Afgreiðsla vegáætlunar

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 10:47:00 (7494)

2000-05-11 10:47:00# 125. lþ. 116.92 fundur 527#B afgreiðsla vegáætlunar# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[10:47]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég tók sérstaklega fram að ég mundi ekki koma hér og ræða efnislega um þessa tillögu. En út af orðum hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur, þingflokksformanns Sjálfstfl., vil ég taka sérstaklega fram að okkar kjördæmi, af því að við eigum báðar sæti á Alþingi fyrir Reykjaneskjördæmi, sér um allar akstursleiðir til og frá höfuðborginni og ber hitann og þungann af erfiðu vegakerfi þar sem verða mikil slys og alvarleg. Við höfum mjög mikið rætt málin í þessu kjördæmi og þess vegna liggur forgangsröðunin þar alveg ljós fyrir. Þegar peningar koma er alveg ljóst hver forgangsröðunin er í því kjördæmi. Ég vil sérstaklega taka þetta fram út af orðum þingmannsins.

En, herra forseti, að halda því fram að meiri hlutinn hér á Alþingi eigi að ráða vinnubrögðum og öllu öðru fyrir utan það að leiða mál til lykta í atkvæðagreiðslu er eins og blautur klútur í andlitið á okkur sem höfum verið að reyna að hafa samvinnu um þingstörfin. Við þingflokksformenn í stjórnarandstöðu buðum t.d. góða samvinnu um lok þessa þings, næturfund sl. nótt, kvöld- og næturfund til að ljúka ákveðnum málum. Við buðum hér samvinnu um þingstörfin skilyrðislaust. Á þá útréttu hönd er slegið og nú skil ég það ósköp vel. Þannig er að hér er meiri hluti og meiri hlutinn lítur svo á að hans sé lýðræðið, ekki bara með því að leiða mál til lykta í atkvæðagreiðslu heldur megi hann stunda þau geðþóttavinnubrögð sem hann telur góð og gild. Það eru þessi geðþóttavinnubrögð sem við erum að gagnrýna núna, herra forseti.