Afgreiðsla vegáætlunar

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 10:44:50 (7493)

2000-05-11 10:44:50# 125. lþ. 116.92 fundur 527#B afgreiðsla vegáætlunar# (aths. um störf þingsins), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[10:44]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég kem hér upp til að mótmæla harðlega þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð. Það gekk nógu erfiðlega að vinna að undirbúningi vegáætlunar af ýmsum ástæðum. Mikil tregða var í þeirri vinnu framan af og því mikil fljótaskrift og spenna meðal þingmannanna að vinna að samkomulagi um skiptingu vegafjár sem hefðbundið er að þingmenn vinni. Þegar þessari vinnu er lokið á síðustu stundu og sátt hefur náðst þá koma hér fram mjög miklar breytingar á vegáætluninni.

Ég fagna því fjármagni sem kemur inn í vegáætlun. Það má ekki skilja mig svo að ég fagni ekki auknu fé til vegagerðar. En ég gagnrýni harðlega þessi vinnubrögð. Ef við þingmenn Austurl. hefðum haft þetta fé til umráða þegar við lágum yfir vegáætlun fyrir Austurl. þá er ég ansi hrædd um að við hefðum gert tillögu um aðra áætlun en þá sem við samþykktum. Ég hefði t.d. viljað sjá áætlun um að ganga frá úrbótum í Almannaskarði og að vegatengingin norður í land hefði verið innan þeirrar áætlunar. Þess vegna mótmæli ég því harðlega að við þingmenn höfum ekki komið að skiptingu viðbótarfjármagns.

Ég mótmæli líka harðlega þeim hrossakaupum á milli kjördæma sem hér eru í gangi auk þess á að fjármagna hluta framkvæmdanna með sölu ríkisfyrirtækja og auðvitað viljum við sjá hvað eigi að selja.