Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 15:31:28 (2340)

1999-12-06 15:31:28# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[15:31]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fór mikinn í því að réttlæta tilveru Byggðastofnunar. Hann sagði m.a. að takmarkaður skilningur væri á stöðu fyrirtækja úti á landi og þá væntanlega af hendi lánastofnana í Reykjavík. Nú er það svo að allt er yfirfljótandi í peningum og lánastofnanir í Reykjavík og alls staðar á landinu leita með logandi ljósi að góðum skuldurum. Getur þá verið að þessi fyrirtæki úti á landi séu ekki góðir skuldarar? Er Byggðastofnun að taka að sér lélega skuldara með þessum hætti?

Hv. þm. sagði að Byggðastofnun væri ætlað að laða fram frumkvæði. Því vil ég spyrja: Hefur hann þá trú að opinberir starfsmenn séu best til þess fallnir að laða fram frumkvæði? En starfsmenn Byggðastofnunar eru væntanlega opinberir starfsmenn eftir því sem ég veit best.

Nú er það svo að byggðaröskun hefur aldrei verið meiri en eftir að Byggðastofnun var sett á laggirnar og verður því verri sem hún starfar lengur. Hins vegar hefur verðbréfamarkaðurinn skutlað miklu meiri peningum út á land en nokkurn tímann Byggðastofnun og vil ég þar nefna Neskaupstað, Eskifjörð og svo núna Reyðarfjörð sem á að fá tugi milljarða fram hjá Byggðastofnun. Getur ekki verið að Byggðastofnun sé tímaskekkja, úrræði sem löngu er úrelt og ætti þar af leiðandi að leggja niður?