Mat á umhverfisáhrifum

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 16:09:31 (7593)

2000-05-12 16:09:31# 125. lþ. 117.12 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[16:09]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted ákaflega greinargóða ræðu. Það var virkilegur fengur að þeim kafla ræðunnar sem fjallaði um endanlegt leyfi til framkvæmda. Þetta er eitt af þeim atriðum sem kom til mikillar umræðu í nefndinni og það var virkilega gott að hv. þm. skyldi halda því til haga á þann hátt sem hún gerði í ræðunni.

En það sem mig langaði til að gera athugasemd við er skoðun hv. þm. á því að það sé í lagi að hafa tíu ára svigrúm til þess að hefja framkvæmdir út á fengin leyfi vegna þess að í lögunum sé bráðabirgðaákvæði um að endurskoða lögin innan tveggja og hálfs árs. Í því sambandi langar mig til að minna hv. þm. á að í núgildandi lögum er bráðabirgðaákvæði nr. I sem kveður á um að þau lög sem við nú búum við skuli endurskoðuð jafnframt því sem fram fari endurskoðun skipulags- og byggingarlaga.

Skipulags- og byggingarlög voru samþykkt héðan frá Alþingi í maí 1997. Það þýðir að við erum nú búin að búa við lög um mat á umhverfisáhrifum þremur árum lengur en löggjafinn ætlaðist til þegar hann samþykkti þau. Og, herra forseti, ég sé ekki að við höfum nokkra tryggingu fyrir því að svo geti ekki farið aftur. Ég er því ósátt við að hv. þm. skuli ekki fylgja minni hlutanum í þessum brtt. um fimm árin þannig að svigrúm til framkvæmda eftir að leyfi er fengið skuli minnkað a.m.k. niður í fimm ár.

Að lokum hef ég líka ákveðnar efasemdir um þá fullyrðingu hv. þm. að ferli það sem hér er lýst verði skilvirkara þegar um stórframkvæmdir er að ræða því að við vitum að stórframkvæmdir hafa iðulega verið dæmdar í ítarlegra mat á grundvelli ónógra upplýsinga eða ónógra rannsókna. Það sama gildir ekki um smærri framkvæmdir. Ég er því sátt við að það sé skilvirkara gagnvart smærri framkvæmdum en óttast að svo verði ekki gagnvart þeim stærri.