Viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:01:52 (291)

1999-10-11 15:01:52# 125. lþ. 6.91 fundur 52#B viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:01]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa yfir ánægju minni með viðveru þeirra fjögurra ráðherra sem hér eru mættir. Mér skilst að í fyllingu tímans muni þeir verða fimm. Óundirbúnir fyrirspurnatímar, eins og sá sem hér er á dagskrá, eru afskaplega þýðingarmiklir. Þeir gefa þingmönnum tækifæri til að spyrja um mál sem hafa þýðingu í umræðunni á hverjum tíma. Þeir gefa þingmönnum tækifæri til að kalla eftir áformum ráðherra í mikilvægum málum. Þeir eru sjaldnar á dagskrá en hefðbundnir fyrirspurnatímar og þess vegna er afar mikilvægt að ráðherrar setji viðveru sína í fyrirspurnatímum á Alþingi í öndvegi og láti þá hafa forgang á önnur mál.

Það eru tólf ráðherrar í þessari ríkisstjórn. Hér eru fjórir mættir. Í morgun stóð til að sjö ráðherrar yrðu til svara. Seint á morgninum bættust tveir við í forföll. Það þýðir að menn leyfa öðrum verkefnum að ganga fyrir því að sitja hér og ræða við þingmenn. Þess vegna spyr ég ráðherra: Er það svo að allir þessir ráðherrar hafi þurft að fara til útlanda? Eru þeir allir í svo brýnum viðfangsefnum að þeir hafa ekki séð sér fært að skjótast hingað í hálfa klukkustund til að ræða við þingmenn? Við þekkjum að það er alls ekki svo að ráðherrar temji sér að vera almennt við umræðu í þinginu ef þingmannamál eru á dagskrá. Þessi hálftími er því afskaplega mikilvægur og honum á að sýna ákveðna virðingu.