Sjúklingatrygging

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 11:36:17 (7550)

2000-05-12 11:36:17# 125. lþ. 117.4 fundur 535. mál: #A sjúklingatrygging# frv. 111/2000, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[11:36]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil taka til máls og fá að lýsa fullum stuðningi við frv. til laga um sjúklingatryggingu sem við erum að fjalla um, enda skrifaði ég undir án nokkurs fyrirvara. Ég vil einnig lýsa stuðningi við frumkvæði Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að þessu máli og fyrir að hafa í raun og veru rutt brautina fyrir þessari lagasmíð.

Við frv. eru nokkrar brtt. Að mínu mati eru þær allar til bóta og því ber að fagna að við séum að fá heildstæða löggjöf um sjúklingatryggingu. Það er mikil þörf á að hafa skýra löggjöf í þessu efni og auka réttindi sjúklinga, bæði þeirra sem eru í meðferð á hinum mismunandi heilbrigðisstofnunum og þeirra sem koma til rannsókna. Það er verið að auka og bæta þau réttindi sem eru í löggjöfinni í dag.

Ég vil lýsa fullum stuðningi við frv. og tek undir ábendingar hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur um að rétt sé að skoða þennan þátt vel þannig að þarna falli ekkert milli stafs og hurðar og að alveg ljóst sé hver beri ábyrgðina varðandi lyf.