Flutningur eldfimra efna um Hvalfjarðargöng

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 15:02:27 (7451)

2000-05-10 15:02:27# 125. lþ. 114.15 fundur 507. mál: #A flutningur eldfimra efna um Hvalfjarðargöng# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson):

Herra forseti. Nú eru liðnir tæpir 22 mánuðir síðan Hvalfjarðargöngin voru tekin í notkun. Almenn ánægja er með göngin og óhætt er að segja að einstaklega vel hafi tekist til með þessa miklu framkvæmd. Þeir einkaaðilar sem árum saman börðust fyrir því að ráðist yrði í þessa framkvæmd eiga heiður skilinn. Án þrautseigju þeirra væru engin Hvalfjarðargöng í dag.

Umferð um göngin er miklu meiri en bjartsýnustu áætlanir gerðu ráð fyrir sem hefur leitt til stórlækkunar á gjaldtöku. Í svari hæstv. samgrh. við fyrirspurn minni sem dreift var á Alþingi í síðasta mánuði kemur fram að árið 1997 fóru 747 þúsund bílar fyrir Hvalfjörð og með Akraborginni. Árið 1999 fóru 94 þúsund bílar fyrir fjörð og ein milljón 31 þúsund bílar um göngin eða 1.127 þúsund bílar alls. Umferðaraukningin varð því 51% á þessum tveimur árum.

Umferð um göngin er eðlilega misjöfn eftir mánuðum eða frá 50 þús. og upp í 145 þús. bíla á mánuði. Þessar tölur sýna okkur að vegfarendur hafa tekið göngunum vel og sem betur fer hafa ekki orðið alvarleg slys í umferðinni um göngin þó að reyndar hafi orðið að loka göngunum tvisvar á undanförnum vikum vegna umferðaróhappa.

Þá kem ég að tilefni fyrirspurnarinnar. Margir hafa áhyggjur af því að eldsvoði í göngunum gæti orðið erfiður viðfangs og horfa þá til þeirra alvarlegu slysa sem orðið hafa af völdum elds í jarðgöngum erlendis ekki alls fyrir löngu. Auðvitað segja flutningsaðilar eldfimra efna jafnan að þeir séu með fullkominn öryggisbúnað og engin hætta sé á ferðum. Aldrei er þó of varlega farið og augljóslega yrði erfitt að snúa við stórum bensínflutningabíl í göngunum ef hann kæmi t.d. að bíl sem hefði kviknað í.

Þá finnst mér flutningur á própangasi um göngin glannalegur svo ekki sé meira sagt. Það kom fram í sjónvarpsfréttum nýlega að árlega eru flutt 180 tonn af própangasi frá Straumsvík til Grundartanga um Hvalfjarðargöng. Farið er vikulega og talsmaður gasfélagsins sagði í þessum fréttatíma að farið væri á morgnana og þeir væru búnir með báðar ferðir fyrir hádegi eins og hann orðaði það.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég hrökk við þegar ég heyrði þessar fréttir. Á morgnana er mikil umferð um göngin og fjöldi manns sem fer daglega á milli til vinnu eða í skóla og það er skoðun mín að ekki eigi að leyfa gas- og bensínflutninga um göngin á þessum tíma sólarhrings. Reyndar finnst mér að það ætti ekki að leyfa þessa flutninga nema loka göngunum fyrir annarri umferð sem trúlega yrði seint samkomulag um. Því spyr ég hæstv. samgrh.:

1. Eru í gildi reglur um flutning á bensíni, gasi og öðrum eldfimum efnum um Hvalfjarðargöng?

2. Telur ráðherra koma til álita að banna flutning eldfimra efna um göngin?