Lyfjalög og almannatryggingar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 11:04:41 (7541)

2000-05-12 11:04:41# 125. lþ. 117.3 fundur 401. mál: #A lyfjalög og almannatryggingar# (Lyfjamálastofnun o.fl.) frv. 108/2000, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[11:04]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segist sammála því að það eigi að flytja verkefni út á land en er ósammála því að flytja þau verkefni sem um er talað eða þær stofnanir. Auðvitað verður þingmaðurinn einhvern tíma að standa við skoðun sína. Það dugir ekki að vera alltaf á móti því sem er lagt til. Það kom greinilega fram hjá þingmanninum að hún var á móti því að flytja Landmælingar. Það kom líka fram hjá þingmanninum að hún væri á móti því að flytja þessa nýju stofnun. En svo segir hún almennum orðum að hún sé fylgjandi málinu. (ÁRJ: Hvert?) Það er það sem skilur á milli manna hvað þeir meina í raun og þeir sem meina það sem þeir segja láta verkin tala.

Landmælingar Íslands eru einmitt dæmi um að menn létu verkin tala og þrátt fyrir mikla andstöðu, m.a. frá hv. þm. og fleirum, og það skiptir máli og það heppnaðist vel. Með samgöngubótum og nýjum störfum hefur staða Akraness gerbreyst á síðustu árum frá því að vera staður þar sem var fólksfækkun, þar sem íbúðarverð var mjög lágt og fátt um atvinnutækifæri og mikið atvinnuleysi. Í dag er þetta staður í miklum uppgangi vegna þess að menn fluttu opinbera stofnun á staðinn, menn byggðu stóriðju í Hvalfirði og menn gripu til samgöngubóta. Hv. þm. er algerlega á móti þessu öllu nema hugsanlega Hvalfjarðargöngunum. Hvernig mundi staðan vera á Akranesi ef farið yrði eftir skoðunum hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur sem er á móti því sem til framfara horfir og til bóta getur verið fyrir landsbyggðina?