Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 17:02:07 (338)

1999-10-11 17:02:07# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[17:02]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spyr, hver er hættan og til hvers eru menn að þessu brölti, er þetta ekki algjörlega óþarft o.s.frv.? Einhverjar ástæðar valda því að slíkar takmarkanir eru þó við lýði jafnvíða og raun ber vitni og við skulum ætla að það séu ekki bara tilviljanir eða út í loftið eða að menn hafi gert það að gamni sínu sem einhverja æfingu í lagasetningu, heldur liggi þar á bak við rökstudd sjónarmið og viðhorf um að æskilegt sé að tryggja þessa dreifingu. Ég held að býsna sannfærandi rök séu færð fyrir því. Við getum síðan velt því fyrir okkur algjörlega óháð þessu hvort líkur verði á að slík samþjöppun verði. Eitt er að vera sammála um að hún sé óæskileg og annað er að meta líkurnar á að til þess kæmi ef engar reglur eru fyrir hendi. Ég held að hvort tveggja sé alveg ljóst, að samþjöppunin sé óæskileg og veruleg hætta er á henni við íslenskar aðstæður. Ég held reyndar að hún sé varhugaverðari og hættulegri í svona litlu hagkerfi þar sem nálægðin er jafnmikil og raun ber vitni, kunningskapurinn er jafnmikill og allt það, heldur en hún er í stóru hagkerfi. Samkeppnin er minni, færri kostum er til að dreifa o.s.frv. Setja má stór spurningarmerki við það að hve miklu leyti þetta er raunverulegur markaður sem um er að ræða og að hve miklu leyti þau lögmál sem hv. þm. vitnaði til gilda hér í viðskiptunum. Er það ekki svo að stundum sjáum við alveg borðliggjandi dæmi þess að önnur sjónarmið og aðrir hagsmunir, annað en hin sígildu lögmál viðskiptanna, ef svo má að orði komast, hafi áhrif á ákvarðanir manna? Það er spurningin um forræði, vald og ítök í stofnunum í þeim litla tebolla sem íslenski viðskiptaheimurinn er sem ræður oft og tíðum því miður miklu meiru en spurningin um dreifinguna.

Hætturnar eru auðvitað þær að annarlegir hagsmunir komi til sögunnar, að dreifingin í sjálfu sér dragi úr hættunni á misbeitingu í þágu einkahagsmuna á kostnað annarra og ef markaðurinn á að vera tryggingin en ekki lýðræðislega kjörin stjórn, eins og var t.d. í þingkjörnum bankaráðum, þá sé næstskársti kosturinn að tryggja dreifinguna.