Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 14:28:17 (109)

1999-10-06 14:28:17# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[14:28]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Til umræðu er frv. til laga um breytingu á vörugjaldinu. Frv. fjallar um tvennt. Í fyrsta lagi að lækka vörugjaldið, sem nú er um 13,20 kr. niður í 10,50 kr., en það sem skiptir meira máli er að álagningarmátanum er breytt. Í stað þess að vörugjald sé hlutfallstala, hlutfall af innkaupsverði, 97% af tollverði, þá er lagt til að vörugjaldið verði föst upphæð.

Hér er um að ræða mikla peninga. Eins og fram kom í máli hæstv. fjmrh. er 1 króna í bensínverðinu um 200 millj. kr. Tíeyringurinn er 20 millj. kr. Og það er vissulga sjaldgæft að heyra fjmrh. einnar ríkisstjórnar óska eftir því við þingið að það afgreiði frv. af þessu tagi hið allra snarasta ellegar renni of miklir peningar í ríkissjóð.

[14:30]

Reyndar fannst mér undarlegt þegar hæstv. fjmrh. komst svo að orði að hætta væri á því að ríkið græddi en almenningur tapaði. Það er rétt að í höndum þessarar ríkisstjórnar hefur því verið þannig háttað allt of oft. Þær skattbreytingar sem gerðar hafa verið og ráðstöfun fjármuna hefur allt of oft verið í þágu eignafólksins og á kostnað almennings, láglaunafólks og millitekjuhópa.

Hæstv. fjmrh. velti vöngum yfir skattlagningu á bensín yfirleitt og vakti máls á því að stundum hefði verið talað um þetta sem æskilegan umhverfisskatt. Ég tek undir þær vangaveltur hans og finnst eðlilegt að skoða málin í því ljósi. Hins vegar er það svo að fólk þarf að komast leiðar sinnar og þar er fólk háð bifreiðum. Að sjálfsögðu þarf fólk að hafa kaupgetu og möguleika á því að nýta sér bílinn.

Nú er ljóst að með þessari lagabreytingu, ef hún nær fram að ganga, mun ríkissjóður verða af miklum upphæðum, á milli 400 og 500 millj. kr. á ári hverju. Þessar upphæðir eru svo háar að þær geta skipt miklu máli. Ef við verðum upphæðum af þessari og reyndar hærri stærðargráðu til almenningssamgangna, til þess að skapa fólki möguleika á því að nýta sér aðra farkosti en einkabíllinn, þá væru menn farnir að ræða þessi mál í sama anda og við innan Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Við tökum undir það sem hér var sagt og kom fram hjá hæstv. fjmrh. að eðlilegt sé að skoða málin í því ljósi. En það þarf að gæta samræmis, það þarf að skoða málin heildstætt. Þess vegna leggjum við áherslu á að þessi skattlagning á bensíni verði skoðuð með hliðsjón af almenningssamgöngum og hvernig skapa megi aðra valkosti fyrir fólk til að komast leiðar sinnar. Á þetta vildi ég leggja áherslu í upphafi.

Bensínverðið og breytingar á bensínverði hafa verið mjög til umræðu á síðustu mánuðum enda hefur bensín hækkað verulega á þessu ári. Yfir 25% hækkun hefur orðið á bensíni á þessu ári. Að sjálfsögðu hefur þetta rýrt kaupmátt launafólks en þetta hefur líka hækkað vísitölu alla og þar með lánin í landinu. Ég hef bent á það við annað tækifæri að bensínhækkunin ein á þessu ári hefur hækkað skuldabyrði heimilanna í landinu um 4,3 milljarða kr. Þetta er samhengi hlutanna.

Í þeirri gagnrýni sem fram hefur komið úr ýmsum áttum, frá bifreiðaeigendum og Samtökum launafólks, þá hafa mismunandi tónar verið slegnir. Verkalýðssamtökin, ASÍ og BSRB hafa lagt áherslu á hagnað olíufélaganna. Komið hefur fram að hann hefur aukist verulega á þessu tímabili, um tugi prósenta. Hagnaður Olíufélagsins hf. nam 234 millj. kr. á fyrri hluta ársins og hafði þá aukist um 45% frá fyrra ári. Hagnaður Olíuverslunar Íslands hf. nam 163 millj. kr. og hafði aukist um 31%. Hagnaður Skeljungs hf. var 211 millj. kr. og jókst um 107% miðað við sama tíma í fyrra. Samtals högnuðust olíufélögin um 608 millj. kr. á fyrra hluta ársins eða um 100 millj. á mánuði að jafnaði. Það er í þessa átt sem ég beini ekki síst mínum sjónum. Fyrr geri ég það en ég horfi á það sem rennur í ríkissjóð, að ekki sé um það talað ef þessir fjármunir eru látnir renna til góðra málefna.

Hins vegar er það svo, ég legg áherslu á það, að öll þessi mál þarf að skoða í samhengi. Það þarf að skoða aðstöðu fólks til þess að komast leiðar sinnar. Fólk býr við mjög mismunandi aðstöðu. Sumir þurfa að reiða sig meira á bílinn en aðrir. Það er vissulega svo á höfuðborgarsvæðinu að margir eiga um langan veg að fara til vinnu sinnar. En fyrst og fremst á þetta náttúrlega við um þá sem þurfa að reiða sig mjög á bílinn á landsbyggðinni. Þar skiptir miklu máli hvern kostnað fólk þarf að bera.

Það má ræða um það og deila hvar eigi að nema staðar, í hvaða krónutölu eigi að staðnæmast. Hæstv. fjmrh. bendir á að sú tala sem hér er lögð til grundvallar í frv., 10,50 kr., sé meðaltalsverð ef litið er til fimm ára. Það kann að vera rétt en á þessu stigi tek ég ekki afstöðu til upphæðarinnar sem slíkrar. Ég lýsi mig hins vegar samþykkan grundvallarhugsun frv., að binda þessa tölu í fasta upphæð. Eðlilegt væri reyndar að íhuga hvort ekki komi til álita að setja inn í lögin einhvers konar endurskoðunarákvæði, að skoða þessa upphæð með reglulegu millibili hvort sem það er árlega eða á lengra tímabili. Á heildina litið finnst mér þetta frv. og þessar lagabreytingar til góðs en segi það með þeim fyrirvara að að sjálfsögðu þurfi að skoða þær upphæðir sem hér eru lagðar til grundvallar.