Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 13:01:53 (2245)

1999-12-03 13:01:53# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[13:01]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vænti þess að við fáum frekari umræðu af hálfu hæstv. viðskrh. um þensluna og stöðuna almennt í þjóðfélaginu en fram kom í stuttu andsvari. Maður getur auðvitað ekki látið bjóða sér að láta það nægja.

En út af fyrir sig ber að fagna því sem fram kom í andsvarinu og ég er sammála því að ef við stæðum frammi fyrir tveimur valkostum, að selja hlut úr bankanum eða að auka hlutafé, þá er þessi leið skynsamlegri. En af hverju liggur svona mikið á? Hæstv. ráðherra sagði hér fyrir tveimur og hálfu ári að ekki væri áformuð nein sala fyrr en eftir a.m.k. fjögur ár. Og það er enn eitt og hálft ár í það. Af hverju liggur svona mikið á að selja akkúrat núna? Þetta allt vekur tortyggni.

Mér finnst mjög gott að hér liggi fyrir yfirlýsing frá hæstv. ráðherra um að hann viðurkenni að þær rúmu heimildir sem bönkunum voru gefnar fyrir rúmu ári síðan, um 35% aukningu á hlutafé og sala á 15% af því, hafi m.a. átt mikinn þátt í þeirri þenslu sem við stöndum nú frammi fyrir. Það er mjög gott að hún liggi fyrir vegna þess að það gefur okkur betra svigrúm til að fá heildarmynd af öllu dæminu.

Og það kallar enn frekar á það sem ég hef áður sagt, að við þurfum að fá mat Seðlabanka og fjármálamarkaðarins á þeirri stöðu sem uppi er núna á fjármálamarkaðnum, hvort eðlilegt sé að fara í þessa sölu núna, hvort þetta sé rétti tíminn og hvaða áhrif þetta hefur almennt. Það lá svo mikið á fyrir ári síðan að fá þessa heimild til hlutafjáraukningar að ekki gafst tími til að skoða þetta almennilega og þess vegna hefur það haft þessi áhrif á þensluna og það á auðvitað að verða víti til varnaðar. Við eigum því að gefa okkur góðan tíma í að skoða þetta frv. og áhrifin af því.