Einbreiðar brýr

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:18:38 (3616)

2001-01-16 14:18:38# 126. lþ. 58.3 fundur 374. mál: #A einbreiðar brýr# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka fyrir góðar ábendingar hv. þm. og ég fagna því að við getum tekið höndum saman í þessum efnum. Við þessa umræðu hafa komið fram ýmsar athyglisverðar ábendingar sem ég tel rétt að bregðast við. Meðal annars var minnst á blikkandi aðvörunarljós sem í tilraunaskyni hafa verið sett upp við nokkrar brýr sem reynst hafa hættulegar. Að vísu liggja ekki fyrir tölulegar upplýsingar um árangurinn en ég tel verkefnið þarft.

Ég hef átt mjög gott samstarf við hæstv. samgrh. varðandi umferðaröryggismál og í undirbúningi eru ákveðnar tillögur, m.a. um aukna löggæslu í umferðinni. Þar að auki skipaði ég starfshóp þar sem formaður allshn. er formaður. Ég vonast til að sá hópur muni fljótlega skila tillögum til mín um aðgerðir til að auka umferðaröryggi, þar á meðal um breytingar á umferðarlögum. Ég tel koma til greina að vísa því til þessa starfshóps að skoða þá hugmynd sem fram kemur í fsp. hv. fyrirspyrjanda.

Ég ítreka þakkir mínar fyrir þessa umræðu.