Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 15:17:18 (117)

1999-10-06 15:17:18# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Fyrst um dagskrármálið. Ég tel að það sé að mörgu leyti ágætismál í ljósi stöðunnar eins og hún er núna og sem áfangi til að bregðast við aðstæðum sem hafa núna komið upp. Að mestu leyti gæti ég staðið að því að styðja það, eins og ég segi, sem bráðabirgðaráðstöfun. En ég kem betur að því seinna.

Mig langar til að bæta aðeins við þá umræðu sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var aðili að áðan þar sem hann var að reyna að snúa út úr stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum. Ég vil nefnilega fyllilega standa við þá stefnu og hún er sú að breyta skattlagningu á þann veg að hún hafi jákvæð áhrif á nýtingu umhverfisins. Auðvitað er það útúrsnúningur að slík stefna þýði endilega skattahækkun. Slík stefna gefur einfaldlega val á milli kosta og hefur þann tilgang að menn geti valið þann kost sem jákvæðari er fyrir umhverfið. Það hefur sárlega vantað í skattlagningu á orkugjöfum hjá okkur á Íslandi. Einhvers konar skattlagning af þessu tagi hefði þurft að komast á fyrir langa löngu til þess að hafa áhrif á hvernig við drögum fisk úr sjó. Það kostar mjög stóran hluta af arði okkar af fiskveiðum að borga olíu og það hefur engin jákvæð áhrif á hag þeirra sem stunda fiskveiðar þó að þeir noti lítið af olíu. Ekki er komið til móts við menn við að mynda þar jákvæða hvatningu. Slík hvatning þarf að vera til, bæði vegna umhverfisins og líka vegna umhverfisins sem fiskiskipin hafa áhrif á, t.d. með veiðarfærum. Þarna þarf að taka afstöðu og ef menn ætla sér að taka upp umhverfisskatta þá verða þeir að horfa á öll áhrifn sem verða, ekki bara útblásturinn, heldur líka hvernig við göngum um náttúruna á hverjum tíma. Fiskiskipaflotinn veldur u.þ.b. einum þriðja hluta þeirrar loftmengunar sem núna er við Ísland. Hún hefur aukist stórlega á undanförnum árum vegna þess að við höfum ekkert gert í málinu. Við höfum verið að flytja meiri og meiri fiskvinnslu út á sjó t.d. og framleiða rafmagn til þess að nýta um borð í nýju frystihúsunum okkar sem fljóta í kringum landið. Það hefur ekkert verið gert til þess að hafa áhrif á þetta.

Ég ætla ekki að endurtaka umræðuna sem var áðan um stefnu Samfylkingarinnar að öðru leyti en því að segja að nákvæmlega ekkert samhengi er á milli þess að hækka skatta og að hafa þau áhrif á sem ég var að lýsa hérna áðan. Það hlýtur alltaf að ráðast af því hvaða val einstaklingar eða fyrirtæki hafa til þess að nýta sér hina mismunandi kosti.

Ég held því fram t.d. að þurft hefði að gera það jákvæðara að velja á milli bíltegunda hér á landi, eða bílvélategunda öllu heldur, til þess að hafa áhrif á útblástur. Í öðrum löndum eru t.d. miklu fleiri dísilbílar en hér. Hvernig stendur á því? Það er vegna þess að hagkvæmara er að kaupa dísilbíla í þeim löndum og reka þá heldur en hér. Margt væri hægt að gera og mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki standi til að fara yfir þessi mál í heild sinni, þ.e. orkuskattana sem ríkið leggur á, með það fyrir augum að taka upp skatta af því tagi sem við höfum verið að tala um í dag, umhverfisgjöld og orkuskatta sem eru tengdir nýtingu á umhverfinu og líka útblæstrinum. Sá ráðherra sem sat í stólnum á undan honum reyndi fyrir margt löngu og reyndi oft að gera breytingar á þungaskatti. Hann gaf hér margar yfirlýsingar um að hann ætlaði svo sannarlega að gera það. Aldrei tókst honum að koma því til enda umfjöllunar í hv. Alþingi. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi einhver áform uppi um að reyna að leysa þau mál sem hæstv. fyrrv. ráðherra var að reyna að leysa þá. Auðvitað er innheimta á þungaskatti enn þá í þeim ólestri sem hún er búin að vera til margra ára og hæstv. ráðherra gerði gott í því ef hann vildi svara því hér hvort hann vill leggja til atlögu við þetta mál sem fyrirrennari hans réð ekki betur við en þetta.

Ég vil að lokum segja að mér finnst það ekki Framsfl. eða stjórnarliðum til mikils framdráttar eða heiðurs ef þeir ætla sér að fara að tala í neikvæðum tón um hugmyndir sem Samfylkingin hefur sett fram um að taka upp umhverfisgjöld vegna þess að þeir sem þannig tala eru að tala aftan úr fortíðinni. Í framtíðinni munu skattar verða umhverfisgjöld að mjög miklu leyti og þeir sem ekki skilja það nú eru einfaldlega að veltast um í fortíð sem vonandi verður að baki sem allra fyrst.