Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 17:37:18 (7781)

2000-05-13 17:37:18# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[17:37]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vegna andsvars hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar vekja athygli á að þær 35 millj. sem koma inn á svokölluð jaðarsvæði á árunum 2002, 2003 og 2004 eru mikilvæg viðbót til þess að geta hert á framkvæmdum við tilteknar leiðir á þessum svæðum og ætti þá og þar með að auðvelda á ná meiri áföngum en okkur hefur tekist hingað til. Það léttir því á, og ég vil undirstrika það, það léttir á þessum svæðum.

Engu að síður er alveg ljóst að þarna er um langar leiðir, kostnaðarsama vegagerð og mikla fjármuni að ræða. Það er því nauðsynlegt að huga sérstaklega að þessu. Við höfum hins vegar við þá tillögugerð sem samgn. hefur unnið náð tilteknu samkomulagi sem m.a. hefur haft áhrif á þessar tillögur, að við gerum ráð fyrir mjög miklum útgjöldum til jarðganga í tveimur landshlutum. Það hefur jafnan verið svo að ekki er hægt að skipta sömu fjármununm margsinnis, en ég er engu að síður tilbúinn til að líta á það sem ég sagði í yfirlýsingu minni áðan og leggjast á árar um að ná meiri og stærri áföngum í þeim landshlutum sem ég nefndi.