Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 15:08:16 (113)

1999-10-06 15:08:16# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[15:08]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Allaf er jafngaman að hlýða á hv. þm. Össur Skarphéðinsson ræða málin af alkunnu lítillæti og hógværð. Ég vil þakka honum fyrir að staðfesta það sem ég taldi um stefnu Samfylkingarinnar gagnvart umhverfisgjöldum. Það var stefnan að auka skattheimtu í þeim tilgangi að draga úr losun á koltvísýringi, draga úr mengun með því að breyta gjaldtöku. Það verður ekki gert nema að hækka skatta. Það skiptir engu máli þó að menn skipti um nafn á einhverju gjaldi sem fyrir er, auki menn ekki skattinn þá minnkar ekki notkunin samkvæmt kenningunni. Kenningin er sú að til þess að minnka framleiðslu á koltvísýringi þá eigi að beita stýringu á verði, hækka verðið og minnka útblásturinn. Það er stefna sem út af fyrir sig er alveg sjálfsagt að ræða og velta fyrir sér hvort skili árangri.

Ég vek athygli á því að ég man ekki eftir að hafa séð nein gögn sem staðfesti að hækkun á bensínverði muni endilega draga úr notkun þess. Það er a.m.k. ekki reynslan á síðustu árum hér á landi að verðsveiflur á bensíni hafi sérstaklega dregið úr notkun á bensíni. Reynslan styður því ekki þessa kenningu, að hægt sé að beita skattlagningu til að ná þessu fram. En það sem ég vek athygli á er að Samfylkingin talaði hér í vor fyrir því að lækka bensínið. Samkvæmt kenningunni sem stendur á bak við umhverfisstefnu Samfylkingarinnar ætti það að auka losun á koltvísýringi. Það er engin önnur niðurstaða af þeirra eigin skoðunum. Og ég hlýt að spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson af hverju hann vill þá hvetja til að verð á bensíni sé lækkað.