Endurheimt íslenskra fornminja frá Danmörku

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 13:43:44 (3599)

2001-01-16 13:43:44# 126. lþ. 58.1 fundur 352. mál: #A endurheimt íslenskra fornminja frá Danmörku# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., TIO
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorgerði Gunnarsdóttur fyrir að vekja máls á þessu. Ég vil einnig taka undir það sem hæstv. menntmrh. hefur sagt að okkur ber að fara af mikilli gát í þessu máli og við erum bundnir ákveðnum skuldbindingum í sambandi við málið.

Hins vegar er ekki hægt að horfa fram hjá því að samningsstaða okkar á þeim tíma var þröng. Við vildum ná hingað til landsins okkar mestu þjóðardýrgripum og vorum þar af leiðandi tilbúnir til þess að ganga nokkuð langt. Viðhorf til þessara mála hafa breyst og þau hafa breyst nokkuð hratt undanfarna áratugi, ekki síst í ljósi þess hvað gerðist á tímum heimsstyrjaldarinnar síðari í sambandi við listmuni og þjóðardýrgripi. Ég held því að mikilvægt sé að við leitum leiða til að ræða þessi mál við Dani. Ég tel fullvíst í ljósi þess að Danir eru miklir vinir Íslendinga og þeir stóðu að þessum málum á sínum tíma með sóma, að við gætum fundið leið til þess að orða málið við þá eða kanna hvort einhverjir fletir séu á málinu sem hægt sé að ná sátt við þá um.