Geysissvæðið í Biskupstungum

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 13:25:06 (7409)

2000-05-10 13:25:06# 125. lþ. 114.10 fundur 478. mál: #A Geysissvæðið í Biskupstungum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[13:25]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Fá ef nokkur náttúrufyrirbrigði á landinu hafa verið rannsökuð jafnoft og jafnlengi og Geysir í Haukadal. Það má minna á að Ísleifur Jónsson, verkfræðingur og sérfræðingur í jarðborunum, hefur ítrekað lagt til að borað verði til að auka vatnsrennsli inn í hverinn. Hann telur að með því sé hægt að endurvekja Geysi án nokkurra spjalla á honum eða umhverfi hans. Ísleifur hefur rannsakað Geysi áratugum saman og það var hann sem endurvakti Strokk með borun á sínum tíma. Án Strokks væri hverasvæðið fyrst og fremst náttúruminjar.

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum flutti ég frv. til laga um eignaupptöku þessa svæðis. Það kom til vegna þess að þarna hafði einn aðili, ekki fjarri þessu merka náttúrufyrirbrigði, sett upp sumarbústað. Hann vantaði heitt vatn í sumarbústaðinn, boraði bara niður og sótti heitt vatn. Við það gerði enginn neinar athugasemdir. Að þetta merka náttúrufyrirbrigði, Geysir, skuli lenda í slíku froðusnakki milli ráðuneyta eins og raun ber vitni er mér gjörsamlega hulin ráðgáta. Það skiptir okkur Reykvíkinga miklu máli að Geysir gjósi vegna þess að hingað koma skemmtiferðaskip tugum saman og tugþúsundir farþega fara gegnum Reykjavík, ekki eingöngu til að skoða Reykjavík, heldur líka til að skoða Geysi og Gullfoss.