Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 14:20:10 (102)

1999-10-06 14:20:10# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[14:20]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Við erum ekki óvön því í þessum þingsal og ekki þjóðin heldur að Sjálfstfl. gleymir alltaf ákveðnum þjóðfélagshópi, þ.e. láglaunafólkinu. Hv. þm. Pétur Blöndal gleymir því að til er stór hópur í þjóðfélaginu sem á bara skuldir en engar eignir. Og þegar íbúðaverð og vísitala hækkar þá hækka ekki eignir hjá þeim sem engar eignir eiga en þeir geta haft skuldir sem hækka gífurlega mikið, og það er fátækasta fólkið. Þessu gleymir Sjálfstfl. alltaf, að til er fátækt fólk í þjóðfélaginu sem vísitöluhækkanir bitna mjög illa á, bæði þegar framfærslukostnaður hækkar og þegar þetta hefur síðan áhrif á skuldir heimilanna.

Og hv. þm. finnst ekkert að því --- ég heyrði það líka á síðasta þingi --- þó að fasteignaverð hafi rokið hér upp um 20%, og hann segir: Ja, þá hækka bara eignir fólks. En hv. þm. gleymir því að það er líka til ungt fólk sem er að kaupa íbúðir núna í fyrsta skipti sem þarf að borga 1--2 millj. meira fyrir litla tveggja til þriggja herbergja íbúð en þurfti t.d. um síðustu áramót vegna þeirrar húsnæðisstefnu sem þessi ríkisstjórn rekur. Og það er eins og hv. þm. geti ekki hugsað út fyrir það fólk sem á einhverjar eignir og peninga í þjóðfélaginu.