Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 18:20:18 (7234)

2000-05-09 18:20:18# 125. lþ. 110.24 fundur 547. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (hlutabréf, lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv. 86/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[18:20]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hv. frsm. minni hlutans, Margrét Frímannsdóttir og hv. síðasti ræðumaður, Ögmundur Jónasson, hafa gert nál. minni hluta efh.- og viðskn. ítarleg skil í því máli sem hér er til umræðu. Ég þarf því út af fyrir sig ekki að hafa mörg orð um frv. Skoðun mín í málinu kom líka ítarlega fram við 1. umr. Það eru þó fjögur atriði sem ég vil árétta við 2. umr.

Ég held að full ástæða sé til þess að hafa nokkrar áhyggjur af því sem fram kemur í frv. því það gengur út á að hægt sé að taka hluta af launum í hlutabréfum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum samkvæmt kauprétti sem ekki eru skattlagðar sem launatekjur heldur sem fjármagnstekjur með 10% skatthlutfalli. Ég óttast, herra forseti, að þó að sett sé ákveðið þak á það í frv. hve mikið hægt er að nýta þetta samkvæmt þessari leið með lægra skatthlutfallinu þá geti ákvæðið leitt til þess að þeir sem hafa aðstöðu til að fá hluta launa sinna greiddan á þennan hátt nýti það að fullu. Ég kalla það ákveðna mismunun gagnvart þeim sem taka tekjur sínar út í launum sem greiddur eru af tæplega 39% skattur, og að við séum raunverulega að auka misskiptinguna í þjóðfélaginu með þessu. Af því ber auðvitað að hafa ákveðnar áhyggjur. Þess vegna er það auðvitað rétt og eðlilegt sem við í minni hlutanum leggjum til, að þetta gangi ekki fram á þann hátt eins og meiri hlutinn leggur til.

Hitt atriðið sem ég vil nefna sem mér finnst mjög sérkennilegt, jafnvel þó verið sé að vitna til þess að það atriði brjóti í bága við skuldbindingar okkar vegna EES-samningsins, þ.e. að fjárfesting í erlendum hlutabréfum eigi að hafa sömu skattalega stöðu og innlend hlutabréf, er að mér finnst mjög óeðlilegt hvernig að þessu er staðið af hálfu meiri hlutans og tel að það hefði fremur verið ástæða til þess, ef þarna þarf að gæta ákveðins jafnræðis, að breyta þá þessari skattalegu ívilnun sem er á kaupum á innlendum hlutabréfum. En þarna er verið að auka þessar ívilnanir og láta þær ná núna til erlendra hlutabréfa.

Auk þess má við þetta bæta sem ég held að full ástæða sé til að skoða og vænti að hæstv. ráðherra hafi skilning á því atriði en það er hvernig útreikningi er háttað á skatti á hlutabréfum þar sem skattaleg meðferð eða skattur reiknast á nafnverð bréfanna en ekki markaðsvirði hjá einstaklingum sem eiga hlutabréf. Mér finnst alveg full ástæða til að skoða það vegna þess að ég býst við að nafnverðið sé kannski u.þ.b. 1/5 af markaðsverði. Og ég held, herra forseti, varðandi þennan þátt málsins, að full ástæða sé til að skoða það sérstaklega og því finnst mér óeðlilegt í þessari stöðu að verið sé að breyta þessu varðandi erlendu hlutabréfin.

Varðandi brtt. sem við í minni hlutanum erum með þá hafa bæði hv. þm. Ögmundur Jónasson og Margrét Frímannsdóttir gert því ágæt skil að ljóst er að fasteignamatið, sem hefur hækkað gífurlega eða um 18% vegna hækkana á verði á fasteignum á höfuðborgarsvæðinu, leiðir til þess að vegna þess að hækkun á eignaviðmiði skattalaga er aðeins um 2,5% á milli ára, getur leitt til verulegrar skerðingar á vaxtabótum og barnabótum. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur einmitt vakið athygli á þessu og sett fram í skýrslu sinni að eignaviðmið skattalaga þurfi að taka mið af hækkun á fasteignamati á hverju ári til að ekki komi til skerðingar á vaxtabótum og barnabótum. Og ef við miðum við um 15%, sem ég hygg að sé sá munur ef við drögum skuldir frá, og lítum bæði til eigna og skulda getur verið um 100--150 milljónir að ræða í þessu sambandi sem vaxtabætur og barnabætur skerðast um. Ráðgjafarstofa heimilanna hefur sett fram dæmi sem ekki er tilbúið heldur raunverulegt í erindi sem hún fékkst við. Í því tilviki lækkuðu barnabætur um 77 þúsund hjá hjónum einmitt vegna þess að hækkun á fasteignamatinu var um 18% meðan eignaviðmið í skattalögum hækkaði aðeins um 2,5%.

Þess vegna tel ég eðlilegt að á það verði látið reyna nú. Það er nægjanlegt að fólk hafi þurft að bera bæði gífurlega hækkun á fasteignaverði, þ.e. ungt fólk sem er að kaupa sér íbúð, og hækkun á fasteignagjöldum þó að ekki komi til viðbótar skerðing á vaxtabótum og barnabótum. Við viljum því láta á þetta reyna hér í þinginu við 2. umr. þessa máls og ég harma það mjög að ekki náðist samstaða um þessa litlu brtt. í efh.- og viðskn.

Ég vil síðan sérstaklega fagna því og þakka efh.- og viðskn. fyrir að hafa tekið upp að hluta til efni úr frv. sem ég hef flutt ásamt nokkrum félögum mínum í Samfylkingunni og snertir framkvæmd á meðlagsgreiðslum umfram lögboðna lágmarksgreiðslu og skattalega meðferð þeirra. Gerð hefur verið grein fyrir þessu hér við umræðuna að það er auðvitað mjög óeðlilegt að það sé einungis lögboðið lágmarksmeðlag sem ekki er skattskylt en þegar kemur að aukameðlögum þá séu þau skattskyld. Vissulega er um tvísköttun að ræða og eðlilegt að halda því til haga að slíkur lífeyrir sem meðlögin eru er fyrst og fremst eign barnsins og mjög óeðlilegt að hún sé skattlögð með þeim hætti sem gert hefur verið hingað til. Ég hélt því reyndar fram þegar ég kynnti þetta mál að sennilega væri um það að ræða að þetta hefði farið fram hjá mönnum frekar en að menn hafi ætlað að skattleggja aukameðlög.

Það er líka reynslan að einstæðir foreldrar sem hafa forræði yfir barni hafa ekki treyst sér til að krefjast aukameðlags bæði vegna þess að þetta er skattlagt og ekki síður vegna þess að Innheimtustofnun á ekki samkvæmt lögum að innheimta það meðlag og því treysta mjög margir einstæðir foreldrar sér ekki til þess að ganga á eftir greiðslum umfram lögboðin meðlög. En það er hluti af þessu máli sem efh.- og viðskn. tekur hér upp, þ.e. skattfrelsi aukameðlaga, og því ber að fagna. Eftir stendur að Innheimtustofnun ber einungis skylda til þess að innheimta lágmarks lögboðið meðlag en ekki aukameðlag og á það verður auðvitað látið reyna á næsta þingi, enda erum við að fjalla um hóp fólks, einstæða foreldra, en skýrsla um stöðu þeirra sem lögð var fyrir þetta þing sýnir slæma stöðu þeirra í mörgum tilvikum. Ástæða er til að huga sérstaklega að stöðu einstæðra foreldra og minni ég einmitt á það sem fram kom í utandagskrárumræðu í gær að hæstv. félmrh. tók undir það að sérstaklega þyrfti að huga að aðgerðum til þess að bæta stöðu einstæðra foreldra. Svo er auðvitað spurning hvað verður úr efndum að því er það varðar.

Herra forseti. Ég vildi sérstaklega árétta þessi fjögur atriði núna við 2. umr. málsins sem ég taldi ástæðu til að leggja áherslu á.