Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 16:12:31 (2350)

1999-12-06 16:12:31# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[16:12]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að meginatriðið væri að stjórn Byggðastofnunar yrði kosin áfram af Alþingi. Ég vil spyrja hv. þm. að því hvernig Alþingi geti gagnrýnt stjórn sem það hefur sjálft kosið. Er ekki miklu eðlilegra að stjórnin sé kosin af ráðherra eða skipuð af ráðherra og þá hafi Alþingi frjálsar hendur með að gagnrýna þær ákvarðanir sem stjórnin gerir og tekur.

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þm. um eftirfarandi: Nýsköpunarsjóður, Þróunarfélagið og margir aðrir aðilar stuðla að og hafa að markmiði að veita fé til nýsköpunar, bæði í formi hlutafjár, stofnfjár og lána. Síðan er lánamarkaðurinn að sjálfsögðu með sína starfsemi. Ráðgjafarstofur eru margar víða um land og spurning mín er sú: Hvaða verkefni Byggðastofnunar geta einkaaðilar ekki framkvæmt?