Skattaleg staða einstaklingsreksturs

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 15:51:56 (7469)

2000-05-10 15:51:56# 125. lþ. 114.22 fundur 617. mál: #A skattaleg staða einstaklingsreksturs# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:51]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir afar greinargóð og skýr svör. Ég fagna sérstaklega þeirri yfirlýsingu hans að hann hafi ríkan vilja til að taka á þessu álitamáli. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að þetta er auðvitað álitamál og flókið viðfangsefni eins og skattamál eru alltaf í eðli sínu. Það er þýðingarmikið að þær breytingar sem við beitum okkur fyrir og náum vonandi í gegn verði ekki til að opna glufur fyrir óeðlileg undanskot í skattkerfinu.

Hér er hins vegar um að ræða mikið réttlætismál eins og fram kom í máli hæstv. fjmrh., þ.e. að auðvelda mönnum að breyta um rekstrarform án þess að um eignabreytingu sé að ræða. Við vitum að hlutafélagaformið hefur marga kosti í rekstrarlegu umhverfi. Eins og ég hef áður sagt kunna að hafa verið eðlilegar ástæður fyrir því í upphafi að menn kusu aðrar leiðir heldur en að hafa rekstur sinn í hlutafélagi. Þess vegna er í raun óeðlilegt að þeir eigi ekki möguleika á að breyta um rekstrarform þegar ekki er um eignabreytingu að ræða, án þess að það kosti stórfé í miklum sköttum til ríkissjóðs sem ég út af fyrir sig skil að hæstv. fjmrh. hefði áhuga á. En ég veit að vilji hæstv. fjmrh. stendur til að leysa þetta mál. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur komið því þannig fyrir að verið sé að skoða það af hálfu þeirrar ráðgjafarnefndar sem unnið hefur að undirbúningi breytinga á skattalöggjöfinni.