Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 18:15:02 (7231)

2000-05-09 18:15:02# 125. lþ. 110.24 fundur 547. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (hlutabréf, lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv. 86/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[18:15]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Meginginntakið í umsögn ASÍ varðandi skattívilnanir eða undanþágu á iðgjöldum til lífeyrissjóða er í þeim anda sem ég hef talað fyrir. Hitt er eiginlega meira spurning um orðalag.

Varðandi ráðleggingar mínar til lítilla tæknifyrirtækja finnst mér það sannast sagna ekki vera alveg í þeim anda sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur iðulega talað. Honum verður tíðrætt um jafnræðisreglur, að öll fyrirtæki sitji við sama borð, og mig langar til að spyrja hann núna á móti hvort hann vilji draga einhverja línu á milli fyrirtækja sem æskilegt er að styðja og annarra sem síður er æskilegt að styðja.

Ef hann vill ekki draga þessar línur situr hann uppi með stuðning við þetta frv. sem gerir ráð fyrir að ívilna öllum hlutafélögum í landinu og gera þeim auðvelt að hygla þeim starfsmönnum sem þar hafa hæstar og mestar tekjurnar.