Hætta á olíumengun í grunnvatni við Reykjanesbraut

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:29:03 (2318)

1999-12-06 14:29:03# 125. lþ. 36.1 fundur 183#B hætta á olíumengun í grunnvatni við Reykjanesbraut# (óundirbúin fsp.), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:29]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Á Reykjanesi háttar svo til að skaginn er eins og götóttur ostur. Efst af mörgum vatnslögum er neysluvatnið. Og neysluvatnið virðist vera sama filman undir nánast öllum skaganum. Þannig virðast alla vega mjög greiðir gagnvegir á milli þannig að það sem fer niður á einum stað smitar allt neysluvatnið á skaganum. Það sannaðist fyrir nokkrum árum þegar loðnuflutningabíll valt, á Grindavíkurvegi að mig minnir, og í langan tíma á eftir smitaðist allt neysluvatnið af farminum.

Mér kemur þetta stundum í hug þegar ég mætti á tíðum ferðum mínum um Reykjanesbrautina endalausum flutningabílum á ferð með olíu og bensín upp á Keflavíkurflugvöll utan úr Skerjafirði. Hvað ef eitthvert af þessum gríðarlegu tækjum með marga aftanívagna mundi nú velta á þessari leið, farmurinn færi í jarðveginn og eyðilegði þar með allar neysluvatnsbirgðir á Reykjanesi? Hver væri ábyrgur? Er olíufélagið sem er bótaskylt í slíku tilfelli? Hafa tryggingafélögin tryggt olíufélögin fyrir slysum af því tagi? Eða mundi ríkissjóður takast á við þann gríðarlega vanda sem af þessu mundi hljótast?