Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 18:15:22 (7637)

2000-05-12 18:15:22# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Frsm. minni hluta KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[18:15]

Frsm. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi nú varla mínum eigin eyrum, herra forseti. Nei, ég veit að þeir aldraðir sem þjást af Alzheimer-sjúkdómnum hér á Íslandi eru ekki með þann sjúkdóm vegna þess að þeir hafi stundað svo rosalega mikið af áhugamannahnefaleikum og ég þakka guði fyrir það.

En, herra forseti, vísbendingar eru um það í vísindalegum rannsóknum og athugunum sem tengja saman Alzheimer, Parkinson og höfuðáverka hvers konar, ekki einungis fengna í hnefaleikum heldur líka í knattspyrnu eða á annan hátt. Og vísbendingarnar eru óyggjandi um uppsafnaðan skaða. Sá sem hlýtur einu sinni þungt höfuðhögg, hann hlýtur ekki af því jafnmikinn skaða og hinn sem hlýtur þrjátíu sinnum þungt höfuðhögg eða hundrað sinnum, herra forseti, eða þúsund sinnum sem hnefaleikarar geta auðveldlega á sínum ferli hlotið. Uppsafnaður skaði af völdum þungra högga á höfuð er því staðreynd, ekki ágiskun og ekki mín fullyrðing.

Svo segi ég um austurlensku íþróttirnar að þær má örugglega rekja aftur til ársins 3000 fyrir Krist eða kannski 5000 í nánast þeirri mynd sem þær virðast vera stundaðar í dag eftir því sem sagan segir, án þess ég sé sérfræðingur í þeim íþróttum. Ég er ekkert að draga úr því að auðvitað er fyrirmynd hnefaleikanna eldgömul, en ekki í því formi sem hún er stunduð í dag. Það þori ég að fullyrða.