Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 16:40:55 (4846)

2001-02-20 16:40:55# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[16:40]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað nokkuð sérstakt að kallað sé eftir áliti ráðherra við 1. umr. um frv. en fyrst að eftir því hefur verið kallað þá hef ég ákveðið að víkja stuttlega að því máli sem er til umræðu. En auðvitað er það allshn. venju samkvæmt að fjalla um málið.

Ég vil að gefnu tilefni taka það fram að ég ber fullt traust til forseta þingsins, Halldórs Blöndals, og mér finnst mjög sérstakt hjá hv. þm. að koma með þessar ásakanir í hans garð. Ég tel að hann gæti mjög vel að hag þingmanna og mér finnst rétt að ítreka það.

Þá var áðan líka rætt af hálfu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um minnihlutastjórnir. Mér fannst mjög sérstakt að það var eins og hún talaði þannig að hún saknaði þess að ekki væri slíkt fyrirkomulag hér á landi en það er auðvitað staðreynd að það er ekki hefð samkvæmt íslenskri stjórnskipun að hér starfi minnihlutastjórnir. Ég tel að hv. þm. eigi ekki að gera lítið úr hlutverki sínu á hinu háa Alþingi, það er auðvitað ákaflega mikilvægt.

Að ýmsu leyti hefur þetta verið ágæt umræða og ýmsar ábendingar hafa komið fram, m.a. hefur verið bent á að starfsaðstaða þingmanna hefur stórbatnað á síðustu árum. Ég þekki vel til þessara mála eftir að hafa verið í nefndastarfi um árabil. Það þarf auðvitað að gæta að því að það sé vel staðið að verki í vinnu frumvarpa. Ég leyfi mér raunar að fullyrða að svo sé. Þar sem ég þekki til í dóms- og kirkjumrn. er vandað mjög vel til stjórnarfrv., raunar er það almennt í þeim málum sem ég hef kynnst á vegum ríkisstjórnarinnar. En varðandi dómsmrn. er rétt að geta þess að það eru sérstakar nefndir sérfræðinga starfandi. Ég nefni til réttarfarsnefnd, refsiréttarnefnd og sifjalaganefnd. Það er ákaflega mikilvægt að sérfræðingar á þeim sviðum sem þar er fjallað um komi að samningu slíkra frv.

Nokkuð hefur líka verið rætt um hlutverk umboðsmanns Alþingis sem er auðvitað mjög mikilvægt. Áðan var minnst á það að þegar hann kemur með ábendingar sínar um meinbugi á lögum hefur hann vísað þeim ábendingum til allshn. sem hefur tekið við þeim og komið þeim athugasemdum aftur á framfæri við ráðuneytin sem hafa alla jafna brugðist vel við.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmönnum að það þarf að gæta mjög vel að í þessum málum, það þarf að vanda vel til löggjafar.

En það er nokkuð erfitt að átt sig á því hvað átt er við þar sem segir í frv. að setja skuli ,,samræmdar reglur um samningu lagafrumvarpa og annan undirbúning löggjafarmála``. Og bent hefur verið á það að ólíklegt virðist að þingmenn og ráðherrar væru tilbúnir til að sæta því að þurfa að fara eftir hugmyndum einhverrar nefndar um það hvernig þeir eigi að bera sig að áður en þeir leggja frv. sín fyrir Alþingi.

Í athugasemdum með frv. er að því vikið að allt frá árinu 1929 hafi verið í gildi lög um laganefnd en þar er um að ræða þriggja manna nefnd sem forsrh. er veitt heimild til að skipa en starfssvið nefndarinnar er afmarkað með svipuðum hætti og lagaráði því sem nú er lagt til að stofna. En ekki er vitað til að nokkur ríkisstjórn hafi nýtt sér þessa heimild heldur hefur venjan verið sú að þegar ástæða hefur þótt til hafa verið kallaðir til þeir menn sem best hafa þótt til þess fallnir að koma að samningu einstakra frv.

Rétt er að benda á að í skýrslu nefndar um starfsskilyrði stjórnvalda, sem skipuð var í samræmi við ályktun Alþingis frá 2. júní 1998, var lagt til að tekið yrði til athugunar hvort ekki væri ástæða til að koma á fót lagaskrifstofu við Stjórnarráð Íslands.

[16:45]

Í skýrslum nefndarinnar er bent á að annars staðar á Norðurlöndum sé það liður í starfi þeirra ráðuneyta sem almennt fara með stjórnarfar, oftast dómsmálaráðuneyta, að starfrækja sérstakar lagaskrifstofur sem hafi með höndum að fara yfir stjórnarfrv. og kanna m.a. hvort lagatæknilegir hnökrar séu á þeim, auk þess sem kannað er hvort frv. eru samrýmanleg ákvæðum stjórnarskrár. Í Danmörku og Noregi er það einmitt þannig. Eitt af hlutverkum lagadeildar danska dómsmálaráðuneytisins er að fara yfir lagafrv. annarra ráðuneyta.

Ég er þessu sammála og er því sammála hæstv. forsrh. um að að þessu athuguðu virðist nærtækara og í betra samræmi við það sem þekkist annars staðar á Norðurlöndum að horft verði til þess að efla lagaskrifstofu á vegum Stjórnarráðsins eða standa fyrir sérstöku átaki í því sambandi með það fyrir augum að lagafrv. fái vandaða lögfræðilega skoðun áður en þau eru lögð fyrir Alþingi.

Hæstv. forsrh. hefur farið vel yfir þetta mál og hvernig staðið er að samningu lagafrv. af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hann hefur einmitt tekið undir að vanda mjög vel til verka í því sambandi. Í umræddri skýrslu sem hæstv. forsrh. kynnti fyrir þinginu, hann stóð fyrir því að sú skýrsla var vel úr garði gerð eins og hv. þm. hafa séð, það er sérstök bók, var lagt til að slík lagaskrifstofa yrði á vegum Stjórnarráðsins en ekki lagaráð á vegum Alþingis. Hæstv. forsrh. nefndi ýmislegt um hvernig farið væri með ýmis sérákvæði í stjórnarfrumvörpum, hvernig þau væru yfirfarin sérstaklega og nefndi til ýmis ráðuneyti í því sambandi, t.d. fjmrn. og dómsmrn.

Þetta eru þau atriði sem ég vildi koma á framfæri á þessu stigi málsins, hæstv. forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að það er að sjálfsögðu hv. allshn. Alþingis sem fer yfir þetta mál. Ég tel hins vegar gagnlegt að þessi umræða eigi sér stað. Það er auðvitað rétt og skylt fyrir þingmenn að velta fyrir sér hvernig staðið er að málum hér á löggjafarþinginu. Almennt held ég að segja megi að Ísland standi þar nokkuð vel að vígi. Telji menn að það þurfi að bæta eitthvað þar úr þá tel ég heppilegra að nálgast málið með því að koma á lagaskrifstofu á vegum Stjórnarráðsins.