Lyfjalög og almannatryggingar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 10:48:33 (7535)

2000-05-12 10:48:33# 125. lþ. 117.3 fundur 401. mál: #A lyfjalög og almannatryggingar# (Lyfjamálastofnun o.fl.) frv. 108/2000, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[10:48]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ekki unnt að líkja þessu saman við stofnanir á Akureyri vegna þess að sá staður sem ég hef heyrt nefndan að menn séu að hugsa um að flytja Lyfjamálastofnun til sé Búðardalur þannig að þar eru kannski ekki mjög margir hámenntaðir ... (Gripið fram í: Slúður.) Það getur vel verið að það sé slúður og ég ætla bara að vona að það sé slúður að menn íhugi að flytja stofnunina í Búðardal.

Herra forseti. Ég var í máli mínu áðan að tala um að ég teldi að þessi stofnun ætti ekki að fara út á land. Ég, Reykjavíkurþingmaðurinn, ber hag kjördæmis míns fyrir brjósti og þeirra manna sem starfa á þessari nýju Lyfjamálastofnun sem verður til nú þegar þessi lög verða sett. Ég tel það vera henni fyrir bestu að hún verði hér vegna þeirra aðstæðna sem þeir sem starfa við þá stofnun búa við.

Við skulum líka muna að margir af þeim sérfræðingum sem starfa þarna eru einnig í öðrum störfum og eru í hjónabandi með fólki sem er að störfum á höfuðborgarsvæðinu og það væri meiri háttar rask að flytja þessa stofnun út á land. Það er bjargföst skoðun mín.