Tollalög

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 20:55:21 (7254)

2000-05-09 20:55:21# 125. lþ. 110.41 fundur 196. mál: #A tollalög# (aðaltollhafnir) frv. 87/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[20:55]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hlýt náttúrlega að fagna því að þetta frv. var afgreitt frá efh.- og viðskn. á svo jákvæðan hátt sem raun ber vitni þar sem ég er einn af flutningsmönnum þess. Ég vil samt aðeins nefna það hér að ef það verður niðurstaðan að Alþingi samþykki að til verði tollhöfn í Þorlákshöfn, þá er það þannig að í dag er starfandi tollvörður við sýslumannsembættið á Selfossi og ég tel eðlilegt, og lýsi þeirri skoðun minni enn og aftur, að þessi þjónusta og þessi starfsemi verði þá alfarið í Þorlákshöfn, að þarna sé ekki um viðbót að ræða. Ég tek það jafnframt fram af því að ég sé að hv. 1. flm. þessa frv. er ekki á staðnum að um þetta erum við ekki endilega sammála, flutningsmenn frv. Ég vil nú líka halda skoðunum hans til haga þar sem hann er ekki í salnum.

Ég tel að mjög nauðsynlegt sé að koma á tollhöfn í Þorlákshöfn. Aðstæður þekki ég ekki eins á Höfn en miðað við þau rök sem fram eru færð í frv. tel ég að þær séu mjög sambærilegar. En ég ítreka þá skoðun mína að hér verði ekki um viðbót að ræða heldur færist starfsemin niður eftir þannig að kostnaðurinn af þessari breytingu verði þá minni en ella.