndum. Því er erfitt að leggja mat á það, eins og fram kemur í umsögn ASÍ, hvort hér getur verið um að ræða nokkurra milljarða kr. tekjutap.

Fróðlegt væri að heyra frá hæstv. fjmrh. hvort hann tekur undir það sjónarmið sem fram kemur í umsögn ASÍ hvað þetta varðar vegna þess að reiknað er með að í þeim frv. sem voru lögð fram eftir 1. apríl, miðað við þann pappír sem við höfum frá efnahagsskrifstofu fjmrn., sé um að ræða tekjutap sem getur numið allt að 2,6 milljörðum kr., sem er ekki lítil upphæð. Því er erfitt fyrir okkur að standa að öllum þessum frv. og þeim breytingum sem hafa verið lagðar til í ljósi þeirra viðvarana sem hafa komið frá helstu efnahagsstofnunum okkar. Á sama tíma og vantar fjármagn inn í ýmsa þætti sem við, þingmenn Samfylkingarinnar, vildum gjarnan sjá að betur væri gert við, eins og það sem lýtur að félagslegri þjónustu, heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu vildum við heldur sjá þessar tekjur inni í ríkissjóði og þeim væri þá ráðstafað til uppbyggingar t.d. í heilbrigðiskerfinu. Af því að rætt var utan dagskrár um byggingu á dvalarheimili eða hjúkrunarheimili fyrir aldraða þar sem mikil þörf er til staðar, og reyndar þau heimili sem eru rekin í dag þurfa á auknu fjármagni að halda og ég nefni t.d. sérstaklega hjúkrunardeild Sjúkrahúss Suðurlands þar sem er hjúkrunardeild fyrir aldraða þar sem þarf verulegar endurbætur, væri eðlilegra að þessum tekjum væri haldið inni í ríkissjóði og farið í þær úrbætur sem nauðsynlegt er að gera.

En BRSB sendi einnig inn umsögn um þetta frv. sem er nokkuð samhljóða málflutningi okkar í minni hluta í efh.- og viðskn. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Lagt er til með frumvarpinu að gera breytingar á lögum um tekjuskatt og eignaskatt varðandi frádrátt vegna fjárfestinga í hlutabréfum, skattlagningu kaupréttar og á skattalegri meðferð lífeyrisgreiðslna.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að rýmkaðar verði reglur um frádrátt frá skatti vegna fjárfestinga í innlendum hlutabréfum á þann veg að heimildin nái líka til fjárfestinga í erlendum hlutabréfum. Rökin fyrir breytingartillögunni eru þau að ekki sé heimilt samkvæmt skuldbindingum Íslands vegna EES-samningsins að mismuna milli erlendra og innlendra aðila.

Tilgangurinn með því að heimila einstaklingum að draga frá tekjum fjárfestingar í innlendum hlutabréfum hefur verið að styðja íslenskt atvinnulíf. Nú er allt önnur staða uppi í efnahagslífi þjóðarinnar en var þegar afslátturinn var tekinn upp og forsendur fyrir honum eiga ekki við ef hann á að gilda um erlenda aðila einnig. BSRB leggur til að afnema afsláttinn vegna hlutabréfakaupa frekar en að rýmka hann til þess að uppfylla skuldbindingar vegna EES-samningsins.

BSRB leggst alfarið gegn tillögu í frumvarpinu um að breyting verði gerð á skattalegri meðferð kaupréttar- eða valréttarsamninga þannig að tekjur starfsmanna af kaupum á hlutabréfum samkvæmt kauprétti verði ekki skattlagðar sem launatekjur heldur sem fjármagnstekjur.

BSRB er fylgjandi tillögu um breytingu á skattalögum um heimildir til að draga frá skattskyldum tekjum iðgjöld og framlög til öflunar lífeyrisréttinda.

Miklu máli skiptir þó hvernig að slíku er staðið og er ljóst að hið opinbera gæti orðið fyrir umtalsverðu tekjutapi. Áður en ráðist er í þessar breytingar er brýnt að fram komi hvernig það verði bætt.``

Sömu áhyggjur koma fram í umsögn BSRB og ASÍ hvað varðar tekjutap ríkissjóðs.

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem fram kemur í báðum þessum umsögnum að á þeim tíma sem var heimilt að leyfa einstaklingum að draga frá tekjum sínum fjárfestingar í innlendum hlutabréfum var hugsunin fyrst og sú að styðja við íslenskt atvinnulíf þar sem atvinnuleysi var mjög mikið. Þetta var þáttur í því að reyna að efla atvinnulífið og á sínum tíma verkaði sem ákveðin sprauta inn í efnahagslífið. En sú útvíkkun á heimildum sem hér er lögð til er að okkar mati fráleit. Við teljum eðlilegt að fella út þá heimild sem er til staðar og í þess stað að heimila að kaup á hlutabréfum erlendis verði einnig frádráttarbær.

Einnig er tekið upp það nýmæli að setja inn í lög að heimilt sé að greiða laun með hlutabréfum, hlutabréfaeign og skattleggja þau laun með allt öðrum hætti en aðrar launatekjur. Við leggjumst alfarið gegn þessu eins og fram kemur í nál. og fram kemur í umsögnum ASÍ og BSRB. Við teljum í fyrsta lagi að þarna sé um mjög gróflega mismunun að ræða. Rökin fyrir þessu eru m.a. að ef þetta sé ekki gert verðum við ekki samkeppnisfær á alþjóðlegum vinnumarkaði, og þá kannski fyrst og fremst Evrópumarkaðnum, vegna þess að það hafi færst verulega í vöxt að fyrirtæki greiði laun eða geri samninga við starfsmenn sína með þeim hætti sem hér um ræðir.

Við teljum að ef farin er sú leið að greiða laun með hlutabréfum í þá veru sem frv. gerir ráð fyrir sé eðlilegt að þær launatekjur séu skattlagðar eins og aðrar launatekjur fólks. Það eru mjög takmarkaðar og nánast hverfandi líkur á því að almennir starfsmenn, þ.e. ýmsar láglaunastéttir sem starfa hjá sömu fyrirtækjum og verðlauna þetta vel menntaða og sérhæfða starfsfólk sitt, eins og segir í frv. --- ég tek fram, virðulegi forseti, að þetta eru orð sem notuð eru í frv. en ekki frá mér komin --- að þessi leið verður notuð fyrst og fremst fyrir þá sem eru með hæstu tekjurnar innan hvers fyrirtækis sem munu nýta þennan möguleika. Aðrir þeir sem eru á lágum launum og á taxtakaupi eða eru á þeim launum sem verkalýðshreyfingin er að semja um þessar vikurnar munu í engu njóta þess forms á launagreiðslum og verða að greiða fullan tekjuskatt af launum sínum. Hv. þm. Pétur Blöndal hristir höfuðið og segir um leið jú.

[17:45]

Þar sem talað er um vel menntað og sérhæft starfsfólk þá tel ég ólíklegt þótt segja megi að þeir sem sjá t.d. um skúringar í slíkum fyrirtækjum séu sérhæfðir, að þeim verði boðið upp á slík kjör og að greiða aðeins 10% skatt af launum sínum. Ég tel það bara afar hæpið. Við drögum í efa og tökum undir það sjónarmið sem fram kemur hjá ASÍ að sú undanþága sem þarna er standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og hefðum viljað að okkur hefði unnist tími til þess að láta skoða þau atriði sérstaklega. Síðan vörum við auðvitað við því að alltaf er hætta á misnotkun þegar svona undanþágur eru settar inn í skattalög, undanþágur sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur varað mjög við og talið að frekar ætti að fækka þeim en fjölga.

Hvað varðar iðgjöld til lífeyrissjóða þá eru lagðar til verulegar breytingar á frv. frá því sem lagt var til í upphafi og þar tel ég að farin hafi verið millileið og sú eina leið sem við sáum í raun færa og við styðjum þær brtt. sem meiri hlutinn leggur til við þær greinar sem þar um ræðir, þ.e. 1., 4. og 6. gr. frv.

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að nefna það að okkur barst mjög ítarleg umsögn frá ríkisskattstjóra upp á nokkrar síður. Seinna fengum við viðbótarumsögn um þær brtt. sem þá voru í smíðum hjá efh.- og viðskn. Mjög margt í þessari umsögn frá ríkisskattstjóra kemur á óvart en þó eru sjónarmið hans gagnvart iðgjöldum til lífeyrissjóða mjög skýr hvað það varðar að telja eigi fram sem tekjur viðkomandi einstaklings það sem greitt er af í lífeyrissjóð þess einstaklings, og undir það sjónarmið tekur reyndar ASÍ í sinni umsögn.

Það varð ekki ofan á í tillöguflutningi nefndarinnar. Að öðru leyti er ríkisskattstjóri tiltölulega ánægður með þær breytingar sem gerðar eru hvað varðar lífeyrisiðgjöldin. En síðan kemur fram mjög mikil gagnrýni á ýmsa aðra þætti og þær breytingar sem lagðar eru til á þessu frv., bæði brtt. sem lagðar eru til af efh.- og viðskn. og einnig frv. eins og það var lagt fram af hæstv. ríkisstjórn. Svo virðist vera, virðulegi forseti, að um sé að ræða ágreining um túlkun og framkvæmd laga um tekju- og eignarskatt á milli fjmrn. og ríkisskattstjóra. Það er auðvitað mjög alvarlegur hlutur. Ég vil hvetja til þess, virðulegi forseti, að hæstv. fjmrh. fari yfir þá umsögn sem ríkisskattstjóri sendi og menn vinni úr þeim ágreiningi sem virðist hafa komið upp á milli fjmrn. og ríkisskattstjóra um einstaka þætti frv. og framkvæmd á þessum lögum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu öllu meir en orðið er og ítreka aðeins það sjónarmið okkar í minni hluta efh.- og viðskn. að við teljum að þær breytingar sem lagðar eru til varðandi iðgjöld til lífeyrissjóða séu af hinu góða og við munum styðja þær allar. Hinu greiðum við atkvæði gegn og munum þá að öllum líkindum sitja hjá við lokaafgreiðslu þessa frv. En við teljum að þær breytingar sem lúta að sköttun á iðgjöldum til lífeyrissjóða séu hvetjandi til sparnaðar og sú leið hafi reynst, miðað við þær skýrslur sem liggja fyrir, nokkuð vel og getur hugsanlega gert enn betur.

Ég vil að lokum taka undir þau sjónarmið að um leið og við erum að auka greiðslur inn í lífeyrissjóði þá þurfi að setja enn skýrari reglur um meðferð fjármuna innan lífeyrissjóða en til eru í dag. Það þarf að vera alveg klárt hvaða heimildir lífeyrissjóðir hafa til þess að fara með þá fjármuni sem þeim er treyst fyrir, hvernig stjórnir mega haga sér gagnvart þeim fjármunum og einnig þurfa að vera alveg skýrar reglur um upplýsingagjöf til þeirra sem greiða í lífeyrissjóði og gera þarf mun strangari hæfniskröfur en gerðar eru í dag til stjórnenda lífeyrissjóða. Ég tel að þetta sé seinni tíma mál sem þurfi að taka hér upp til ítarlegrar umfjöllunar á næsta þingi, ekki síst í ljósi þess að heimildir lífeyrissjóða til að ráðstafa því fé sem í lífeyrissjóðunum er hafa verið auknar að undanförnu. Við vorum að afgreiða frv. þess efnis fyrir stuttu síðan. En samhliða hefði mátt gera auknar kröfur til stjórnenda lífeyrissjóða. Ég tel að það séu þættir sem þurfi að taka til verulegrar endurskoðunar hér á næsta ári. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur oftsinnis vakið athygli á þessum málum og þó ég sé ekki sammála öllum þeim tillögum sem hann hefur lagt fram í þeim efnum tel ég að þar sé samt sem áður verið að hreyfa mjög þarfri umræðu.