Notkun íslenskra veðurhugtaka

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:01:46 (7427)

2000-05-10 14:01:46# 125. lþ. 114.12 fundur 615. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HBl
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:01]

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi aðeins minna hæstv. umhvrh. á að gefnu tilefni að fleiri menn greiddu tillögugreininni atkvæði en felldu hana þannig að hæstv. ráðherra er náttúrlega ekki að tala fyrir hönd meiri hluta þeirra þingmanna sem hér voru í salnum þegar greidd voru atkvæði um tillögugreinina þannig að vilji Alþingis var svolítið tvíbentur í þessu máli.

Ég vil segja við hv. 3. þm. Norðurl. e. að ég hef ekki talað um það að taka aftur upp vindstig. Það kom ekki fram í mínu máli og er útúrsnúningur að tala um það. Á hinn bóginn sagði hv. þm. eins og ég skildi hann að hann væri mér sammála um að það ætti að venja þjóðina við hin gömlu veðurheiti þannig að þeir gætu tengt hraða í metrum á sekúndu við gömlu veðurheitin. Þannig skildi ég hv. þm. og þar með er hann auðvitað sammála því sem ég sagði.

Ég dreg alls ekki í efa að það sé fróðlegt að fá að lesa Gallupkönnun Veðurstofunnar og ég vil óska eftir því að fá í hendur, án þess að bera það fram með formlegum hætti, frá hæstv. umhvrh. niðurstöður þeirra Gallupkannana sem Veðurstofan hefur látið fara fram til þess að glöggva sig á þeim skilningi sem menn hafa á þeim veðurtilkynningum og öðru því sem Veðurstofan reynir að koma til skila í gegnum ljósvakafjölmiðla.

Ég hef lesið eftir hæstv. umhvrh. að hún hefur trú á því að ekki sé langt í að þjóðin og börnin munu skilja nákvæmlega af sjálfu sér hvað 10 metrar á sekúndu eru, þ.e. sama fólk og ekki skilur gola eða stinningskaldi. En þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað skyldu margir geta staðgreint nákvæmlega hvar Skarðsfjöruviti er? Það væri fróðlegt að fá um það að vita. Ýmsir mundu hvá: ,,Ha, Skarðsfjöruviti?`` Ætli þeir viti t.d. að sá bær, Skarð, er ekki lengur til?