Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:13:43 (1338)

1999-11-12 11:13:43# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:13]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir svarið. Þá vil ég spyrja hann hvort hann geti ekki verið sammála mér, út frá því sem ég sagði áðan, að þetta viðhorf sem hann lýsti úr sveitinni, að Reykjavík eða höfuðborgin væri kýli á landinu, geti ekki mótast af þessum óljósu skilum og ofvexti framkvæmdarvaldsins á einum stað vegna þess að það er niðurlægjandi fyrir alla að þurfa að sækja sér þjónustu annað. Það þótti Íslendingum á sínum tíma þegar þeir lutu stjórnsýslu Dana, þeim þótti niðurlægjandi að þurfa að fara og ná í og biðja um. Er þetta ekki mergurinn málsins í stjórnsýslu landsins? Við höfum verið með miðstýrt kerfi, miðstýrða stjórn þar sem allt er fært inn á þetta svæði, inn á stjórnsýsluna og menn hafa þurft að sækja allt þangað. Það er niðurlægjandi fyrir sjálfstæða menn og e.t.v. skýringin.

Ég spyr hv. þm. hvort hann telji að það geti e.t.v. verið meginskýringin á þeim viðhorfum sem hann telur sig hafa upplifað úti á landi gagnvart stjórnsýslunni eða höfuðborginni Reykjavík. Hann sagði að sveitungar sínir hefðu kallað höfuðborgina kýli á landinu. Ég tel að það sé myndrænt en ekki gagnvart fólkinu heldur gagnvart þeirri stöðu sem fólk var í gagnvart miðstýrðu kerfi.