Framlög til lögregluumdæmis Árnessýslu

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:02:27 (3607)

2001-01-16 14:02:27# 126. lþ. 58.2 fundur 372. mál: #A framlög til lögregluumdæmis Árnessýslu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni og segi það enn að ljóst er að ekki verður unnt að vinna á halla af þessari stærðargráðu nema með sérstöku aðhaldi í rekstri. Sýslumaðurinn á Selfossi hefur tekið þátt í þeirri vinnu og lagt fram margvíslegar tillögur um aðgerðir og ráðuneytið fallist á þær og þær eru helstar: Skipulagsbreytingar og yfirvinnuþak á skrifstofu sýslumanns, aukið aðhald í innkaupum og almennum rekstrarkostnaði, hreppstjórum var sagt upp og létu þeir af störfum 1. sept. 2000. Ekki er ráðið í lausar stöður fastráðins lögregluþjóns. Sparað er í sumarafleysingum í löggæslu og löggæslubifreiðum fækkað.

Þetta eru staðreyndir sem blasa við og menn verða að taka á vandanum. Það er alveg ljóst. Með endurskipulagningu í rekstrinum er það von okkar að unnt verði að vinna á þessum gríðarlega rekstrarvanda sem blasir við embættinu. En ég vil vekja athygli á því að þrátt fyrir slæma rekstrarstöðu er ástand mála almennt gott í umdæmi sýslumannsins á Selfossi og engin aðkallandi vandamál sem embættið hefur glímt við, t.d. aukning afbrota. Málafjöldi hjá lögreglunni hefur nokkurn veginn staðið í stað á undanförnum árum þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað nokkuð. Það eru ýmis úrræði sem við sjáum í stöðunni þrátt fyrir að embættið verði að sýna aðhald í rekstri, t.d. hefur átak í fíkniefnalöggæslunni náð til Selfoss þar sem bætt var við stöðu sérstaks fíkniefnalögreglumanns á síðasta ári. Ég legg líka mikla áherslu á að styðja embættið í umferðarmálum og nú er í undirbúningi að koma á samstarfi milli ríkislögreglustjóra og Vegagerðarinnar sem felst í víðtæku samstarfi við lögregluembætti á suðvesturhorninu. Ég mun styðja það átak og væntanlega leggja til auknar fjárveitingar til þess og kemur það embætti sýslumannsins á Selfossi að sjálfsögðu til góða og bætir umferðaröryggið verulega.

Ég vil að lokum segja að ég þakka hv. þm. fyrir áhuga þeirra á málinu og ég deili áhuga þeirra á málinu og vona svo sannarlega að fljótlega verði unnt að vinna á þessum fjárhagsvanda hjá embættinu. Mér finnst þó rétt að undirstrika að lögreglan í Árnessýslu hefur staðið sig mjög vel í störfum sínum.