Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 14:51:09 (112)

1999-10-06 14:51:09# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka þátt í þessum umræðum en vegna þess að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði umhverfisstefnu Samfylkingarinnar að umræðuefni í ræðu sinni taldi ég nú rétt að koma og drepa aðeins á það. Ég spyr, herra forseti, er hv. þm. í húsi? Ef hann er ekki í húsi er þá hægt að færa hann til húss?

(Forseti (GuðjG): Hv. þm. er í húsinu.)

Ég fagna þessu frv. og þó að ég taki undir þau viðvörunarorð sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur fært hér þá er alveg ljóst að ríkisstjórnin er á réttri leið í þessum málum. Hún hefur hlustað á það sem stjórnarandstaðan sagði á sumarþinginu. Á sumarþinginu fluttum við einmitt frv. sem gekk í sömu veru. Það er eins með viðvörunarorð okkar í þeim efnum og varðandi hagstjórnina að nú loksins er hv. ríkisstjórn farin að hlusta.

Ég minnist þess hins vegar að hæstv. fjmrh. lagðist gegn hugmyndum okkar á sumarþinginu og færði til þess ýmis rök sem hann hefur reyndar líka fært hér. En hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem er formaður efh.- og viðskn., og ætti auðvitað að vera í salnum, hafði háðuleg orð um þær hugmyndir sem við höfðum uppi þá. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., sem á að fjalla um þetta mál, lét svo um mælt í fjölmiðlum að það væri mjög heimskulegt að fara þá leið sem hæstv. ráðherra hefur nú farið.

Þess vegna væri líka æskilegt, vegna þess að ég veit til þess að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson á að vera á fundi í húsinu eftir fimm mínútur, að fá þann ágæta þingmann fluttan hingað í salinn og láta hann upplýsa þingheim um það hvort hann telur enn þá að sú leið sem hæstv. ráðherra er nú að fara sé jafnheimskuleg að hans viti og hún var í sumar.

Nú er hv. þm. Vilhjálmur Egilsson kominn í heyrnarfæri og því er rétt að ég endurtaki þá ósk til hv. þm. að hann upplýsi þingheim um það hvort sú leið sem hann kallaði heimskulega í fjölmiðlum varðandi það gjald sem við erum að ræða hér, sem hæstv. fjmrh. stígur nú fram fyrir skjöldu og leggur til --- er það að mati hv. form. efh.- og viðskn. heimskuleg aðferð? Mér þætti gaman að fá það upplýst en tek það fram að ef hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur ekki skipt um skoðun og telur að hæstv. ráðherra sé að fremja heimskulegan gjörning þá er ég honum algjörlega ósammála.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur séð að sér og hann hefur skyndilega séð að það er rétt sem við sögðum í vor. En hvað var það sem olli því að hæstv. ráðherra sá ekki ljósið í vor? Hann hefur skýrt það fyrir okkur í þessum umræðum. Hann sagði: Það gat ekki nokkur maður séð það fyrir að bensín mundi aftur hækka á heimsmarkaðsverði. Eigi að síður hefur hæstv. ráðherra lýst tölum í ræðu sinni sem bentu til þess að verðlagið núna sé meðalverð síðustu tíu ára. Út af fyrir sig hefði það getað bent til þess að líklegt væri að lækkunin sem hafði orðið í vor mundi snúa til baka.

En það var auðvitað annað sem hæstv. ráðherra hefði getað fengið upplýsingar um hjá sérfræðingum sínum. Það var einmitt í sumar og vor sem menn urðu fyrst varir við þær tilhneigingar hjá endurnýjuðu OPEC, sem hafa í dag leitt til þessarar hækkunar og munu e.t.v. leiða til enn frekari hækkunar. Það var einmitt í vor sem forseti Venesúela, sem er meðal mikilvægra olíuframleiðslulanda, gerði gangskör að því að endurvirkja OPEC og hefja til fyrri vegs og virðingar og kallaði m.a. til fundar með mönnum eins og Gaddafí, forseta olíulandsins Líbíu og mönnum eins og Saddam Hussein, forseta olíuframleiðslulandsins Íraks. Þessir þrír hafa myndað öxul innan OPEC sem stefnir að því leynt og ljóst að að draga úr framleiðslu, sér í lagi hjá Líbíu og Venesúela. Það hefur þegar komið til framkvæmda hjá Venesúela. Miðað er að því að draga úr framleiðslu til þess að hækka verð á mörkuðum.

Eitt af því sem veldur þeirri þróun sem við erum að sjá í dag er einmitt þetta. Þetta hefði hæstv. fjmrh. getað fengið upplýst hjá sérfræðingum sínum, sem hann hefur sæg af, í vor. Þess vegna hefði þetta ekki átt að koma honum á óvart. Þess vegna gildir ekki sú afsökun sem hæstv. fjmrh. færir hér fyrir. Hann átti að vita betur.

En það er eins með þetta mál og viðskiptahallanna, sem hann átti líka að vita betur um, að hann er sá sem allt veit best og hann hlustar ekki á aðra og allra síst stjórnarandstöðuna.

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða frekar þetta frv. Ég tel að það sé á réttri leið. En hæstv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom hérna --- hv. þm., herra forseti, ég bið afsökunar á því að mér varð þarna fótaskortur á tungunni. Ég tel það svo dagljóst að hv. þm. verði ráðherra innan skamms þó ég viti ekki hverjum hann ryðji að ég kalla hann hæstv. því í mínum augum er hann u.þ.b. hæstv. þingmaður.

En hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson (GÁS: Í hvaða flokki er hann?) hv. þm., ef ég má upplýsa varaformann Alþfl. um það þá er hv. þm. um þessar mundir í Framsfl. og er reyndar svona týpískur framsóknarmaður í mínum augum og hefur alltaf verið, fyrir utan það að hann á enn eftir að losa sig við farteski NATO. En í því kompaníi sem hann situr nú í þingsölum þá er ég viss um að sessunautur hans, hv. þm. Ögmundur Jónasson mun hjálpa honum til þess.

En burt séð frá því, herra forseti, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, réðst nokkuð óvægilega og af nokkru skilningsleysi að þeirri stefnu sem hann sagði að Samfylkingin hefði haft uppi varðandi skatt á útblástur og þar af leiðandi bensín bifreiða. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að Samfylkingin lagði það til fyrir kosningarnar í vor að sérstakur skattur yrði settur á útblástur og losun gróðurhúsalofttegunda. Hvers vegna var það nú? Ekki síst vegna þess að sú starfsemi hér á landi sem veldur mestu um losun gróðurhúsalofttegunda er stóriðjan. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er í flokki og styður stefnu flokks sem miðar að því að koma upp nýjum stóriðjuverum á Íslandi. Hann vill m.a. setja upp stóriðjuver á Austfjörðum, sem mjög er um deilt þessa dagana. Sem í fyrsta áfanga á að vera 120 þús. tonn en samkvæmt upplýsingum sem komu fram hjá aðstoðarmanni hæstv. iðn.- og viðskrh. á fundi á Egilsstöðum á síðasta vetri, hygg ég, ætti helst að vera 720 þúsund. Ef það nær því einhvern tíma að framleiða 400 þús. tonn leiðir það til þess að losun gróðurhúsalofttegunda mun tvöfaldast. Það mun leiða til margháttaðra búsifja fyrir Íslendinga. Það eitt út af fyrir sig mundi réttlæta það að á starfsemi af þessu tagi mundu menn líka freista þess að setja einhvers konar útblástursgjald, m.a. til þess að reyna að afla þar tekna til þess að geta bætt upp öðrum annars konar atvinnustarfsemi sem mun líða fyrir þetta. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson þarf nefnilega ekki að ganga að því gruflandi að okkur leyfist að spilla þannig umhverfi heimsins alls án þess að með einhverju móti muni það bitna á öðrum atvinnugreinum í landinu, m.a. vegna viðbragða umheimsins.

En þar fyrir utan, herra forseti, er það alls staðar í hinum vestræna heimi orðin stefna að taka með einhverjum hætti á hömlulausri losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju með því að setja á gjald af þessu tagi. Það er nákvæmlega það sem Samfylkingin lagði til og leggur til. Ekki nóg með það, herra forseti. Ég tel líka að það eigi að setja þetta gjald á bifreiðar.

[15:00]

Í dag er gjaldið sem tekið er af eldsneyti 97% vörugjald, það er bensíngjald upp á 23 kr., það er virðisaukaskattur og í fjórða lagi er skattur í dísilbifreiðar, sem eftir vali og umfangi dísilbifreiða getur verið breytilegur. Þetta er ferns konar skattur. Ég tel að tími sé kominn til að umbylta þessum skatti og straumlínulaga hann og taka upp einn sérstakan umhverfisskatt sem mundi þá taka mið af umhverfissjónarmiðum og tegund orkugjafans.

Herra forseti. Þetta er sem sagt mín skoðun. Ætlar þá hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson að koma upp og segja: Samfylkingin og þessi talsmaður hennar leggur til hækkun gjalda. Herra forseti, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er eins og fram hefur komið í flokki sem í dag heitir Framsfl. Sá flokkur hefur farið með umhvrn. síðustu árin. Það vill svo til, herra forseti, að hvergi hef ég séð þær hugmyndir sem ég aðhyllist í dag varðandi breytinguna á þessum eldsneytisgjöldum yfir í eitt útblástursgjald, CO2-gjald, betur útfærða en í skýrslu sem hægt er að finna á heimasíðu umhvrn. Þar er í ítarlegu máli fjallað um þá möguleika sem við höfum til að beita hagrænum stjórntækjum. Skýrslugjafar geta þess að við gerð þessarar skýrslu hafi þeir ekki bara notið starfskrafta umhvrn. heldur einnig hæstv. fjmrh. sem hefur innan sinna veggja bestu sérfræðinga landsins í þessari tegund hagrænna stjórntækja. Þeir hjálpuðu til við að búa til þessa skýrslu, herra forseti. Þar kemur alveg skýrt fram að stefnan, samkvæmt sérfræðingum þessara tveggja ráðuneyta, er hin sama og Samfylkingin bar fram í síðustu kosningum. Það getur vel verið að hv. þm. og mögulega hæstv. ráðherra vilji slá einhverjar keilur og reyna að telja kjósendum trú um að Samfylkingin vilji hækka þau gjöld sem lögð eru á eldsneyti í dag. En það er rangt. Við teljum þvert á móti að ef þessi leið væri farin, þetta fjórþætta gjald fellt niður og í staðinn sett eitt gjald sem við gætum kallað CO2-skatt, koltvísýringsskatt, þá mundi það leiða til orkusparnaðar. Þegar upp væri staðið mundi það ekki bara leiða til minni útblásturs heldur líka minni heildargjalda og vissulega að því leyti til nettótaps ríkissjóðs að líkindum.

Þetta er stefna sem tekur einfaldlega, herra forseti, mið af þeirri þróun sem er að gerast í kringum okkur. Við getum deilt um það hvort Ísland eigi að verða aðili að Kyoto-bókuninni eða ekki en við getum ekki deilt um að við þurfum að leita leiða til þess að draga úr losun útblásturs. Við blasir að Íslendingar fengu betri niðurstöðu út úr Kyoto-viðræðunum en nokkur önnur þjóð. Þeir máttu auka útblástur sinn miðað við árið 1990 um 10%. Enginn annar komst nálægt því. Það getur vel verið að það sé ekki nóg og kann vel að vera að við höfum rök sem að dómi meiri hlutans réttlæti betri niðurstöðu en þetta. Það breytir ekki því að á okkur hvílir sú siðferðilega skylda að gera allt sem við getum til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hvað erum við að gera til þess? Það má segja að svolitlar breytingar sem hæstv. fjmrh. beitti sér fyrir við upphaf valdaskeiðsins á sl. vori hnígi í þessa átt en annað höfum við ekki orðið vör við.

Ég veit ekki til þess að neitt sérstakt sé að gerast, t.d. til að stemma stigu við mengun af völdum útblásturs bifreiða í dag. Þriðjungurinn af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi kemur frá samgöngum. Stór hluti helgast af því að við erum lítil þjóð í mjög stóru landi. Þriðjungurinn kemur frá skipum. Við erum lítil þjóð sem er háð sjávarútvegi og þess vegna mjög erfitt fyrir okkur að ganga harkalega fram þar nema að okkur takist að beita nýrri tækni eða einhvers konar hagrænum stjórntækjum til að draga úr þessu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að á allra næstu árum muni ný tækni gera mögulegt að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda af völdum samgöngutækja. Ég held að innan ekki mjög langs tíma muni breytingar á þeirri tækni sem núna er viðhöfð til að knýja skip líka leiða til hins sama fyrir flotann. En þangað til verðum við auðvitað að standa undir þeirri skyldu okkar að leita leiða til að draga úr losuninni.

Ég vek eftirtekt á því, herra forseti, að Íslendingar hafa áður beitt skattlagningu á eldsneyti til þess að draga verulega úr skaðlegri mengun. Í dag held ég að ekkert bensín sé selt sem er hlaðið blýi. Menn notuðu það áður um of og það var hægt að sýna fram á að það hefði óæskileg áhrif, m.a. á greindarþroska ungra barna. Ríkisstjórn Íslands gekk fram fyrir skjöldu og beitti skattlagningu til þess að útrýma þeirri tegund eldsneytis þannig að þetta er hægt.

Ég verð því að segja, herra forseti, að það kemur úr allra hörðustu átt þegar ágætur talsmaður Framsfl. kemur hingað til að reyna að slá einhverjar ódýrar keilur með því að fleygja flími að Samfylkingunni fyrir að hafa sett fram stefnu sem er í raun ekki annað en vel útfærð útgáfa af hugmyndum sem voru með mjög elegant hætti settar fram af hálfu Framsfl. eða manna sem unnu fyrir hann í umhvrn. Ég hvet hæstv. fjmrh. og hv. þm. Kristin H. Gunnarsson til þess að lesa þá skýrslu sem er að finna á heimasíðu umhvrn. og heitir Hagkvæm umhverfisvernd. Þar er langur kafli um þetta. Þar er einmitt, á bls. 37--42, að finna hugmyndir framsóknarmanna um útfærslu CO2-orkuskatts sem er ekkert annað en afbrigði af þeim hugmyndum sem við höfum sett fram, talsmenn Samfylkingarinnar. Þar er gert ráð fyrir því að ef þessi CO2-skattur verði settur á þá muni heildarskatturinn ekki aukast en með tíð og tíma minnka vegna þess að orkusparnaður aukist og útblástur mengandi efna frá þessari tegund eldsneytis dragist saman. Þar kemur einmitt fram --- kannski ekki með sömu útfærslu og við höfum lagt til en ekki hægt að skilja þessa skýrslu öðruvísi --- að í staðinn fyrir 97% gjaldið og önnur gjöld á eldsneyti komi sérstakur CO2-orkuskattur, koltvísýringsskattur. Það er sérstaklega bent á í þessari skýrslu að fjöldi þjóða sé að breyta kerfi sínu í þessa veru og óhjákvæmilegt sé annað en að Íslendingar geri það líka. Ef það er niðurstaða framsóknarmannsins sem stýrir umhvrn. að stefna Samfylkingarinnar í þessum efnum sé rétt, þá spyr ég hv. þm. Kristin H. Gunnarsson hvort hann sé ósammála þeim framsóknarmanni, hvort hann sé þar af leiðandi á móti þeirri framtíð sem t.d. hæstv. ráðherra Siv Friðleifsdóttir vill sjá eða vill hann endalaust vera fastur í fortíðinni. Gerir hv. þm. sér ekki grein fyrir því að tímarnir breytast? Hann sjálfur hefur breyst æðimikið en hann má til með að leyfa sér þann munað að breytast örlítið betur.