Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 11:00:30 (2215)

1999-12-03 11:00:30# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[11:00]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar fyrra atriðið þá munum við að sjálfsögðu láta efh.- og viðskn. í té alla þá útreikninga og upplýsingar sem þessu máli tilheyra og þeir eru vissulega viðamiklir. Þar kemur í ljós nákvæmlega miðað við bílflokka, akstursvegalengdir á ári hverju, þyngd o.fl., þ.e. hvernig hver og einn flokkur tækja kemur út miðað við þá breytingu sem hér er lögð til.

Um síðara atriðið er það að segja að þar er vissulega ástæða til þess að hafa augun opin. Það eru að koma á markað svokallaðir tvíorkubílar og við höfum það til skoðunar í ráðuneytinu hvernig við getum komið til móts við þá þróun. En þar er þó ekki um að ræða þennan skatt, þungaskattinn, og heldur ekki bifreiðagjaldið sem fyrirspyrjandi nefndi --- það er auðvelt að rugla þessum gjöldum öllum saman --- heldur er þar um að ræða vörugjald á ökutæki við innflutning, en ekki á notkunina sem við erum að líta sérstaklega á.

Í fyrra málinu í dag vorum við að tala um bifreiðagjald. Nú erum við að tala um þungaskatt og nú er ég farinn að tala um vörugjöldin til viðbótar sem sýnir náttúrlega hvað þessi gjaldtaka er öll sömul flókin.